Ekki áhuga á stjórnmálum?

17.12.2020 kl. 00:38 - Sveinbjörn Þórðarson

Mér finnst alltaf mjög einkennilegt þegar ég heyri fólk segjast hafa engan áhuga á stjórnmálum. Það er gjörsamlega geðbiluð strategía. Æðsta stjórn okkar samfélags, ríkið, fer með gríðarleg, fáránleg, ótrúleg völd sem hafa bein og afgerandi áhrif á líf þitt nú og til frambúðar. Og ekki bara líf þitt. Líf foreldra þinna. Líf allra sem þú þekkir. Líf barna þinna í framtíðinni. Líf alls konar fólks sem þú þekkir kannski ekki, en sem dafnar eða þjáist, líður velsnægt eða skort, allt eftir því hvernig ríkisstjórnin hagar sér. Ég spyr bara, hvers konar heilvita manneskja hefur ekki áhuga á þessu, ef þá bara út frá sjálfsbjargarviðleitni og grunnhagsmunum? Það eru klárlega örlög þeirra sem ekki fylgjast með hvar valdið liggur að verða fórnarlömb þeirra sem gera það. Allir ættu að fylgjast með pólitík. Sumir greina kerfið og nota það til þess að gagnast einungis sér og sínum. Aðrir vilja nota ríkisvaldið öllum til hagsbóta en ekki bara þeim fáu, t.d. vinstrimenn eins og ég, okkur sem þykir í alvörunni vænt um þetta samfélag, ekki bara spennt að æða í jötuna. Við dæsum daglega yfir hve illa er farið með viðkvæmt ríkidæmi landsins, og vitum að það er hægt að gera miklu betur.

Separator