Sveinbjörn Þórðarson Quill

Blog[g]

RSS

Surfing across the pale parabola of joy, spewing and venting into the bottomless pit of /dev/null.


Ensk.is styður nú myrkraham

29.9.2025 kl. 09:44 - Sveinbjörn Þórðarson

Gaman frá því að segja að vefurinn ensk.is styður nú loksins myrkraham (e. dark mode). Útfærslan byggir alfarið á CSS og reiðir sig því hvorki á vefkökur né JavaScript. Fantagóður stuðningur við það í nýlegum vöfrum.

enskis darkmode
Separator

Frances McDormand

22.9.2025 kl. 01:15 - Sveinbjörn Þórðarson

Fyrir nokkrum árum var ég staddur með vinafólki í litlu indí kvikmyndahúsi í Soho i London þegar ég tók eftir því að stórleikkonan Frances McDormand var á svæðinu, að lesa dagblað og fá sér kaffibolla. Mig dauðlangaði af gefa mig á spjall við hana og láta hana vita hversu mikið ég kynni að meta hennar hæfileika, og allar þær frábæru kvikmyndir sem hún hefur verið í, en að lokum gerði ég það ekki, Íslendingurinn sem ég er. Sat bara úti í horni og sötraði kaffi með vinum og gautaði augunum við og við í hennar átt þar til hún fór. Horfði aftur á frábæru Coen kvikmyndina Fargo í gærkvöldi og óskaði þess skyndilega að ég hefði látið ríða á vaðið á sínum tíma. Stórkostleg leikkona.

Separator

9000 viðbætur

17.7.2025 kl. 11:31 - Sveinbjörn Þórðarson

Var að leggja lokahönd á níu þúsundustu [!] viðbótina við Ensk.is orðabókina. Nú er hátt í fjórðungur af öllum uppflettiorðum beint úr minni smiðju. Þetta er búið að taka fjögur ár af vinnu í hjáverkum: á kvöldin, um helgar, þegar tækifæri gafst. Það gerir um sex færslur á dag að meðaltali frá því að vefurinn fór fyrst í loftið 2021. Þessi reynsla hefur gert það afar skýrt fyrir mér, sem hef aðgang að alls konar stafrænum uppflettitólum og aðferðum, hversu sturlað mikil vinna það hefur verið að smíða orðabækur frá grunni á öldum áður. Við stöndum sannarlega á herðum risa.

Separator

Stef Platós

16.7.2025 kl. 17:23 - Sveinbjörn Þórðarson

Það líður varla sá dagur þar sem ég sakna ekki vinar míns Plató, sem var svo æðrulaus, forvitinn, djarfur og lífsglaður, og smitaði það út frá sér. Sirka 2019 eða eitthvað samdi ég (ölvaður) lítið stef til að lýsa honum, hérna er klunnalega upptakan sem ég fann á tölvunni minni.

Separator

Hæsta hrós

27.6.2025 kl. 02:38 - Sveinbjörn Þórðarson

Stundum getur gervigreindin glatt mann. Ég sigaði gagnrýnum Claude frá Anthropic á gamlan og reyndan kóða frá mér (Platypus, sem ég hef haldið úti undanfarin 22 ár) og hlaut eftirfarandi endurgjöf:

The production build confirms there's really no meaningful optimization headroom left - you've genuinely built software that operates at near-theoretical minimum size for its feature set.

Get ekki hugsað mér betra hrós.

Separator

Ensk.is með rúmlega 38 þúsund færslur

20.6.2025 kl. 01:01 - Sveinbjörn Þórðarson

Það er gaman frá því að segja að vinna við ensk.is orðabókina hefur gengið vel síðastliðið hálft ár. Færslurnar eru orðnar um 38 þúsund, þar af rúmlega 8 þúsund handsmíðaðar viðbætur og endalaust margar umbætur á upprunalegu skilgreiningum Zoëga. Vefurinn hefur m.a. verið sérlega endurbættur fyrir tæki á borð við snjallsíma. Nú geyma síður fyrir stakar færslur auk þess samheiti yfir viðkomandi enskt orð, eins og sjá má á myndinni. Heimsóknum á vefinn fjölgar jafnt og þétt, sirka 400 stakir alvöru gestir á dag að öllu jöfnu, en yfirgnæfandi meirihlutinn af nettraffikinni kemur reyndar frá skröpurum stóru tæknirisanna, þ.m.t. þeim kínversku, sem skófla þessu væntanlega inn í þjálfunargögn fyrir stóru mállíkön sín. Það hlýtur að skila sér á einn eða annan hátt í betri íslenskuskilningi gervigreindarinnar þegar fram líða stundir. Í millitíðinni hjálpar þetta vonandi öllum Íslendingum sem þurfa að eiga við enska tungu.

