Vélmennin að segja okkur fyrir verkum

20.11.2017 kl. 18:22 - Sveinbjörn Þórðarson

Úff, sorgleg þróun ef af verður. Eitt af því sem einkenndi líf mitt í Lundúnum var að vélmenni voru sífellt að segja mér fyrir verkum og fræða mig um einföldustu hluti í katatónískum jafnaðartón.

"Please mind the gap between the train and the platform," sagði neðanjarðarlestin. "Change here for the Piccadilly Line, Hammersmith & City and the DLR."

Svo kom maður í skólann, fór inn í lyftuna. "This elevator is going to the ... fourth floor ... Mind the closing doors ... Doors opening!"

Og auðvitað þegar maður fór að versla. "Place item in bagging area," sagði vélin í Tesco, og stundum "Approval needed! Approval needed!" þegar maður gerðist svo djarfur að kaupa bjór.

Og verst af öllu, ef eitthvað fór úrskeiðis í hræðilegu bresku bjúrókrasíunni (sem ég mun ekki kalla "byzantine" því ég ber of mikla virðingu fyrir skipulagsgetu Austrómverska veldisins) þá þurfti maður að hringja í vélmenni og segja nafn sitt og heimilisfang upphátt við ómögulegt talgreiningartæki aftur og aftur og aftur þar til tauganetið gafst loksins upp og maður fékk manneskju á línuna.

Ég er enginn tekknófób, síður en svo, en þetta er klárlega þróun sem gerir samfélagið kaldara, ósveigjanlegra, andstyggilegra. Munum nú að vélarnar eiga að gera líf okkar og samfélag betra, ekki bara auka hagnað í Excel-línuriti sálarlausra viðskiptafræðinga.

Separator