Verkalýðsleiðtogar sýni vígtennurnar

14.3.2017 kl. 16:42 - Sveinbjörn Þórðarson

Ég hef alla tíð forðast eftir fremsta megni að greiða í stéttarfélag, enda hef ég lítinn hag af að taka þátt í glorified sumarbústaðaleigu sem niðurgreiðir stundum tannlæknakostnað barna. Ég greiddi þó til VR um tíma fyrir nokkrum árum. Það ævintýri endaði snarlega þegar ég fékk einn daginn sendan hnausþykkan (og vafalaust rándýran) glansbækling fullan af áróðri um ágæti VR með Shutterstock myndum af brosandi skrifstofufólki. Mér var svo stórlega misboðið að ég sagði mig þegar í stað úr félaginu.

Þetta er í raun frekar einfalt. Ég vil ekki sumarbústaðaleigu, eða glansbæklinga, eða smápeninga í átt að tannlæknakostnaði. Ég vil hreinlega sjá leiðtoga verkalýðsfélaga vinna helvítis vinnuna sína.

Gylfi Arnbjörnsson er fullkomið dæmi um duglausan og gagnslausan verkalýðsleiðtoga. Þénar margföld laun skjólstæðinga þarna á toppnum og leggur risajeppanum sínum í fatlaðrastæði til þess að fara og spila golf með forstjórum atvinnulífsins. Hann hefur miklu að tapa á að rugga bátnum. Þannig maður ætti aldrei að hafa hagsmuni smælingjanna í sínum höndum.

Ég vil sjá verkalýðsleiðtoga steyta hnefann í fréttatíma sjónvarps og tala um hvernig auðstéttin mergsýgur vinnandi fólkið í landinu. Ég vil sjá þá berjast gegn óréttlæti og svindli á vinnumarkaði, standa í hótunum og öllu illu, gera lífið erfitt fyrir þá sem standa í vegi fyrir launahækkunum, sjá þá sýna vígtennurnar til að fá stærri bita af kökunni. Ég vil með öðrum orðum að þeir séu raunverulegir talsmenn vinnandi fólks.

Gott að sjá að vondu gæjarnir sigra ekkert alltaf. Vonandi verður Ragnar sem mest til vandræða.

Separator