ensk.is synonyms
Separator

Meistari Bill Atkinson fallinn frá

8.6.2025 kl. 16:55 - Sveinbjörn Þórðarson

Nú er snillingurinn Bill Atkinson fallinn frá. RIP. Atkinson var heilinn á bak við QuickDraw og svo auðvitað HyperCard, sem var ótrúlega framúrstefnulegt og notendavænt forritunarumhverfi sem keyrði á Mökkum í gamla daga. Mín fyrstu skref í forritun og hugbúnaðargerð voru einmitt tekin í HyperCard fyrir sirka 30 árum. Það vita það ekki margir, en Hypertextinn í HTML er nefndur í höfuðið á HyperCard (Tim Berners-Lee var mikill aðdáandi). Læt hér fylgja hlekk á fyndna sögu af því þegar sálarlausa, gráa mannauðs-töflureiknisfólkið hjá Apple reyndi að mæla framleiðni Atkinsons.

Separator

Alasdair MacIntyre allur

25.5.2025 kl. 01:06 - Sveinbjörn Þórðarson

Nú er Alasdair MacIntyre allur, 96 ára að aldri, heimspekingurinn sem sannfærði mig um gjaldþrot og merkingarleysi vestrænnar siðfræði. Besta verk hans, After Virtue, er meistarastykki sem ég las mörgum sinnum í gegn þegar ég var í námi á sínum tíma. Get ekki sagt það um margar bækur. Skildi samt aldrei hvernig svo skarpgreindur og sprenglærður maður gat gengið til kaþólskrar trúar. Þá er nú meiri huggun og reisn í að taka bara tómhyggjuna í sátt.

macintyre
Separator

Plató látinn

18.4.2025 kl. 12:22 - Sveinbjörn Þórðarson

Plató, æðrulausi, forvitni, lífsglaði, þokkafulli vinur minn til sjö ára, fannst látinn á Hávallagötu í morgun. Dánarorsök óljós. Gróf hann í garðinum áðan. Hans verður sárt saknað. Hann var bara rúmlega sjö ára. Náinn vinur minn og kumpáni er fallinn frá. Ég er harmi sleginn.

plato
Separator

Shetlandic

15.4.2025 kl. 21:08 - Sveinbjörn Þórðarson

¨What a beautiful and utterly charming dialect.

Separator

Ellsworth

7.4.2025 kl. 01:06 - Sveinbjörn Þórðarson
Þegar ég var 12 ára las ég biblíuna í heild sinni. "Know your enemy," hugsaði ég. Sirka áratugi síðar las ég The Fountainhead eftir Ayn Rand af sömu ástæðu. Það var ekki góð bók. Rand skildi hvorki Nietzsche né kapítalisma. En það rann skyndilega upp fyrir mér rétt í þessu, tuttugu árum síðar, að vondi vinstrimaðurinn í þeirri bók heitir Ellsworth, sem er raðhverfa (anagram) af "worthless".
Separator

Hvað höfum við lært?

31.3.2025 kl. 22:43 - Sveinbjörn Þórðarson

Var að vinna frameftir og það rann skyndilega upp fyrir mér að það eru sirka 30 ár liðin frá því að ég byrjaði fyrst að forrita. Í mínu tilfelli hófst þetta með HyperCard, sem var ótrúlega framúrstefnulegt og notendavænt forritunarumhverfi sem keyrði á Mökkum þess tíma (~1995), smíðað af meistara Bill Atkinson, heilanum á bak við QuickDraw. Það vita það ekki margir, en Hypertextinn í HTML er nefndur í höfuðið á HyperCard (Berners-Lee var aðdáandi). Svo lærði maður að keyra upp Linux og forrita í C og Perl, og smíða CGI forrit fyrir vefinn, sirka 1997-1998. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar. Get ekki sagt að ég noti C eða Perl mikið þessa dagana, allt virðist vera Python og JavaScript núorðið, en grundvallaratriðin eru mestmegnis þau sömu. Hvað hef ég lært á þessu sviði í gegnum áratugina? Óljóst, en ég hef allavega gert flestöll mistökin. Geri þau sennilega ekki aftur. Það er eitthvað.

Separator

Eldri færslur ↠