Úrkynjun tungumálsins

24.7.2018 kl. 12:47 - Sveinbjörn Þórðarson

Sú tilhneiging að nota „passive mode“ í töluðu og rituðu máli er mesta meinsemd íslensku okkar tíma, verri en sletturnar, verri en málvillurnar.

Í vinnunni sé ég þessa úrkynjun alls staðar í íslensku samfélagi: í fréttum, fréttatilkynningum og opinberum skjölum, í viðtölum við talsmenn stofnana og fyrirtækja, hreinlega alls staðar. Enginn virðist nokkurn tímann gera neitt eða ætla að gera eitthvað. Hlutir eru bara „gerðir“ eða „unnið verður“ að einhverju. Mjög þægilegt að enginn sé gerandi því þá ber enginn ábyrgð.

Heilu fréttirnar eru jafnvel skrifaðar í passífum stíl.

„Greint hefur verið frá því að til standi að endurskoða innheimtu veiðigjalda.“ (RÚV)

Hver greindi frá því? Hvenær stendur það til? Hvers eðlis er endurskoðunin? Af hverju er verið að gera þetta? Hver ber ábyrgð á þessu?

Það veit ég ekki. Hlutir „gerast“ bara í kerfinu ógurlega og órannsakanlega, og síðan er „greint frá því.“ Guð forði okkur frá því að benda á embættismennina, pólitíkusana, lögfræðingana, banksterana og Excel-glæponana sem öllu stjórna og ráða og stela. Neinei, hitt og þetta „stendur til“ eða „hefur verið gert.“ Og það „hefur verið greint frá því.“ Þetta er andstyggileg úrkynjun hugsunar og tjáningar.

Orwell hafði heilmikið til síns máls í ritgerðinni frægu um stjórnmál og enska tungu:

„If thought corrupts language, language can also corrupt thought. A bad usage can spread by tradition and imitation, even among people who should and do know better. The debased language that I have been discussing is in some ways very convenient... a continuous temptation.“

Separator