Eftirfarandi er útdráttur úr kafla sem ég skrifaði um sögulegar rætur nýfrjálshyggjunnar í bókinni Eilífðarvélin: Uppgjör við nýfrjálshyggjuna, ritstj. Kolbeinn Stefánsson, Háskólaútgáfan 2010.


...

Frjálslyndisstefnan er grundvallarþáttur í stjórnspeki allra þróaðra vestrænna ríkja. Líkt og aðrar heimspekilegar kenningar um pólitískt vald byggir hún á ákveðnum hugmyndum um eðli mannsins og markmið hans. Þótt kenningar um mannseðlið séu minna áberandi í stjórnmálaumræðu samtímans en á fyrri öldum, liggja þær í einhverjum skilningi ávallt að baki pólitískum sjónarmiðum og mynda heimspekilegan grundvöll þeirra. Á undanförnum þrjátíu árum hefur hin svokallaða nýfrjálshyggja siglt beggja skauta byr í Evrópu, ekki síst í Bretlandi og svo á Íslandi. Nýfrjálshyggjan er samansafn skyldra hugmynda: flestum, ef ekki öllum, sviðum mannlífsins farnast best þegar þeim er stýrt af markaðsöflum; umsvif ríkisins ætti að takmarka eins mikið og hægt er, jafnvel við „lágmarksríkið“, þ.e.a.s. ríki sem ver einungis rétt manna til lífs, frelsis og eigna. Talsmenn þessarar stefnu halda því fram að hún leiði til réttláts og skilvirks samfélags, samfélags sem neyði engin altæk gildi á borgarana umfram þau sem nauðsynleg eru til þess að borgaralegt líf geti þrifist.

Þessi útgáfa frjálshyggjunnar er þó í raun ekki samansafn hagfræðilegra kennisetninga eða ný tegund stjórnspeki, heldur angi af gamalli frjálslyndishefð sem á rætur að rekja aftur til 17. aldar. Það er eitt af einkennum hugmyndasögunnar að hinar ýmsu hugmyndir spretta upp sem virðast samtímamönnum nýjar og framandi, en reynast við nánari skoðun vera lítið annað en endurunnar skoðanir úr fortíðinni, gamalt vín á nýjum belgjum. Þannig má einmitt lýsa nýfrjálshyggjunni. Þegar rit Hayeks og Friedmans tóku að vinna hylli kynslóðar íslenskra stjórnmálamanna fyrir tæpum þrjátíu árum hélt Þorsteinn Gylfason heimspekingur fyrirlestur þar sem hann benti á að lítið nýnæmi væri að þessum hugmyndum. Hin nýja frjálshyggja væri í rauninni ekkert annað en gamla frjálshyggjan með örlítið uppfærðri hagfræði sem birtist m.a. í peningamagnsstefnunni svokölluðu, en áhrifa hennar var þá farið að gæta í Bretlandi undir stjórn Thatchers.

Í nýfrjálshyggjunni er bæði að finna styrkleika og vankanta almennrar frjálslyndisstefnu, en þeir hafa lítið breyst í aldanna rás. Lykilkenningar frjálslyndisstefnunnar eru tvær: annars vegar hugmyndin um hið gildislausa samfélag, hins vegar ákveðin kenning um mannlegt eðli, nefnilega sú kenning að maðurinn sé fyrst og fremst skynsemisvera. Í þessari grein verður fjallað um sögulegar rætur þessara kennisetninga til að varpa ljósi á nýfrjálshyggju samtímans. Að þeirri umfjöllun lokinni verður birtingarmynd þessara kennisetninga í nýfrjálshyggjunni gagnrýnd, meðal annars tengsl hennar við gallað og blekkjandi líkan af manneskjunni sem hreinni skynsemisveru.

