Grímulaus sérhagsmunagæsla Bjarna Ben

11.5.2016 kl. 16:01 - Sveinbjörn Þórðarson

Árið 2014 upplýsir skattrannsóknarstjóri Bjarna Ben um að gögn um aflandsbrask Íslendinga séu til sölu. Mikilvægt sé að komast yfir gögnin áður en möguleg skattalagabrot fyrnast.

Bjarni minnkar fjárveitingu til skattrannsóknarstjóra í næstu fjárlögum um 40 milljónir, þrátt fyrir að embættið hafi skilað milljörðum í ríkiskassann á ári hverju. Starfsfólk embættisins óttast að mörgum verði sagt upp. (Að lokum hljóðar niðurskurðurinn reyndar bara upp á 14 milljónir þökk sé Karli Garðarssyni í fjárlaganefnd [!!!]).

Bjarni dregur lappirnar í gagnamálinu um nokkra hríð, ummar og a-ar. Segir það vafasamt að kaupa stolin gögn, gerir lítið úr þessu, talar um erfiði þess að greiða fyrir svona lagað, reynir að flækja málið, vill setja alls konar fyrirvara við kaupin.

Fer síðan að tala um að veita aflandssvindlurum sakaruppgjöf ef þeir stíga fram.

Svo kemur í ljós í Panama-skjölunum að Bjarni og fjölskylda hans og vinir hafa verið að stunda aflandsfélagabrask svo árum skiptir.

Þessi maður, þessi gjörspillti maður, gripinn glóðvolgur við eiginhagsmunagæslu, hræsni og blekkingar í embætti, situr enn sem fjármálaráðherra og flokkur hans mælist með sitt venjulega fylgi, bætir jafnvel við sig.

Þetta er staðan á Íslandi í dag. Þetta er nú meiri helvítis farsinn.

Separator