Þegar ég var lítill og fréttirnar voru að sýna frá hræðilegum stríðum úti í heimi kom móðir mín stundum með athugasemdir á borð við "Þessir karlar, alltaf að draga fólkið út í þessi ömurlegu stríð" eða "Svona væri þetta ekki ef konurnar réðu." Ég held að hún trúi því enn í dag að hlutirnir myndu batna ef konur réðu ferðinni.
Ég hef hugleitt þetta þónokkuð í gegnum árin og finnst þetta athyglisverð kenning, en á þessu stigi er ég nokkuð viss um að þetta sé ekki rétt hjá mömmu. Lögmálin sem ráða því hverjir komast til valda í samfélögum manna eru þess eðlis að viðurstyggilegasta úrþvættið skolast yfirleitt alltaf upp á toppinn, allavega til langs tíma litið. Það hafa sögubækurnar kennt mér. Siðleysingjarnir og sósíópatarnir eru hreinlega tilbúnir að gera það sem þarf -- *hvað* sem þarf! -- til þess að ná sínu fram. Og þeir gera það. Þess vegna er langflestum þjóðríkjum beint eða óbeint stjórnað af spilltu, illu fólki sem er skítsama um pöpulinn. Eins og Lord Action orðaði það, "Great men [í skilningnum sögulega mikilvægir] are almost always bad men."
Ef þetta er haft í huga er ljóst að það skiptir ekki svo miklu máli hvort valmengi þeirra sem geta komist til valda samanstendur af körlum, konum eða báðum kynjum.
Tökum Margaret Thatcher, Hillary Clinton eða Theresa May sem dæmi. Sumir hafa sagt við mig að þessar illu, valdamiklu konur séu/hafi verið eins og þær eru því þær þurftu að klóra sig upp á toppinn í karlaheimi. Samkvæmt þessum rökum þá hefði ókarllægt kerfi ekki komið þeim til valda, eða a.m.k. ekki gert þær að svona skelfilegum manneskjum. En þau rök halda ekki vatni. Ef aðeins konur gætu risið til valda, þá væru keppinautar þeirra grimmustu, siðlausustu konurnar í stað grimmustu, siðlausustu karlanna. Væri það í raun og veru skref framávið? Eru verstu karlarnir verri en verstu konurnar? Ég er bara alls ekki svo viss.
Eins og ég sé það, þá er vandamálið hérna ekki kyn eða kynhegðun. Vandamálið er homo sapiens. The scum floats to the top, male or female.