Results for 2017-10

Sigmundur Davíð

27.10.2017 kl. 13:52 - Sveinbjörn Þórðarson

Fyrsta skiptið sem ég hitti Sigmund Davíð var á þorrablóti Íslendinga í Lundúnum árið 2007. Þar sátum við hlið við hlið um hringborð ásamt nokkrum íslenskum námsmönnum, drukkum brennivín og átum ógeðslegan mat. Þegar við fórum að spjalla sagðist hann vera doktorsnemi í borgarskipulagsfræðum við Oxford háskóla. Ég man fyrst og fremst eftir honum sem hlédrægum og frekar óáhugaverðum náunga með lítið til málanna að leggja. Síðar um kvöldið, þegar veislusalurinn lokaði, fórum við unga fólkið í leit að stað til þess að halda fjörinu gangandi. Þar sem London er sérlega leiðinleg borg og mestallt lokar um miðnætti gekk leitin að frekari veigum brösulega þar til Sigmundur bauð okkur feimnislega að koma á hótelbarinn á fína hótelinu þar sem hann gisti. Sá var opinn fyrir gesti hótelsins, og þar héldum við áfram að drekka og spjalla frameftir nóttu, þótt lítið hafi farið fyrir Sigmundi, ef ég man rétt.

Um það bil ári síðar var ég svo staddur á Ölstofunni þegar ég sá Sigmund og konu hans á einu borðinu. Hann veifaði til mín, "Ég man eftir þér, þú varst svo helvíti hress!" sagði hann, eða eitthvað þvíumlíkt, eilítið í glasi. Ég mundi þá bara lauslega eftir honum.

Mér til mikillar furðu varð þessi maður síðan formaður Framsóknarflokksins árið 2009, og vann í ofanálag mikinn kosningasigur 2013 með hæpnum loforðum um að féfletta vonda útlendinga og gefa húsnæðiseigendum afraksturinn.

Árið 2014 starfaði ég um tíma við blaðamennsku. Þar voru margir kollegar mínir sannfærðir um að Sigmundur, nú forsætisráðherra, ætti við stórkostleg geðræn vandamál að stríða. Hann hafði tútnað furðulega út á örskömmum tíma -- lyfjafita, sögðu menn -- og var sífellt með gríðarlega dökka bauga undir augunum líkt og gerist fyrir marga sem taka sterk geðlyf. Framkoma Sigmundar í garð fjölmiðla gerði ekkert til þess að slá á þessar grunsemdir. Hann sendi frá sér skrítnar og vænisjúkar yfirlýsingar um loftárásir og framkoma hans í viðtölum var vægast sagt stórfurðuleg. Oft náðu fjölmiðlar ekki í manninn -- sjálfan forsætisráðherra -- svo vikum skipti. Þær sögusagnir gengu að hann væri að leita sér geðrænnar aðstoðar utan landsteinanna, skýldur á bak við her aðstoðarmanna.

Vorið 2016 kom svo í ljós að Sigmundur og kona hans áttu þetta aflandsfélag, og "the rest is history," eins og menn segja. Eftir að hann hröklaðist úr forsætisráðherrastól var öllum á þingi og í ríkisstjórn stórlega létt. Sigmundur hafði verið ómögulegur í samstarfi og samskiptum en nýi leiðtogi Framsóknar var þó jarðbundinn maður sem hægt var að tala við á eðlilegum nótum.

Vegna persónufylgis hékk Sigmundur hundfúll inni á þingi fyrir Framsókn næsta árið, mætti ekki í vinnuna og sinnti ekki þingstörfum heldur sat þess í stað á ráðum við að skipuleggja endurkomu sína. Miðflokkurinn er afrakstur þeirrar vinnu. Það er flokkur sem snýst fyrst og fremst um Sigmund sjálfan og tilraunir hans til að endurheimta orðspor sitt og völd. Í þetta sinn á að endurtaka það sem virkaði svo vel árið 2013, lofa bara einhverju bulli og vona að nógu margir misvitrir kjósendur bíti á agnið.

Þetta virðist ætla að lukkast, þar sem Miðflokkurinn mælist nú með um 10% fylgi. Hvaða fólk þetta er, sem finnst hann fýsilegur kostur, skal ég ekki segja. Kannski býr það bara úti á landi, eða eitthvað. Ég þekki nefnilega ekki nokkurn mann sem tekur hann alvarlega eða finnst hann eftirsóknarverður málsvari, eftir allt það sem á undan er gengið.

Þótt maður sé ekki laus við ákveðna þórðargleði að sjá gegnrotna Framsóknarflokkinn splúndrast þá tel ég samt tilkomu Miðflokksins mikið óheillaspor.

Það er ekki vegna þess að ég óttast þessar furðulegu hugmyndir Sigmundar um að kaupa og gefa Arion Banka, eða hvað þetta nú er. Þær verða líklega aldrei að veruleika.

Það er ekki vegna þess að ég held að Sigmundur sé óvenjuspilltur á íslenskan mælikvarða. Það er hann sennilega ekki.

Og það er ekki vegna þess að ég held að hann sé sérstaklega slæmur maður eða illa innrættur. Hann trúir því sennilega innst inni að hann sé að gera gott, eins og flestir sannfæra sjálfa sig um.

Nei, það er vegna þess að Sigmundur á ekkert erindi í stjórnmál. Engum langar að vinna með svo óáreiðanlegum, furðulegum og egótískum manni. Leit hans að uppreist æru, endurheimtu orðspori, endurlausn, er algjört aukaatriði fyrir hagsmuni Íslands og Íslendinga. Samt mun hann sitja áfram á Alþingi næstu árin, vænisjúkur og fúll, ásamt sínum lotningarfullu fylgismönnum, spýjandi þvælu og eitri með tilheyrandi fjölmiðlasirkusi. Og þetta mun því miður afvegaleiða okkur frá því sem raunverulega skiptir máli.

Separator

Biskup kemur sterkur inn á 21. öld

23.10.2017 kl. 11:30 - Sveinbjörn Þórðarson

Þetta er hárrétt hjá Agnesi biskup.

Áttunda boðorðið er eins og sérsniðið að Glitnislekanum. Blaðamenn Stundarinnar hefðu gott af smá sunnudagsskóla. Þar myndu þeir læra að maður skal ekki girnast hús náunga síns, eða konu hans, ekki þræl hans eða ambátt, ekki uxa hans eða asna, né leyniskjöl um bankagjörninga hans, né nokkuð það, sem náungi manns á. Eins og venjulega á biblían skýrt erindi við 21. öldina, í þessu máli eins og öðrum.

Separator

"Tryllti skríllinn" 1949

21.10.2017 kl. 21:26 - Sveinbjörn Þórðarson

Þessi "tryllti skríll" sem Morgunblaðið sagði hafa ráðist á Alþingi við NATO mótmælin 1949 var nú ekki trylltari en svo að enginn vildi brjóta þá reglu að standa ekki á grasinu. Eiginlega stórmerkilegt. Þetta myndi aldrei gerast við mótmæli í dag. Nú er allt traðkað í svað.

2
Separator

The new Blade Runner film

11.10.2017 kl. 19:17 - Sveinbjörn Þórðarson

The new Blade Runner 2049 film is visually stunning but plodding, pretentious and badly written. Lots of good ideas left underdeveloped and unexplored. Botched screenplay and pacing. I was genuinely bored for the last half hour.

Separator