Skattbyrði lægstu launa

9.5.2016 kl. 12:26 - Sveinbjörn Þórðarson

Þegar ég var 19 ára og nýútskrifaður úr menntaskóla vann ég um tíma í eldhúsi Landspítalans eftir að öll önnur starfstækifæri brugðust. Þar sem ég var íslenskur millistéttarstrákur var ég sendur í pöntunardeildina í kjallaranum, þar sem vinnuálagið var lítið.

Á hæðinni fyrir ofan þræluðu innflytjendur og gamalmenni við eldamennskuna og uppvaskið, stóðu við færibandið klukkutímunum saman í hitamóðu og þrengslum.

Ég var samt á sömu kjörum og þau: Fyrir 40 klst vinnuviku plús vaktir aðra hverja helgi fékk ég mánaðarleg laun upp á 110.000 krónur. Mér fannst það gífurlega óréttlátt á sínum tíma, og finnst það enn, að af þessum 110 þúsund krónum, þessum lúsarlaunum, þurfti ég að greiða yfir 15 þúsund krónur í skatta, lífeyrissjóð og önnur gjöld.

Þetta er íslenska skattkerfið, og það er ekki réttlátt. Það þarf að hækka skattleysismörk rækilega. Enginn með undir 300 þúsund í mánaðartekjur ætti að greiða tekjuskatt. Skattleysismörkin ættu síðan að vera vísitölutengd svo íhaldið geti ekki notað verðbólguna til þess að auka skattbyrði smælingjanna án fjaðrafoks.

http://herdubreid.is/skattpining-hinna-verst-settu/
Separator