Sveinbjörn Þórðarson Quill

Blog[g]

RSS

Surfing across the pale parabola of joy, spewing and venting into the bottomless pit of /dev/null.


Those who can

10.1.2026 kl. 18:22 - Sveinbjörn Þórðarson
"Those who can, do. Those who can't, teach."

Fáránleg staðhæfing sem sýnir fávisku og skilningsleysi bjánans sem lét sér detta þennan frasa fyrst í hug. Maður veit varla hvar á að byrja. Í fyrsta lagi, þá eru það einmitt þeir sem hafa gert hluti sem eru bestu kennararnir. Í öðru lagi, þá er framlegð þeirra sem deila kunnáttu sinni þess eðlis að hún fer til margra og hefur margföldunaráhrif út um allt samfélagið, og gerir okkur öll auðugri. Ég væri sannarlega annar og minni maður án alls þess sem ég lærði af mínum mörgu frábæru kennurum. Að tala niður kennarastarfið á svona yfirborðskenndan hátt gerir engum neinn greiða. Það ber vott um fúndamental skilningsleysi varðandi hvernig uppbygging þekkingar, kunnáttu og sköpunar á sér stað í samfélaginu. Svei! Og ég er ekki einu sinni kennari.

Separator

Utanríkisstefna

5.1.2026 kl. 13:23 - Sveinbjörn Þórðarson

Utanríkisstefna Íslands ætti að vera að grípa fast um vinstri fótlegg Noregs, eins og lítið barn, halda eins fast og hægt er, og hreinlega vona það besta. Hvað eru 700 ár milli vina?

Separator

Venezuela

4.1.2026 kl. 09:18 - Sveinbjörn Þórðarson

Mig minnir að ég hafi verið um tvítugt þegar ég las fyrst bækur Chomskys og kynntist sóðalegri sögu Bandaríkjamanna í latnesku Ameríku. Ég ætla ekki að þykjast vita hvernig þetta fer allt saman, en eitt er víst - að þetta endar allt saman í tárum, tárum þeirra sem fá að njóta "lýðræðisvæðingarinnar".

Separator

Vietnam vet

17.12.2025 kl. 22:55 - Sveinbjörn Þórðarson

Ég man eftir þessari kvikmynd í VHS rekkanum á vídeóleigunni Gerplu á horni Sólvallagötu og Hofsvallagötu snemma á 10. áratuginum. Íslenski textinn aftan á spólunni var e-ð í þessa átt: "Tim Robbins leikur víetnamska dýralækninn Jacob Singer..."

Mér þótti þetta stórfurðuleg lýsing á sínum tíma. Það var bara mörgum árum seinna sem ég fattaði að greyið þýðandinn hafði eitthvað ruglast með hvað "Vietnam vet" þýddi.

jacobs ladder
Separator

It's rich. That always helps.

3.12.2025 kl. 20:59 - Sveinbjörn Þórðarson

Þegar ég var að fljúga heim frá Gatwick um daginn þurfti ég að skila af mér farangri. Við röðina var myndarleg blökkustúlka í EasyJet búningi. Hún bað mig um farmiða og vegabréf.

"Iceland, eh? What's that like?"
"Cold" svaraði ég og brosti.
"Yeah, well, it's bloody cold here as well... Is it a happy place?"
Ég hugsaði mig um í svona sekúndu, svaraði svo hikandi:
"Yeah. It's rich. That always helps," og uppskar hlátur.

Í fluginu las ég eintak af The Economist þar sem fjallað var í löngu máli um hvernig lágmarkslaun væru að knésetja kapítalistastéttina.

Af einhverri ástæðu hefur þessi stutta samræða verið mér hugleikin undanfarna viku.

minwage
Separator

Allt í steik í Bretlandi að vanda

26.11.2025 kl. 10:53 - Sveinbjörn Þórðarson

Geta ekki ákveðið hvort þeir eigi að nota metrakerfið eða þetta fáránlega imperial rugl. Geta ekki ákveðið hvort þeir séu bandarískir eða evrópskir. Geta ekki einu sinni gert upp við sig hvort það sé hægri eða vinstri umferð. Varla að undra að allt er í steik í þessu greyið landi.