Hobbes og tilurð samfélagsins

Sögulegar rætur frjálslyndisstefnu má rekja aftur til átaka og ófriðar á Englandi á 17. öld, en sú öld reyndist Englendingum erfið. Á Englandi höfðu miðaldir einkennst í megindráttum af friðsamlegu samlífi kirkju og krúnu, en eftir siðaskiptin varð hinum veraldlegu valdhöfum landsins sífellt þyngra í skauti að nota trúarbrögð og kennisetningar kirkjunnar sem stoðir undir stjórnskipan landsins. Trúarbragðastyrjaldir geisuðu á meginlandinu í Þrjátíu ára stríðinu (1618 - 1648), en á Englandi varð stjórnun landsins sífellt torveldari sökum þeirrar trúarlegu fjölbreytni sem þróast hafði í kjölfar siðaskiptanna. Englendingar bjuggu með öðrum orðum ekki lengur við almenna samþykkt um eðli og markmið samfélagsins; trúarleg samheldni hafði misst hlutverk sitt sem grundvöllur stjórnkerfisins. Borgarastyrjöld braust út 1641, en þar börðust forsvarsmenn konungs og ensku biskupakirkjunnar gegn hinum ýmsu trúarhópum mótmælenda; hið gamla bandalag krúnu og altaris, sem hafði lengi staðið veikum fótum, leið undir lok. Það var við þessar aðstæður, í blóðugum orustum borgarastríðsins, sem frjálslyndisstefnan leit dagsins ljós. Thomas Hobbes, heimspekingur frá Malmesbury, skrifaði og gaf út þekktasta verk sitt, Levíatan, árið 1651, en í því eru settar fram ýmsar grundvallarhugmyndir frjálslyndisstefnunnar.

Við fyrstu sýn virðist Hobbes einkennilegur faðir frjálslyndisstefnunnar; hann er sennilega best þekktur fyrir bölsýni sína, sem birtist í þeirri mynd sem hann dró upp af náttúrulegu ástandi mannsins, en það einkenndist að hans mati af stríði allra gegn öllum, harðneskjulegum veruleika þar sem líf manna var „einmanalegt og fátæklegt, grimmt, dýrslegt og stutt.“ Lausnin sem Hobbes lagði til gegn slíku ástandi var sterkt, miðlægt alræði konungs. Hann var því hvorki lýðræðissinni né frjálshyggjumaður í nútímaskilningi orðsins. Þó má finna mikilvægar hugmyndir og kennisetningar í stjórnspeki hans sem reyndust frjálslyndisstefnunni ómissandi. Einna mikilvægasta framlag hans var róttæk einstaklingshyggja, en einstaklingurinn var höfuðviðmið Hobbes í allri hugsun um samfélagið. Með þessu urðu þáttaskil í sögu stjórnspekinnar og raunverulegt rof frá hugmyndaheimi miðalda. Til varð sú hugmynd að fyrir myndun samfélagsins hefði einstaklingurinn verið einn á báti í náttúrunni, í sífelldum átökum við aðra menn um yfirráð yfir takmörkuðum auðlindum. Í samfélagslausum heimi er einstaklingnum engar skorður settar; honum er frjálst að gera nákvæmlega það sem honum sýnist, enda óbundinn af hvers konar lögboði og reglum. Hobbes velti því fyrir sér hvað gæti fengið menn til þess að fórna slíku frelsi og fallast á einhvers konar ríkisvald. Tilraunir til þess að svara þessari spurningu hafa sett mark á flestar stjórnspekikenningar um samfélagið ætíð síðan.

Svar Hobbes höfðaði til ákveðinnar kenningar eða hugmyndar um mannseðlið sjálft, en hann kynnti til sögunnar einfalt sálfræðilegt líkan til þess að útskýra mannlega hegðun. Menn stjórnuðust að hans mati af tveimur hvötum: leitinni að ánægju og óttanum við sársauka og þjáningu. Í náttúrulegu ástandi, áður en samfélagið er orðið til, lifa menn í sífelldum ótta við dauðann og aðra menn, sem geta skaðað þá eða drepið. Það var óttinn við slíka meðferð sem þokaði manninum frá náttúruástandinu yfir í borgaralegt samfélagsskipulag. Sem skynsemisverur fórnuðu menn óheftu frelsi sínu og settu á laggirnar samfélag bundið lögum og reglum, þar sem sérhver einstaklingur naut verndar ríkisvaldsins frá dýrslegu og ágjörnu eðli nágranna sinna, en Hobbes taldi farsælast að ríkinu skyldi stjórnað af allsráðandi einvaldi. Að mati Hobbes varð samfélagið til án þess að höfðað væri til nokkura allsherjarmarkmiða; samfélagið á sér hvorki rætur í trúarlegum hugmyndum né sögulegri hefð. Það myndast og þróast af því að skynsamir einstaklingar, með eigin hagsmuni fremst í huga, telja að þeim muni farnast best undir slíku fyrirkomulagi.

