Kerfislæg ósamhverfni upplýsinga

4.4.2017 kl. 12:39 - Sveinbjörn Þórðarson

Ég hef lengi verið á þeirri skoðun að kerfislæg ósamhverfni upplýsinga (e. information asymmetry [betri þýðing óskast]) sé helsta skýringin á því hvernig fámenn elíta á Íslandi (og í öðrum lýðræðissamfélögum) kemst upp með að stela öllu og maka krókinn á kostnað pöpulsins.

Þetta er ein af ástæðunum fyrir óbeit minni á lögfræðistéttinni. Lögfræðingar eru fullkomið dæmi um stétt sem nýtir sér "information asymmetry" til þess að mjólka samfélagið. Leiknum er þannig stillt upp að þeir hreinlega geta ekki tapað, hvað sem yfir gengur. Það er bullandi eftirspurn eftir lögfræðingum í góðæri, en ef það harðnar í ári og allt fer á hausinn verða þeir skyndilega nauðsynlegri en nokkru sinni fyrr, því þeir einir búa yfir bráðnauðsynlegri þekkingu á lagakerfinu. Garanteruð gósentíð ár eftir ár.

Lagatextarnir sjálfir endurspegla þarfir stéttarinnar sem sýslar með þá. Lögin eru að mestu "black box" fyrir óbreyttu fólki, dreifð út um fjöldann allan af skjölum og bálkum, skrifuð á máli sem er síst til þess fallið að auka skilning lesenda nema viðkomandi hafi pínt sig í gegnum þetta svokallaða nám í lagadeild HÍ. Ég þekki það af eigin reynslu hversu erfitt og flókið það getur verið að komast að einföldum hlutum eins og hver réttindi manns og skyldur eru gagnvart lögvaldinu. Þetta obskúrítet er engin tilviljun, og eflaust ein af ástæðunum af hverju meira hefur ekki verið gert til þess að gera gera lögin aðgengilegri og læsilegri með tæknilausnum á borð við útgáfukerfi (version control systems) o.fl.

En alvarlegasta ósamhverfa upplýsinga er í íslensku viðskiptalífi. Þar eru hlutirnir svo flóknir, leiðinlegir og tæknilegir, og sjónarspilið svo umfangsmikið, að varla nokkur maður nennir að kynna sér hvað er raunverulega í gangi. EBITDA, eignarhaldsfélög, forkaupsréttindi, lokuð útboð, osfv. -- flestu fólki finnst þetta drepleiðinlegt, þ.m.t. blaðamönnum.

Ég man að blaðamaðurinn Ingi Freyr Vilhjálmsson skrifaði mikið af góðum greinum um braskið og fúskið í íslensku viðskiptalífi þegar við unnum saman hjá DV á sínum tíma. En ég man líka að þær voru afar lítið lesnar. Greinar sem byrja "Eignarhaldsfélagið B24 ehf., sem er mestmegnis í eigu Jóns Jónssonar, hefur keypt 23.2% hluta í E79 Group..." eru ekki líklegar til vinsælda, þótt þær hafi e.t.v. að geyma mikilvægar upplýsingar sem varða almannahag. Allt helvítis kerfið og viðskiptaflétturnar eru svo flóknar að venjulegt fólk nennir skiljanlega ekki að setja sig inn í þetta. Mun auðveldara að hneykslast yfir auðskiljanlegum fréttum um smælki.

Þannig er svindlað á okkur, gott fólk. Lögfræðingar og "athafnamenn" mergsjúga kerfið því þeir skilja það, og tryggja eftir bestu getu að sem fæstir aðrir skilji það.

Separator