Keep right UK
Separator

Tíu þúsundasta viðbótin við ensk.is

18.11.2025 kl. 18:13 - Sveinbjörn Þórðarson

Rétt í þessu var að renna upp sú stóra stund að ég bætti tíu þúsundustu (10.000.) viðbótinni við Ensk.is orðabókina. Fyrir áhugasama var hún eftirfarandi, svosem ekki merkileg:

underutilize s. vannýta, nýta ekki til fulls"

Viðbætur eru nú orðnar um 25,5% af öllum færslum. Styttist í að fletturnar í heild verði 40 þúsund talsins. Gaman að sjá að heimsóknum á vefinn fjölgar iðulega á sunnudagskvöldum. Lítið hefur greinilega breyst frá skólaárum mínum, þegar allir létu vinnu við verkefnaskil mánudagsins bíða fram á síðustu stundu.

Separator

Hobgoblin of little minds

9.11.2025 kl. 17:36 - Sveinbjörn Þórðarson

Hvað var það sem Emerson sagði? „A foolish consistency is the hobgoblin of little minds“.

hagkaups vs. hagkaupa
Separator

Ensk.is styður nú myrkraham

29.9.2025 kl. 09:44 - Sveinbjörn Þórðarson

Gaman frá því að segja að vefurinn ensk.is styður nú loksins myrkraham (e. dark mode). Útfærslan byggir alfarið á CSS og reiðir sig því hvorki á vefkökur né JavaScript. Fantagóður stuðningur við það í nýlegum vöfrum.

enskis darkmode
Separator

Frances McDormand

22.9.2025 kl. 01:15 - Sveinbjörn Þórðarson

Fyrir nokkrum árum var ég staddur með vinafólki í litlu indí kvikmyndahúsi í Soho i London þegar ég tók eftir því að stórleikkonan Frances McDormand var á svæðinu, að lesa dagblað og fá sér kaffibolla. Mig dauðlangaði af gefa mig á spjall við hana og láta hana vita hversu mikið ég kynni að meta hennar hæfileika, og allar þær frábæru kvikmyndir sem hún hefur verið í, en að lokum gerði ég það ekki, Íslendingurinn sem ég er. Sat bara úti í horni og sötraði kaffi með vinum og gautaði augunum við og við í hennar átt þar til hún fór. Horfði aftur á frábæru Coen kvikmyndina Fargo í gærkvöldi og óskaði þess skyndilega að ég hefði látið ríða á vaðið á sínum tíma. Stórkostleg leikkona.

Separator

9000 viðbætur

17.7.2025 kl. 11:31 - Sveinbjörn Þórðarson

Var að leggja lokahönd á níu þúsundustu [!] viðbótina við Ensk.is orðabókina. Nú er hátt í fjórðungur af öllum uppflettiorðum beint úr minni smiðju. Þetta er búið að taka rúmlega þrjú ár af vinnu í hjáverkum: á kvöldin, um helgar, þegar tækifæri gafst. Það gerir um sex færslur á dag að meðaltali frá því að vefurinn fór fyrst í loftið 2021. Þessi reynsla hefur gert það afar skýrt fyrir mér, sem hef aðgang að alls konar stafrænum uppflettitólum og aðferðum, hversu sturlað mikil vinna það hefur verið að smíða orðabækur frá grunni á öldum áður. Við stöndum sannarlega á herðum risa.

Separator

Stef Platós

16.7.2025 kl. 17:23 - Sveinbjörn Þórðarson

Það líður varla sá dagur þar sem ég sakna ekki vinar míns Plató, sem var svo æðrulaus, forvitinn, djarfur og lífsglaður, og smitaði það út frá sér. Sirka 2019 eða eitthvað samdi ég (ölvaður) lítið stef til að lýsa honum, hérna er klunnalega upptakan sem ég fann á tölvunni minni.

Separator

Eldri færslur ↠