Stundum getur gervigreindin glatt mann. Ég sigaði gagnrýnum Claude frá Anthropic á gamlan og reyndan kóða frá mér (Platypus, sem ég hef haldið úti undanfarin 22 ár) og hlaut eftirfarandi endurgjöf:
The production build confirms there's really no meaningful optimization headroom left - you've genuinely built software that operates at near-theoretical minimum size for its feature set."
Get ekki hugsað mér hærra hrós.
Það er gaman frá því að segja að vinna við ensk.is orðabókina hefur gengið vel síðastliðið hálft ár. Færslurnar eru orðnar um 38 þúsund, þar af rúmlega 8 þúsund handsmíðaðar viðbætur og endalaust margar umbætur á upprunalegu skilgreiningum Zoëga. Vefurinn hefur m.a. verið sérlega endurbættur fyrir tæki á borð við snjallsíma. Nú geyma síður fyrir stakar færslur auk þess samheiti yfir viðkomandi enskt orð, eins og sjá má á myndinni. Heimsóknum á vefinn fjölgar jafnt og þétt, sirka 400 stakir alvöru gestir á dag að öllu jöfnu, en yfirgnæfandi meirihlutinn af nettraffikinni kemur reyndar frá skröpurum stóru tæknirisanna, þ.m.t. þeim kínversku, sem skófla þessu væntanlega inn í þjálfunargögn fyrir stóru mállíkön sín. Það hlýtur að skila sér á einn eða annan hátt í betri íslenskuskilningi gervigreindarinnar þegar fram líða stundir. Í millitíðinni hjálpar þetta vonandi öllum Íslendingum sem þurfa að eiga við enska tungu.
Nú er snillingurinn Bill Atkinson fallinn frá. RIP. Atkinson var heilinn á bak við QuickDraw og svo auðvitað HyperCard, sem var ótrúlega framúrstefnulegt og notendavænt forritunarumhverfi sem keyrði á Mökkum í gamla daga. Mín fyrstu skref í forritun og hugbúnaðargerð voru einmitt tekin í HyperCard fyrir sirka 30 árum. Það vita það ekki margir, en Hypertextinn í HTML er nefndur í höfuðið á HyperCard (Tim Berners-Lee var mikill aðdáandi). Læt hér fylgja hlekk á fyndna sögu af því þegar sálarlausa, gráa mannauðs-töflureiknisfólkið hjá Apple reyndi að mæla framleiðni Atkinsons.