Leiðinlegasta sjónvarpsþáttaserían

1.7.2016 kl. 14:12 - Sveinbjörn Þórðarson

Ímyndum okkur að það væri í gangi hálf-fasísk þjóðernisrúnk-sjónvarpsþáttasería sem næstum allir í kringum mann horfðu á. Jafnvel fólk sem maður taldi annars búa yfir þokkalegri dómgreind og smekk.

Í þessari sjónvarpsþáttaseríu gerðist hér um bil aldrei neitt, framvinda plottsins væri hæg og mónótón, hver einasta sería keimlík þeirri síðustu.

Allir leikararnir litu hér um bil eins út, væru nokkurn veginn eins klæddir og væru sífellt að gera það sama -- hlaupa um stóran grasvöll, sveittir og aggresífir.

Það væri yfirþyrmandi magn af auglýsingum og vörumerkjum í þáttunum.

Reglulega spilað "scream track" í hvert skipti sem eitthvað virtist líklegt til þess að fara að kannski mögulega gerast.

Svo væri síöskrandi sögumaður að segja manni hvað væri eða væri ekki að gerast á hverri stundu.

Allir horfandi á þættina væru einnig sífellt öskrandi, enda af einhverri óskiljanlegri ástæðu með sterkar tilfinningar til leikara af eigin þjóðarbroti.

Og segjum sem svo að maður vissi að þáttaröðin væri vinsæl því hún höfðaði til þess lágkúrulegasta og ómerkilegasta í eðli mannsins -- hjarðhugsunar og tribalisma.

Velkomin í minn raunveruleika.

Separator