Results for 2016-07

Berlínarhugleiðingar

14.7.2016 kl. 18:59 - Sveinbjörn Þórðarson

Hérna í Berlín er sagan alls staðar í kringum mann. Jafnvel þótt borgin hafi verið gjörsamlega sprengd í tætlur fyrir rúmum sjötíu árum standa samt víðast hvar byggingar sem bera vott um auð og glæsta menningu Þýskalands. Mér verður hugsað til fátækrar byggingarsögu Íslands og þeirrar sorglegu staðreyndar að heima fyrir virðast menn helst áhugasamir um að rífa það litla sem við höfum til þess að reisa brútal módernistahótel fyrir túrista.

...

Var annars að ræða við vinafólk um þessa geðbiluðu Evrópu-umræðu heima á Íslandi. Menn láta út úr sér fáránlegar staðhæfingar um að allt sé ömurlegt og í rugli á meginlandinu vegna ESB, innflytjenda, Íslam, osfv.

Ég elska Evrópu -- það er engin tilviljun að ég sérhæfði mig í sögu álfunnar -- og finnst skrýtinn þessi fyrirlitningartónn og þessar fáfróðu alhæfingar. Í sögulegu samhengi hefur Evrópa aldrei verið auðugri og öruggari en á okkar tímum. Þrátt fyrir ólýsanlega skelfilegar stríðshörmungar þjóðernishyggjunnar og ömurlega arfleifð kommúnismans í austri búa hér meira en 500 milljón manns við friðsemd og þokkalega hagsæld. Það er stórmerkilegt! Auðvitað eru ýmis vandamál. Það eru alltaf einhver vandamál. En heildarmyndin er alveg skýr fyrir þá sem vilja á annað borð sjá hana.

Separator

Leiðinlegasta sjónvarpsþáttaserían

1.7.2016 kl. 14:12 - Sveinbjörn Þórðarson

Ímyndum okkur að það væri í gangi hálf-fasísk þjóðernisrúnk-sjónvarpsþáttasería sem næstum allir í kringum mann horfðu á. Jafnvel fólk sem maður taldi annars búa yfir þokkalegri dómgreind og smekk.

Í þessari sjónvarpsþáttaseríu gerðist hér um bil aldrei neitt, framvinda plottsins væri hæg og mónótón, hver einasta sería keimlík þeirri síðustu.

Allir leikararnir litu hér um bil eins út, væru nokkurn veginn eins klæddir og væru sífellt að gera það sama -- hlaupa um stóran grasvöll, sveittir og aggresífir.

Það væri yfirþyrmandi magn af auglýsingum og vörumerkjum í þáttunum.

Reglulega spilað "scream track" í hvert skipti sem eitthvað virtist líklegt til þess að fara að kannski mögulega gerast.

Svo væri síöskrandi sögumaður að segja manni hvað væri eða væri ekki að gerast á hverri stundu.

Allir horfandi á þættina væru einnig sífellt öskrandi, enda af einhverri óskiljanlegri ástæðu með sterkar tilfinningar til leikara af eigin þjóðarbroti.

Og segjum sem svo að maður vissi að þáttaröðin væri vinsæl því hún höfðaði til þess lágkúrulegasta og ómerkilegasta í eðli mannsins -- hjarðhugsunar og tribalisma.

Velkomin í minn raunveruleika.

Separator