Hvenær gefst maður upp?

26.9.2017 kl. 18:01 - Sveinbjörn Þórðarson

Skömmu fyrir Alþingiskosningarnar síðasta haust sat ég á öldurhúsi í Reykjavík ásamt góðum hópi fólks. Við vorum öll í glasi að ræða stjórnmálin og í hita leiksins lét ég þau orð falla að ef íhaldið kæmist aftur til valda eftir allt sem á undan væri gengið myndi ég hreinlega flytja úr landi.

Frambjóðandi á vinstrivæng íslenskra stjórnmála var viðstaddur og tók ekki vel í þennan málflutning. "Hvað verður um Ísland ef allir sem vilja breytingar til hins betra flytja úr landi? Þetta er bara aumingjaleg uppgjöf hjá þér. Þú ættir að vera áfram heima, halda áfram að berjast. Þú skuldar landinu þínu það."

Ég er svosem ekki mikill þjóðernisrómantíker en ég verð að viðurkenna að þessi orð höfðu áhrif á mig og ég skammaðist mín eilítið. Mér þykir alveg vænt um Ísland og vil að því farni vel. Ég flutti heim eftir Hrunið í von um betra samfélag. Mér er nefnilega ekki sama. Stjórnmál erlendis gera mig sjaldnast reiðan eða frústreraðan. Þau er einhvern veginn *þeirra* klúður, *þeirra* vandamál. En íslenska klúðrið, það er einhvern veginn mitt klúður líka, og ég verð alveg svakalega svekktur og sekk í þunglyndi í hvert skipti sem siðlausu hvítflibbaglæpamennirnir mynda enn eina ríkisstjórnina.

En já, ég velti þessum málflutningi frambjóðandans mikið fyrir mér næstu daga. Hvað skuldar maður? Hvað getur maður gert? Hversu lengi nennir maður að halda þessu áfram? Hversu lengi lætur maður bjóða sér þetta? Ef það að ljúga, stela, blekkja, setja landið á hausinn, gjörsamlega rústa hagkerfinu, hylma yfir vanhæfni, þjófnað og spillingu, níðast á hælisleitendum, afskræma stjórnsýsluna og dómskerfið, fela stolið fé á aflandsreikningum og bókstaflega gefa þeim ríkustu skattpeninga úr ríkissjóði er ekki nóg til þess að fella íhaldið, mun þá nokkuð duga til? Hvenær fær maður nóg af að vera fastur í gíslingu fjáðasta og siðlausasta fjórðungs íslensku þjóðarinnar? Hvenær verður vanmáttartilfinningin svo óbærileg að það er best að slíta tilfinningaböndin og sökkva sér í forarpytt uppgjafar og kaldhæðni, eða hreinlega hætta alfarið að hugsa um þetta?

Ég komst svosem ekki að neinni heimspekilegri niðurstöðu í málinu eftir þessar hugleiðingar. Hins vegar endaði ég á að flytja úr landi síðasta haust og hef notið lífsins á meginlandinu undanfarið ár. Það er kannski niðurstaða út af fyrir sig.

Separator