Í gegnum tíðina hafa öll bestu skáld, tónsmiðir og listamenn yfirleitt verið á vinstri væng stjórnmála. Og það ætti svosem ekki að koma neinum á óvart. Fólk með ímyndunarafl og sköpunarkraft, sem leyfir sér að dreyma um eitthvað annað, eitthvað betra, er ekki líklegt til þess að styðja íhaldið.
Hins vegar hef ég tekið eftir því að ef maður rekst á annað borð á listamann á hægri vængnum þá er sagan nær alltaf sú sama. Viðkomandi hefur fallið fyrir nítjándu aldar rómantísku goðsögninni um snillinginn, skaparann, ofurmennið, sterka einstaklinginn sem kærir sig ekki um að láta aumingjana og meðalmennin, hjörðina, draga sig niður í svaðið.
En kapítalismi okkar daga, a.m.k. eins og hann birtist mér, samræmist ekkert þessari ofurmennishugsjón. Það er faktískt nokkuð sem ég gat aldrei fengið til þess að stemma þegar ég las The Fountainhead eftir Ayn Rand í gamla daga (ekki að hún sé gott dæmi um hægri-skáld). Bókin fjallar um arkítekt og snilling, Howard Roark, sem neitar að beygja sig undir smekkleysi samtímans. Hann fer sínar eigin leiðir, skapar eftir eigin höfði, og gefur skít í plebbana hvað sem það kostar. Sönn objektivistahetja lifir ekki fyrir annað fólk, eins og Rand útskýrir í löngu máli við hvert tækifæri.
En vandinn er sá að Roark er klárlega gjörsamlega mislukkaður kapítalisti. Það eru kollegar hans sem mæta „þörfum markaðarins“ (lesist: þörfum plebbanna, hjarðarinnar) og maka krókinn. Eru það ekki þeir, smámennin hötuðu, sem eru góðir kapítalistar, og Roark sérvitringur sem ekki skilur lögmál markaðarins? Þetta gengur engan veginn upp hjá kerlingunni.