Þegar ég fór að kjósa í sveitarstjórnarkosningunum í sendiráðinu í Berlín um daginn stílaði ég óvart umslagið á Sýslumanninn í Reykjavík. Daman í sendiráðinu leiðrétti þetta hjá mér. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu var það víst. Í tvöhundruð og fokkíng einum. Tvöhundruð og einum í fokkíng Kópavogi.
Ég spurði hana af hverju Reykjavík hefði ekki lengur sitt eigið sýslumannsembætti. "Sennilega vegna sparnaðar," svaraði hún. "Þeir sameinuðu þessi embætti."
"Reykjavík er stærsta sveitarfélagið og þar búa flestir. Af hverju spöruðu þeir ekki með því að láta Kópavogsbúa fara til Reykjavíkur, frekar en að senda Reykvíkinga í Kópavoginn?" spurði ég.
Við þessu hafði hún ekkert svar.
En þetta er góð spurning. Allt þetta úthverfapakk í Kópavogi keyrir um á bílum, enda hverfið bókstaflega hannað fyrir hinn heittelskaða einkabíl stolta Sjálfstæðismannsins. Af hverju keyra þeir ekki til Reykjavíkur, frekar en að bíllausir Reykvíkingar séu píndir til þess að taka strætó í þetta sálarlausa, guðsvolaða Smárahverfi?
Sýslumannsembættið er farið, pósthúsið er að fara, allt krökt í lundabúðum og okurverslunum, og ferðamenn bókstaflega kúka í görðunum okkar. Og svo erum við með verstu áfengisverslun á höfuðborgarsvæðinu, með ömurlegu úrvali og hræðilegum opnunartímum. Hart þykir mér vegið að okkur miðborgarfólki!