Les íslensk tíst í ómerktri byggingu

2.12.2016 kl. 23:31 - Sveinbjörn Þórðarson

Uppljóstranir Snowdens sýndu að bandarísku leyniþjónusturnar stunda umfangsmiklar njósnir á netsamskiptum fólks. Þessi samskipti eiga sér stað á hinum ýmsu tungumálum. Þjónusturnar búa alveg áreiðanlega yfir starfsmönnum sem kunna öll þau tungumál sem þarf að þýða, greina, osfv.

Þetta leiðir mann til þeirrar ályktunar að það sé ábyggilega íslenskumælandi einstaklingur á mála hjá NSA/CIA/FBI. Hann sittur sveittur og útkeyrður í cubicle í ómerktri byggingu við að greina Facebook færslur, tíst og spjallsamskipti hjá Kristni Hrafnssyni og öðrum Íslendingum sem fylgst er með.

Tilhugsunin er absúrd.

Síðan fer maður að hugsa þetta lengra. Hvernig ætli Kanarnir skipuleggi svona þýðingar? Ætli þeir notist við tungumálasnillinga sem kunna mörg mál og geta lært mál hratt? Eða notast þeir við stóran hóp af sérhæfðum mönnum? Hver er þessi sérhæfði maður? Er hann kannski mislukkaður bandarískur akademíker í fornnorrænum fræðum, bitur yfir takmörkuðum tækifærum, þakklátur fyrir vel launað innidjobb? Eða Íslendingur, sem svikið hefur lit? Þetta er hreint út sagt þrususpennandi ráðgáta. Alveg efni í þrúgandi Le Carré skáldsögu um biturð og mannlega bresti.

Separator