Reykjavík hefur lengi verið fórnarlamb gegndarlausra skemmdarverka. Skipulagsleysi, græðgi, smekkleysi, heimska og skammsýni hefur ráðið för við uppbyggingu borgarinnar svo áratugum skiptir. Nú er skaðinn orðinn svo mikill að ekki verður aftur snúið.
Ég mun framvegis sleppa því að væla yfir borgarskipulagi og þeim hryðjuverkum sem eru nú í gangi við Lækjargötuna. Þetta verða mín síðustu bitru skrif um þessi málefni. Fegurð og siðmenning töpuðu. Módernistar, Excel-peningaplokkarar og smekkleysingjar sigruðu. Og þeir sigruðu fyrir löngu síðan.
Rífum bara Grjótaþorpið og reisum annað Korputorg. Leggjum fjögurra akreina stofnæð í gegnum Þingholtin. Byggjum tuttugu hæða Smáraturn í Vesturbænum fyrir endurskoðendur og lögmenn. Stýrimannahverfið gæti svo orðið veglegt bílastæðaplan fyrir Garðbæinga á leiðinni í Costco.