Í stjórnspeki Hobbes birtast þegar tvö helstu einkenni frjáslyndisstefnunnar. Annars vegar allsherjar stjórnarfyrirkomulag þar sem einstaklingar sækjast eftir eigin markmiðum, þar sem grundvöllur samlyndis er skynsamlegur ótti við augljósar hættur frekar en nokkurs konar sameiginlegar hugmyndir eða hugsjónir um gott líf eða réttlátt samfélag. Hins vegar réttlæting á stjórnskipan borgaralegs samfélags út frá ákvörðunum hins sjálfselska og skynsama einstaklings. Hvort tveggja stangaðist á við miðaldahugmyndir um samfélagið, en evrópumenn höfðu öldum saman litið á samfélagið sem guðdómlega skipan, eins konar hlekk í alheimskeðju veraldar, stigveldi þar sem sérhver maður, hvort sem hann var konungur, smábóndi eða lénsmaður, þjónaði sínu hlutverki innan stærra kerfis. Manneskjan eins og Hobbes lýsir henni hefur ekkert með slíkar hugmyndir að gera; hún leitast eingöngu við að öðlast ánægju og forðast sársauka, en þessi markmið nálgast hún með skynsemina að vopni.

Locke og upplýsingin

Þótt heimspeki Hobbes marki upphaf ýmissa lykilhugmynda frjáslyndisstefnunnar er John Locke sá heimspekingur sem er yfirleitt álitinn hinn fyrsti raunverulegi forsvari hennar. Í Ritgerð um ríkisvald (1689) eru öll hin klassísku stef frjálslyndisstefnunnar kynnt til sögunnar, en þó á svipuðum grundvelli og í skrifum Hobbes. Samfélagið var að mati Lockes sáttmáli skynsamra manna til þess að forðast ringulreið og vandkvæði náttúruástandsins. Locke var þó heldur bjartsýnni um eðli mannsins og lagði mun meiri áherslu á mikilvægi eignaréttarins, enda varð stjórnspeki hans til sem svar við yfirgangi konungsvaldsins í Englandi árin fyrir hina svonefndu Dýrlegu byltingu árið 1688. Frjálslyndisspeki hans var í raun eins konar heimspekileg vörn auðugrar borgarastéttar sem óttaðist að konungur myndi svipta hana eignum sínum.

Locke var jafnframt einn af forsprökkum upplýsingarinnar, þeirri viðamiklu hreyfingu innan heimspeki og fræða sem hófst við lok 17. aldar og stóð út 18. öldina. Locke ruddi brautina fyrir fjölda heimspekinga sem lögðu sífellt meiri áherslu á skynsemiseðli mannsins. Heimspeki Lockes, bæði þekkingarfræði hans og stjórnspeki, féll í frjóan jarðveg hjá evrópskum menntamönnum næstu öldina, ekki síst hugmyndir hans um gildislaust samfélag þar sem trúarbrögð og lífsviðhorf nytu umburðarlyndis og væru óháð ríkisvaldinu. Slíkar hugmyndir þóttu afar róttækar í álfu sem skiptist greinilega í ýmsar trúarlegar fylkingar. Framfarasinnar og menntamenn á meginlandi Evrópu, einkum í Frakklandi, leituðu til enskrar heimspeki og enskra fyrirmynda í skrifum sínum og umbótatilraunum. Enska frjálslyndisstefnan virtist geta bundið enda á þær trúarlegu erjur sem steypt höfðu Evrópu í glundroða enn og aftur. Franski heimspekingurinn og skáldið Voltaire var sérlega hrifinn af ensku frjálslyndi og ritaði um konunglega verðbréfamarkaðinn í Lundúnum af mikilli aðdáun í bréfum sínum:

...lotningarverðari staður en margir réttarsalir, þar mætast málsvarar hinna ýmsu þjóða öllum til framgangs. Gyðingurinn, múhameðstrúarmaðurinn og hinn kristni stunda viðskipti líkt og allir aðhylltust sömu trú, og einu heiðingjarnir eru þeir sem verða gjaldþrota.

