Raðmorðinginn Plató

20.5.2020 kl. 04:27 - Sveinbjörn Þórðarson

Þegar ég kom heim úr vinnu í kvöld fann ég hræðilega limlest og brútalíserað lík á persneska svefnherbergisteppinu mínu. Það hafði bersýnilega verið rifið gjörsamlega í tætlur af einhverju hræðilegu rándýri: fótur hér, vængur þar, blóðslettur og fjaðrir þöktu græjukassann minn. Svo lá þárna blæðandi lítið kjötstykki sem ég gat aðeins ályktað að hefði eitt sinn verið skrokkurinn á fugli. Ég hirti herlegheitin upp með hönskum og ryksugaði.

Skömmu síðar stökk kötturinn Plató inn um gluggann. Hann gekk rakleiðis inn í svefnherbergi, varð furðu lostinn þegar hann sá að fórnarlambið var horfið, starði stuttlega á mig pirraður á svipinn, deplaði loks augunum, og nuddaði sér síðan upp við fótinn á mér eins og ekkert hefði í skorist.

Þetta er í fjórða skipti sem þetta gerist. Nú er nóg komið! Litli raðmorðinginn fær bjöllu um hálsinn hvort sem honum líkar betur eða verr!

plato glugga

Separator