Hve miklar og sterkar eru skyldur stjórnmálamanna gagnvart eigin þjóð miðað við almennar siðferðislegar skyldur þeirra gagnvart mannkyninu öllu? Með öðrum orðum, hvað skal gera ef sanngirni, réttvísi og góðmennska reynist vera á kostnað fólksins sem kaus þig og treystir þér til þess að gæta sinna hagsmuna?
Þetta er í raun hliðstætt gömlu spurningunni um svokallað „corporate social responsibility“, nema að gerandinn er ríkið í alþjóðakerfinu, ekki fyrirtæki í samfélagi.
Við getum flest fallist á að herskáu þjóðarmorðingjarnir hafi gengið of langt í (ímyndaðri) hagsmunagæslu síns fólks. Að sama skapi myndu flestir fallast á að þjóðarleiðtogi sem skattpíndi fólk til þess að senda peninginn úr landi í þróunaraðstoð væri á einhverju stigi að brjóta gegn skyldum sínum.
Dæmin að ofan eru öfgapólarnir tveir, en stjórnmálasagan er troðfull af ýmis konar vafamálum:
Væri réttlátt að nota kjarnorkusprengju á borgir, myrða hundruð þúsunda, til þess að binda enda á stríð og koma þar með í veg fyrir stórfelld dauðsföll eigin hermanna?
Ef maður er að semja við erlent ríki, hversu langt ber manni að ganga í að beita þrýstingi í krafti yfirburðarstöðu?
Ef fólkið þitt getur hagnast beint á kostnað þegna annars ríkis, ættirðu að láta það gerast?
Hverjar eru skyldur þínar þegar það kemur að hlýnun jarðar, sem sannarlega varðar allt mannkynið? Hvað ef áframhaldandi notkun jarðeldsneytis tryggir velmegun þjóðar þinnar, sem býr við sára fátækt? Hvað skuldarðu framtíðarkynslóðum?
Þetta eru hræðilega erfiðar siðferðislegar spurningar.