Kenningar um borgaralegt umburðarlyndi og þróun í átt að hinu gildislausa samfélagi eða fjölhyggju komu í kjölfar mikilla bjartsýnisskrifa um samfélagið. Fræðimenn voru sannfærðir um að hægt væri að uppgötva hið sanna eðli mannsins, og álykta út frá því hverjir væru skynsamlegustu stjórnarhættir samfélagsins. Slík bjartsýni var eitt af aðalsmerkjum upplýsingaraldarinnar, enda hafði orðið mikil endurvakning á mörgum ólíkum fræðasviðum. Aflfræði Newtons og aðrar vísindaframfarir 17. aldarinnar urðu fyrirmyndir heimspekinga og voru hafðar til marks um að nýaldarmenn væru engu síðri á sviði fræðimennsku en hinir grísku spekingar fornaldar. Helstu hugsuðir upplýsingartímans bundu miklar vonir við að uppgötvanir og aðferðafræði Newtons gætu smám saman orðið kveikjan að framförum í þeim fræðum sem fengjust við manninn og samfélagið. Skoski heimspekingurinn og efahyggjumaðurinn David Hume þóttist til dæmis beita „tilraunaaðferð“ Newtons í greiningu sinni á mannlegum skilningsvitum og samfélagsrýni. Vinur Humes, hagfræðingurinn og heimspekingurinn Adam Smith, lagði síðan grunninn að nútímahagfræði með bók sinni Auðlegð þjóðanna (1776), en þar setti hann fram kenningar um lögmál markaðarins og útskýrði þau á grundvelli mannlegrar skynsemi.

Stjórnspekihugmyndir upplýsingarheimspekinga voru fjölbreyttar og æði ólíkar innbyrðis, en þær höfðu þó flestar sameiginlegan kjarna. Mannlegt samfélag átti að endurskipuleggja með skynsemina að leiðarljósi en ekki hefðina, eins og tíðkast hafði aldirnar á undan. Gömlu konungdæmin skyldu víkja fyrir skynsamlegum kerfum sem ættu sér rætur í mannvísindum og samtímafræðum um samfélagið. Á grundvelli mannlegs eðlis mætti uppgötva lögmál sem sýndu hvert væri besta stjórnarfarið. Eitt skýrasta dæmið um þennan hugsunarhátt má finna í heimspeki Claude Adrien Helvétiusar, en hann var einn af róttæku Parísarheimspekingunum á árunum fyrir Frönsku byltinguna. Helvétius var sannfærður um að manneskjan væri óskrifað blað; hana mætti móta á marga ólíka vegu með mismunandi stjórnskipan og fyrir vikið byggja upp fyrirmyndarsamfélag á grundvelli vísinda. Kenningar um skipan samfélagsins voru réttlættar á þeim grundvelli að skynsamur maður myndi fallast á þær, ef hann hugsaði málið til hlítar. Bjartsýni af þessu tagi náði ef til vill hámarki í skrifum franska markgreifans Condorcet, en í ritinu Skissa af sögulegri sýn á framfarir mannshugans (1795), sem hann skrifaði skömmu áður en hann lést fangelsaður af ógnarstjórn jakobína, spáði hann óheftum og umfangsmiklum framförum. Condorcet taldi að maðurinn myndi uppgötva hin sönnu vísindi samfélagsins, og afleiðingin yrði sívaxandi framfarir í listum, siðgæði, stjórnmálum og hagfræði.

.....


Hér lýkur þessum útdrætti.