Þegar ég var kominn eitthvað yfir tvítugt fattaði ég að eldra fólkið í samfélaginu, fólkið sem öllu réði, vissi faktískt ekki betur. Það vissi jafnvel oft ekki neitt um nokkurn skapaðan hlut og þá síst af öllu hvernig best væri að reka íslenskt samfélag. Þetta var ákveðin uppljómun, ekki ósvipað því þegar það rann upp fyrir manni í síðbernsku að foreldrarnir voru ekki með öll heimsins mál á hreinu.
Gömlu íslensku ráðamennirnir, yfirleitt lögfræðimenntaðir kerfiskarlar forhertir af fornum menntaskólarifrildum og áróðri heiladauðra ungliðahreyfinga, búa faktískt ekki yfir neinni sérstakri reynslu eða viti. Ef þeir gerðu það einhvern tímann, þá er heimurinn hvort sem er löngu búinn að breytast undan þeim. Þeirra tilkall til þess að ráða og stjórna í krafti reynslu og vísidóms er tómt kjaftæði. Þeir fengu sinn tíma, og þeir stóðu sig almennt mjög illa, eins og ástand mála á Íslandi ber vitni um.
Ungir Íslendingar í dag eru mun upplýstari en fyrri kynslóðir. Margir hafa sótt sér fyrsta flokks, alvöru nám (lesist: ekki íslensk lögfræði) í virtum skólum utan Íslands og búið erlendis árum saman, þekkja hvernig hlutir virka utan landssteinanna, og jafnvel utan nágrannaríkjanna. Margir þeirra vita mun meira um hvernig heimurinn virkar í dag, og hvað þarf að gera til þess að bregðast við komandi breytingum, heldur en forpúkaðir einangrunarsinnar og afturhaldsmenn íslensku stjórnmálastéttarinnar.
Eitt af því sem gerir mig spenntan fyrir næstu kosningum er sá möguleiki að stór hópur ungs og efnilegs fólks, fólks sem aldrei fór í gegnum ömurlegu amen-og-hallelúja þjálfun ungliðahreyfinganna, fólks með nýjar hugmyndir um hvernig gera skal hlutina, fái tækifæri til þess að setjist á Alþingi og vinna að því að breyta Íslandi í opnara, skilvirkara og sanngjarnara samfélag.