Tungumálið er hluti af innviðum

10.3.2021 kl. 21:47 - Sveinbjörn Þórðarson

Maður heyrir oft orðið "innviðir" í pólitískri umræðu. Mikilvægt að byggja upp innviði, innviðir undirstaða atvinnulífsins, o.s.fv. Flestir á pólitíska litrófinu - nema frjálshyggjurugludallarnir, auðvitað - sammælast um að flestir innviðir eigi að vera ríkisreknir, að grunnþjónustur á borð við vegakerfið, lagakerfið, skólakerfið, heilbrigðiskerfið, o.s.fv. séu undirbygging einkageirans og ættu ekki að vera hluti af honum. En það er margt annað sem er hluti af "innviðum" samfélagsins. Til dæmis tungumálið okkar, íslenska. Þótt að einhverjir jólasveinar á fyrirhrunsárum hafi velt fyrir sér kostum þess að taka upp ensku hér á landi þá er sú pæling hvorki raunhæf né æskileg. Íslenska er opinbert mál Íslands til fyrirsjáanlegrar framtíðar og hana þarf að rækta á mörgum vígstöðvum. Og þegar kemur að "innviðum" fyrir íslenska tungu er engin framar í flokki en Kristín Bjarnadóttir, höfundur Beygingarlýsingar íslensks nútímamáls. BÍN er gagnagrunnur sem geymir beygingarmyndir svo gott sem allra íslenskra orða og er gjörsamlega ómissandi hluti af máltækni fyrir íslensku í dag. Þetta mikla verk hefur tekið Kristínu mörg, mörg ár hjá Árnastofnun og er eitthvað sem einkageirinn hér á landi hefði aldrei, aldrei skapað. Mikilvægt að muna það sem er vel gert!

Separator