Vefsíða í 20 ár

26.8.2017 kl. 18:41 - Sveinbjörn Þórðarson

Ég var að fatta að ég hef haldið úti vefsíðu á netinu í 20 ár! Fyrsta vefsíðan mín fór í loftið árið 1997, skömmu áður en ég byrjaði í menntaskóla. Hún var með rotating GIF hauskúpur sitt hvoru megin við hausinn efst og hýst á slóð sem innihélt tildu (~), eins og tíðkaðist þá.

Fyrstu árin hoppaði vefsíðan milli hýsingaraðila og undirléna, en að lokum keypti ég mitt eigið lén, sveinbjorn.org, árið 2005. Vefurinn hefur keyrt á heimasmíðaða vefumsjónarkerfinu mínu, Mentat, frá 2003. Það er enn langbesta vefumsjónarkerfið, enda sérsniðið að mínum þörfum (Fokk jú, Wordpress).

Heimavefþjónninn arakkis fór í loftið árið 2005. Hann var um tíma ofan í skúffu hjá foreldrum Magga vinar míns og hýsti sveinbjorn.org allt þar til vélin gaf upp öndina 2015. Þá var nýr þjónn, lítill Intel NUC, keyptur til þess að halda fjörinu gangandi. Sá þjónn heitir caladan, og nýtist sem Tor relay node og VPN fyrir mig.

Á gullárum bloggsins, 2002-2008, áður en Facebook tók yfir allt, var athugasemdakerfið á sveinbjorn.org lifandi vettvangur þar sem ég og vinir mínir og aðrir rifumst um pólitík og skiptumst á bröndurum.

Síðasta haust tók ég mig til og færði vefinn loksins í nýtt og betra form sem virkar vel á snjalltækjum. Í footernum stendur nú © 1997-2017 Sveinbjörn Þórðarson. Mitt elsta sköpunarverk sem enn lifir.

Separator