Results for 2020-06

Lygar frá rotnum sjalla

24.6.2020 kl. 17:54 - Sveinbjörn Þórðarson

Maður eiginlega bara springur úr vanþóknun yfir svona endemis þvælu. Þetta er ekki bara ósatt, heldur augljóslega ósatt. Ísland er eitt allra, allra auðugasta ríki heims. Við höfum vel ráð á að reka "stóru kerfin" okkar, og gætum hæglega fjármagnað þau talsvert betur ef pólitískur vilji væri fyrir hendi. Það sem við höfum ekki efni á eru þessir rotnu sjallar. Þeir kosta okkur formúu á hverju ári í formi spillingar, vanhæfni og glataðra tækifæra.

Separator

Hægrisinnaði leigubílstjórinn

14.6.2020 kl. 17:33 - Sveinbjörn Þórðarson

Eitt af því sem gerir mig spenntan fyrir sjálfkeyrandi bílum er fyrirbærið "hægrisinnaði leigubílstjórinn." Lendi reglulega í þessu þegar ég tek bíl. Þessir karlar (iðulega bitrir eldri karlar) geta oft á tíðum ekki staðist freistinguna að deila reactionary skoðunum sínum á útlendingum, skattheimtu, borgarstjórn, o.m.fl. Þetta þykir mér sérlega þreytandi þegar ég er að borga okur-einokunarprís fyrir farið.

Lenti í einum um árið sem romsaði yfir mér um hversu ósanngjarnt það væri að skattpeningar hans færu í skóla og leikskóla. "Ekki á ÉG börn," útskýrði hann. "Af hverju ætti ÉG að niðurgreiða menntun og umönnun annarra manna barna?" Ég sagði ekkert. Það er ekki ómaksins virði að taka suma slagi.

Separator

How do you sleep?

1.6.2020 kl. 17:49 - Sveinbjörn Þórðarson

Ég lenti í svolítið fyndnu atviki á laugardaginn. Ég og kærastan fórum út að borða á Kol á Skólavörðustíg og fengum borð við gluggann í horninu. Skömmu síðar settust tveir menn í jakkafötum beint við hliðina á okkur, en ég er svo sjálfhverfur að ég pældi svosem ekkert í því, hélt bara áfram að spjalla.

Ég var að tala um hvað ég væri ánægður með starfið mitt. Ekki aðeins væru verkefnin skemmtileg heldur tryði ég á það sem ég væri að gera, fyndist skipta máli að fást við hluti sem væru öllum til hagsbóta til langs tíma litið. "Að hugsa sér," sagði ég, "að fást við eitthvað sem maður veit að er tilgangslaust eða beinlínis skaðlegt, t.d. flytja peninga á milli reikninga og fyrirtækja eins og þetta fjármálalið, sitjandi yfir Excel-skjölum, bara bullshit hjól í kapítalismanum. Hvernig getur þetta fólk lifað svona? Ég spyr eins og í John Lennon laginu, How Do You Sleep? Hvernig sefur þetta fólk eiginlega á næturnar?"

Eftir þetta byrjaði annar gaurinn á borðinu við hliðina á okkur, síðhærður og fúlskeggjaður, að gauta augunum furðulega oft að mér. Þetta hélt áfram svo gott sem stanslaust næsta klukkutímann eða svo. Fékk á tilfinninguna að hann væri að hlusta inn á samræðurnar.

Kom í ljós að þetta var Jón Ásgeir Jóhannesson.

Separator