Söguleg skuld

30.10.2016 kl. 14:23 - Sveinbjörn Þórðarson
British and French empires 1920

Stundum þegar ég hugleiði evrópupólitík samtímans í samhengi við söguna er mér stórlega misboðið.

Frakkar og Bretar fóru út um allan heim í stóru skipunum sínum, lentu við strendur Afríku og Asíu, voru fyrst um sinn sáttir við að verða sér úti um þræla og stela uppsöfnuðum auði heimamanna með klækindum og ofbeldi. Síðarmeir komu hvítu landnemarnir, tóku besta ræktunarlandið, stálu gulli, demöntum, olíu, öllum auðlindum sem þeir gátu hagnast á. Heimamönnum var gert að læra tungumál herraþjóðarinnar enda þurfti að siðmennta villimennina og koma þeim í kynni við yfirburði vestrænnar siðmenningar. Það er þessum frumstæðu undirmennum fyrir bestu, hugsuðu Evrópumenn.

Þessi tvö ríki alveg sérstaklega, Bretland og Frakkland, byggðu upp gríðarlegt ríkidæmi í heimalandinu með því að kerfisbundið arðræna undirgefin Afríku- og Asíuríki. Þetta gerðu þau í krafti yfirburða sinna í hertækni, vísindum og skipulagi. Í París og Lundúnum voru reistar glæstar byggingar, gulli slegin þök á höllum yfirstéttarinnar, iðnvæðing heima fyrir keyrð áfram með hráefnum undirþjóða.

Eftir að nýlendurnar fengu sjálfstæði á seinni hluta 20. aldar hélt arðránið áfram. Lítið breyttist annað en að nú báru herraríkin ekki lengur beina ábyrgð. Þess í stað komu vestrænu leyniþjónusturnar hlýðnum harðstjórum til valda og með þeirra aðstoð var haldið áfram að stela, eyðileggja og kúga í gegnum millimenn.

Fólk í fátæku nýlendunum flutti sumt til herraþjóðarinnar í von um betra líf. Þar gat það fengið að þjónusta hvítu herrana, hreinsa salerni þeirra, þrífa fötin þeirra, skeina gamlingjunum, sópa göturnar, leggja bifreiðum, jafnvel vonast til þess að einn daginn opna hurðina á þriggja stjörnu hóteli.

En í dag finnst Bretum og Frökkum nóg komið. Getur þetta fólk ekki bara verið heima hjá sér? hugsa þeir. Frakkland fyrir Frakka. Bretland fyrir Breta. Siðmenntuð, hrein, hvít lönd fyrir siðmenntaða, hreina, hvíta fólkið. Útkoman er Front nationale, BNP, UKIP.

Ég spyr, viðurkennir þetta fólk enga sögulega skuld? Gerir það sér yfirhöfuð grein fyrir því hversu illa ríki þeirra hafa leikið aðrar þjóðir jarðarinnar? Hve mikið þeirra eigin velmegun er byggð á baki annara? Hræsnarar og rasistar, kunna þeir ekki að skammast sín?

Separator