Results for 2022-01

Átján ár af Sloth

30.1.2022 kl. 19:47 - Sveinbjörn Þórðarson

Árið 2004 gaf ég fyrst út hugbúnaðinn Sloth 1.0 fyrir macOS. Á þeim tíma var ég að kenna sjálfum mér forritunarmálið Objective-C og þetta var eins konar hugarleikfimi, æfing í að smíða eitthvað gagnlegt, sýna UNIX innyfli Mac OS X í snyrtilegu grafísku viðmóti. Í dag, átján árum síðar, var ég rétt í þessu að senda útgáfu 3.2 út í heiminn, 26. uppfærslan á þessu langa tímabili.

Samkvæmt mínum gögnum er Sloth enn sótt mörg þúsund sinnum í mánuði og er notað reglulega af hátt í hundrað þúsund manns um allan heim. Á þessu stigi málsins er þetta mjög sjóaður og "battle-hardened" hugbúnaður, opinn, hraður, einfaldur, skilvirkur og svo gott sem laus við allar villur. Eitthvað sem ég er stoltur af að hafa smíðað. Fæ meira að segja enn stundum starfstilboð út af þessu.

Separator

Slopphelgi

29.1.2022 kl. 15:51 - Sveinbjörn Þórðarson

Um árið fann ég upp á nýju og gagnlegu íslensku orði: „slopphelgi“.

Orðið (og hugtakið þar að baki) er af svipuðum toga og landhelgi, friðhelgi o.s.frv. nema að það vísar til þess þegar maður vaknar á frídegi og ákveður að vera bara heima á sloppnum þann daginn í stað þess að stökkva í sturtu og klæða sig að vanda. Slopphelgi.

Svo þegar eitthvað kemur upp á og maður neyðist til þess að kasta af sér sloppnum, fara í föt og takast á við stóra heiminn fullklæddur, er hægt að tala um að „rjúfa slopphelgi“, að einhver eða eitthvað hafi „rofið slopphelgi“ manns. Þetta kemur því miður allt of oft fyrir mig í lífinu.

Separator