Efnahagsleg óstjórn

16.10.2016 kl. 14:22 - Sveinbjörn Þórðarson

Efnahagslegri óstjórn á Íslandi hefur aldrei verið almennilega refsað af örlaganornunum.

Löngu fyrir hrunið 2008 höfðu ráðamenn á Íslandi oft og mörgum sinnum klúðrað efnahagsmálum, en alltaf reddaðist það einhvern veginn í gegnum tíðina. Flokksblöðin héldu almenningi illa upplýstum um gang mála og landinn lét þetta yfir sig ganga. Hægt og bítandi urðu Íslendingar þó auðugri með hverjum áratuginum sem leið. Málum var alltaf reddað á einn eða annan hátt því landið og hafið er gjöfult og auðlindirnar miklar, og svo var alltaf hægt að mjólka Kanann.

En loksins, haustið 2008, leit út fyrir að Íslendingar þyrftu raunverulega að líða fyrir stórkostlega óstjórn ráðamanna og viðskiptalífs. Mörg ár af samdrætti og kreppu. En nei, það gerðist ekki. Þess í stað kom túristasprengja og makríll og reddaði málunum. Það er eins og örlaganornirnar haldi sérlegum verndarvængi yfir Íslendingum. Aldrei þurfa þeir að gjalda gjörða sinna.

Nú þegar íslenska hagkerfið er komið aftur á flug er orðið tímabært að nýta þessa ótrúlegu lukku í að bæta þann mikla skaða sem félagsþjónusturnar og fjárfestingar í innviðum hafa þurft að líða eftir hrun. Áframhaldandi afturhald í ríkisfjármálum, líkt og stjórnarflokkarnir boða, er ekki leiðin til velmegunar í framtíðinni. Það er mikil þörf á breytingum eftir næstu kosningar. Við skulum ekki láta þetta tækifæri renna úr greipum okkar.

Separator