Sæstrengur er skelfileg hugmynd

30.12.2024 kl. 18:00 - Sveinbjörn Þórðarson

Aldrei þessu vant var ég að tjá mig í kommentakerfum samfélagsmiðla, um þessa margumtöluðu hugmynd að leggja sæstreng til Evrópu svo við getum selt orkuna okkar á "markaðsvirði". Þetta er gjörsamlega skelfileg hugmynd, af mjög einföldum, mannlegum, auðskiljanlegum og fyrst og fremst menningarlegum ástæðum, sem virðast iðulega vefjast fyrir lærðum og langskólagengnum hagfræðingum: Við erum ekki Noregur. Bara alls ekki.

Jon Steinsson, hagfræðingur við Berkeley, veltir fyrir sér af hverju Íslendingar vilja ekki þennan sexí sæstreng, sem er svo brilljant á blaði og hreinlega áskrift að peningum. Svarið mitt var:

"Betri er einn fugl í hendi en tveir í skógi. Hugsa að ástæðan fyrir þessu sé að margir Íslendingar telji að hagnaður af slíku færi bara fyrir rest í vasana á innmúruðum. Þeir hafa þegar fengið fiskauðlindina gefins. Ódýr orka er eitthvað sem við heimilin njótum góðs af í dag, og [það er] þegar nógu dýrt að búa á kalda Íslandi. Svo myndi þetta skapa hvata til að virkja enn meira, sem margir eru mótfallnir, þ.m.t. ég.

Sannleikurinn er sá að við höfum hvorki pólitíska né ökónómíska kúltúrinn til að gera svona lagað á ábyrgan hátt. Já, kannski gæti þetta virkað í ímynduðum, hliðstæðum heimi þar sem saga Íslands var þannig að við hermdum vandlega eftir hinum Norðurlöndunum, byggðum upp stofnanir sem njóta trausts og samnýttum auðlindirnar. En við gerðum það ekki, þökk sé íhaldsöflunum, og þurfum að taka ákvarðanir í samræmi við það.

Hverjir myndu græða ef olía væri fundin og unnin innan Íslandsmiða? Heldur þú að við, venjulegt óbreytt fólk í landinu, myndum græða til langs tíma á slíkri vinnslu? Ef svo, þá er ég með myndarlega brú til sölu á alveg sérlegum spottprís, bara fyrir þig.

Separator