Þegar skattrannsóknarstjóri vildi kaupa gögn

10.5.2016 kl. 16:01 - Sveinbjörn Þórðarson

Haustið 2014, á fyrsta degi mínum sem blaðamaður hjá DV, þremur mánuðum áður en Bingi keypti blaðið og rak mig úr starfi, skrifaði ég þessa frétt.

Starfsmaður Skattrannsóknarstjóra ríkisins segist vona að Fjármálaráðuneytið muni heimila kaupin á gögnum úr erlendum skattaskjólum um íslenska skattborgara. Best væri að komast yfir gögnin sem fyrst. „Tíminn vinnur gegn okkur,” sagði hann í samtali við DV.

Embætti skattrannsóknarstjóra komst nýlega yfir sýnishorn af leynilegum bankagögnum úr erlendum skattaskjólum. Sýnishornin geyma nöfn nokkur hundruð Íslendinga og bárust frá erlendum aðila sem vill selja embættinu aðgang að gögnunum. Endanleg ákvörðun um hvort kaupin eigi sér stað er í höndum Fjármálaráðuneytisins.

Gögnin bárust fyrst skattrannsóknarstjóra síðastliðinn maí og hafa verið í vinnslu undanfarna mánuði. Embættið fékk um tíu prósent gagnanna í hendurnar sem sýnishorn frá söluaðila og voru þau keyrð saman við gagnabanka þeirra mála sem hafa verið til rannsóknar hjá embættinu. Í ljós kom að sum nöfnin tengdust skattaundanskotsmálum sem áður höfðu verið upplýst. Fyrir rúmri viku sendi skattrannsóknarstjóri greinargerð um þetta til Fjármálaráðuneytisins og málið er nú þar í meðferð.

Kaup á erlendum bankagögnum hafa hingað til ekki tíðkast á Norðurlöndunum en færast sífellt í aukana hjá skattayfirvöldum víðsvegar um heim. Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri segir að Ísland hafi ekki áður greitt fyrir gögn um íslenska skattborgara. Það gæti nú breyst ef Fjármálaráðuneytið heimilar kaupin.

„Þetta er ekki okkar ákvörðun,” segir Bryndís, „Boltinn er hjá ráðuneytinu.”

Spurð um hversu líklegt sé að gögnin komi upp um skattaundanskot, segir Bryndís ekkert borðliggjandi í þeim efnum. „Þetta eru vísbendingar . Við erum ekki með neitt í hendi en þessi gögn gætu opnað leiðir.”

...

Ég man að bæði skattrannsóknarstjóri og aðrir starfsmenn embættisins vildu endilega kaupa gögnin. Einn starfsmaður hringdi í mig nafnlaust, sagði að embættið stæði frammi fyrir niðurskurði í næstu fjárlögum og taldi að Bjarni væri að tefja málið.

Á sínum tíma hugsaði ég með mér að vinir fjármálaráðherra hefðu þarna e.t.v. eitthvað óhreint mjöl í pokahorninu. Mig grunaði samt ekki að Bjarni sjálfur væri í svona aflandsbraski, svo stórkostlega fráleitt væri það að fjármálaráðherra, yfirmaður skattamála, væri að skjóta undan skatti!

Mikið er maður naífur.

Separator