Berlínarhugleiðingar

14.7.2016 kl. 18:59 - Sveinbjörn Þórðarson

Hérna í Berlín er sagan alls staðar í kringum mann. Jafnvel þótt borgin hafi verið gjörsamlega sprengd í tætlur fyrir rúmum sjötíu árum standa samt víðast hvar byggingar sem bera vott um auð og glæsta menningu Þýskalands. Mér verður hugsað til fátækrar byggingarsögu Íslands og þeirrar sorglegu staðreyndar að heima fyrir virðast menn helst áhugasamir um að rífa það litla sem við höfum til þess að reisa brútal módernistahótel fyrir túrista.

...

Var annars að ræða við vinafólk um þessa geðbiluðu Evrópu-umræðu heima á Íslandi. Menn láta út úr sér fáránlegar staðhæfingar um að allt sé ömurlegt og í rugli á meginlandinu vegna ESB, innflytjenda, Íslam, osfv.

Ég elska Evrópu -- það er engin tilviljun að ég sérhæfði mig í sögu álfunnar -- og finnst skrýtinn þessi fyrirlitningartónn og þessar fáfróðu alhæfingar. Í sögulegu samhengi hefur Evrópa aldrei verið auðugri og öruggari en á okkar tímum. Þrátt fyrir ólýsanlega skelfilegar stríðshörmungar þjóðernishyggjunnar og ömurlega arfleifð kommúnismans í austri búa hér meira en 500 milljón manns við friðsemd og þokkalega hagsæld. Það er stórmerkilegt! Auðvitað eru ýmis vandamál. Það eru alltaf einhver vandamál. En heildarmyndin er alveg skýr fyrir þá sem vilja á annað borð sjá hana.

Separator