Fjölmennur og hávær hópur fólks, í bæði kjöt- og netheimum, er sífellt að væla yfir því hvað allt sé með hæsta móti ómögulegt og hræðilegt á Íslandi, ráðamenn allir gerspilltir og vanhæfir, viðskiptamenn óprúttnir og gráðugir, menningarsnauður almenningur haldinn þrælslund og neysluhyggju, o.s.fv. Mér finnst borðliggjandi að hér er á ferðinni gamli mikilmennskubrjálaði frónski eyjaskeggjahugsunarhátturinn, að Ísland sé svo ótrúlega spes í öllu, fallegust per capita, sterkust per capita, spilltust per capita, gráðugust per capita.
Sannleikurinn er sá að ástand mála er almennt ekkert skárra annars staðar, síður en svo. Vissulega stela sjallarnir og vinir þeirra alveg heilmiklu, en ráðandi stéttirnar, kapítalistar og stjórnmálamenn í samkurli, stela auðvitað heilum hellingi í öllum ríkjum. Restin af heiminum er engin útópía. Ef það eru einhver ríki sem standa sig betur en Ísland þá eru það helst hin Norðurlöndin, auðugustu og best reknu þjóðríki heims. En við getum þá a.m.k. státað okkur af því að tala íslensku en ekki þessa hundljótu, afbökuðu skandinavísku.