Íhaldið vill breyta Íslandi í Bretland

9.5.2016 kl. 12:27 - Sveinbjörn Þórðarson

Það var eitt sinn sá tími, fyrir langa löngu, þar sem ég trúði því að íslenska íhaldið meinti vel og vildi það besta fyrir fólk. Vandinn væri sá að þeir væru helteknir af kolröngum hugmyndum um hvernig best væri hægt að skapa betra samfélag.

Ég er löngu hættur að trúa þessu. Mér finnst nokkuð ljóst á þessu stigi málsins að íhaldið vill breyta Íslandi í einhvers konar Bretland:

Land þar sem hinn almenni borgari er fáfróður, valdalaus og fátækur.

Þar sem ungt fólk kemur úr námi í skuldahlekkjum, bundið í þrældóm afborgana til dauðadags.

Þar sem lítil elíta situr á auðnum og kaupir betri menntun og heilbrigði fyrir sig og sína afkomendur.

Þar sem ríkisvaldinu er gagngert beitt til þess að vernda forréttindi ráðamanna og auðkýfinga.

Þar sem fjölmiðlar og PR-menn eru varðhundar auðvaldsins og verja þá með grímulausum lygum, áróðri og blekkingu.

Þar sem menntun gengur út á að framleiða þröngsýna "fagmenn" til þess að mæta þörfum atvinnulífsins.

Þar sem menningarleg og efnahagsleg stéttaskipting gengur í erfðir, elur uppgjöf og sjálfsfyrirlitningu í litla manninum en óttablandin hroka í "betrungum" hans.

Þar sem gegndarlaus síbylja innantómrar og heiladauðrar afþreyingar skapar hlýðni og aðgerðaleysi fjöldans.

Þar sem gervispeki frjálshyggjunnar og öfgakennd einstaklingshyggja leiðir til harðbrjósta kæruleysis gagnvart náunganum.

Þar sem lýðræði þýðir val milli tveggja kjölturakka fjármála- og atvinnulífisins á nokkurra ára fresti.

Þar sem menning og fegurð og list og þekking og sjálfsskoðun og næmni og náttúran og lífríkið og allt það góða í lífinu er skorið í búta og gleypt af sálarlausum teknókrötum, hagfræðingum, markaðsfulltrúum og Excel-möppudýrum.

Þetta er ógeðsleg stefna, stefna illsku og mannvonsku, stefna græðgi og mannfyrirlitningar. Þeir sem berjast fyrir þessu eru illt fólk og eiga enga virðingu skilið. Þeir eru óvinir mínir, og óvinir alls fólks sem vill betri heim og betra samfélag.

Separator