Ég og Jón Bjarki vorum fyrstir til þess að fjalla um þetta mál þegar við störfuðum á DV á sínum tíma, það stórkostlega og eiginlega ótrúlega klúður lögreglu að kunna ekki einu sinni að fjarlægja nöfn fólks úr Word-skjali. Það var bókstaflega settur svartur bakgrunnur á nöfn í skjalinu og síðan exportað yfir í PDF - úps! Gott að nafngreindir hafi fengið bætur, þótt litlar séu. Og vonandi hefur lögreglan lært sína lexíu. Þetta var gríðarlegur skortur á fagmennsku hjá stofnun sem fer með mikið af viðkvæmum persónuupplýsingum.
Hafa þessir þingmenn í alvörunni ekkert betra við tíma sinn að gera? Eftir því sem ég best veit hefur helfararafneitun ekki beinlínis verið aðkallandi vandamál hér á landi í gegnum tíðina. Og hvað með önnur þjóðarmorð, t.d. það sem NATO-vinir okkar Tyrkir gerðu Armenum? Eða framferði Japana í Nanjing? Nú, eða Rómverjar í Kórinþu á 2. öld f.kr.? Svo er auðvitað úr ýmsu að velja í biblíunni. Söguskoðun bjána verður ekki breytt með refsilöggjöf. Dæs.
Jæja, þá er vinur minn Gutti (Guðmundur Ívarsson Andersen) allur. Maðurinn sem gaf mér ótal bækur um hernaðarsögu og seinni heimsstyrjöldina í gegnum tíðina, og átti þátt í að vekja ævilangan áhuga minn á sagnfræði. Þrátt fyrir að lífið hafi leikið hann grátt, verr en flesta, var hann óvenju ljúfur og mildur maður, sýndi iðulega af sér jafnaðargeð og æðruleysi innan um stormasama fjölskyldu. Þrátt fyrir áskoranir af stærðargráðu sem flestir þurfa aldrei að standa frammi fyrir var framlag hans til okkar samfélags gagnlegra, betra en hjá þúsundum samborgara okkar - bankamönnum, millistjórnendum, Excel-körlum - sem bara taka og taka og taka. Gutti gaf frá sér eins og hann gat, eins lengi og hann gat. Góður maður er fallinn í valinn. Enn einn fasti í lífinu er horfinn á brott. Hvíldu í friði, Gutti.
PS: Það var einmitt ég sem fékk þetta fræðilega eintak af Mein Kampf í jólagjöf.