Röksemdafærslur nýfrjálshyggjumanna hraktar

Nýfrjálshyggjumenn vilja algjört markaðsfrelsi, og eru mótfallnir tekjudreifingu gegnum skattkerfi. Ríkið skal vera lágmarksríki sem takmarkar sig við varnir á lífi fólks, frelsi og eignarétti. Að lágmarksríkinu gefnu tryggir markaðshagkerfið réttlæti.

Þetta er dæmigerð hugmyndafræði fyrir okkar tíma. Ég tilheyri kynslóð sem hefur vaxið úr grasi við fjárhagslegt öryggi og velmegun sem er markaðsbúskapi að miklu leyti að þakka. Það kemur því tæpast á óvart að stjórnspekikenning eins og nýfrjálshyggja sé höfð í öndvegi meðal margra sæmilega þenkjandi manna. Nýfrjálshyggjan er samt sem áður rotið epli.

Ef stjórnspekikenning á að sannfæra okkur, þá verður hún að sýna fram á að hún sé réttlát. Ekki nægir að höfða til fordóma eða ræða hagsmuni ákveðna hópa. Fyrir vikið hef ég grafið upp þrjár algengar röksemdafærslur nýfrjálshyggjuspekinga og fer hér yfir þær.

1. Kúgun ríkisins

Sumir verja óskarað markaðshagkerfi á þeim forsendum að það komi í veg fyrir kúgun ríkisins. Ef miðstýrt ríki býr yfir valdi til þess að skipta sér af efnahagi fólks þá er það líklegra til þess að skipta sér af öðrum hliðum lífsins. Markaðslöggjöf og miðstýring er því sögð vera fyrsta skrefið á "veginum til þrældóms", í frægu orðum Friedrichs von Hayek. Röksemdafærslan er í grundvallaratriðum svona:

 1. Miðstýrt vald veldur spillingu
 2. Ríkisafskipti af efnahagnum eru tegund af miðstýrðu valdi
 3. Ríkisafskipti af efnahagnum takmarkar frelsi fólks á einu sviði
 4. Ef ríkið fær vald til að takmarka frelsi á einu sviði þá mun það hægt og rólega takmarka frelsi á öðrum sviðum
 5. Af ofangreindum ástæðum valda miðstýrð afskipti af efnahagnum spillingu og leiðir til alvarlegra frelsisskerðinga
 6. Til þess að koma í veg fyrir spillingu og hámarka frelsi okkar ber okkur því að láta markaðshagkerfið starfa án afskipta frá ríkinu

Það er ósköp lítið varið í þessa röksemdafærslu. Þótt að forsendur 1) til 3) séu sennilega sannar, þá má setja stórt spurningamerki við forsendu 4). Það er kannski satt að umsvifamikið ríki geti reynst afskiptasamt en það er engin ástæða til að ætla að upplýstir borgarar sem búa við sterkt lýðræði geti ekki staðið vörð um borgaralegt frelsi. Í Frakklandi vinnur tæpur helmingur þjóðarinnar fyrir ríkið eða ríkisfyrirtæki, og efnahagurinn býr við töluverða miðstýringu. Einungis öfgamanni mundi detta í hug að segja að út 20. öldina hefði Frakkland stigið "veginn til þrældóms". Frakkar hafa þvert á móti staðið vörð um frelsi sitt á lofsverðan hátt. Borgaraleg gagnrýni og fjölmiðlaumfjöllun getur einnig haldið spillingu í skefjum. Sennilega er aldrei hægt að útrýma spillingu algerlega, en þá má benda á að hún fyrirfinnst einnig hjá markaðsfyrirtækjum (sbr. Enron). En þetta eru bara mótdæmi -- þessi forsenda er ógild því hún notast við "slippery slope" röksemdafærsluna: ef eitthvað fær að taka fyrsta skrefið, þá hlýtur það að komast alla leið.

Sagan hefur ekki látið í ljós nein bein tengsl milli markaðsbúskapar og borgaralegs frelsis. Það eru til þjóðir sem hafa búið við næstum afskiptalausan markaðsbúskap en samt liðið gífurleg mannréttindabrot og frelsisskerðingu (t.d. einræðisstjórnir í Chile og Argentínu, eða jafnvel McCarthy tímabilið í Bandaríkjunum). Síðan eru til lönd með umfangsmikið velferðarríki og töluverða efnahagsmiðstýringu, en svo að segja óflekkaðan mannréttindaferil og umtalsvert borgaralegt frelsi (sbr. Norðurlöndin).

Sagan er reyndar nýfrjálshyggjunni hliðholl að einu leyti: ríkisstjórnir eiga það til að misnota vald sitt. Gott og vel. En væri ekki réttara að segja að voldugar stofnanir eiga það til að misnota vald sitt? Það eru til fjölmörg dæmi um að stór markaðsfyrirtæki misnoti vald sitt. Svar nýfrjálshyggjumanna er að "markaðurinn refsi fyrirtækjum fyrir þannig hegðun", en þetta á sér hreinlega ekki hliðstæðu í raunveruleikanum nema að mjög litlu leyti. Lýðræðislegar ríkisstjórnir hafa það allavega fram yfir markaðsfyrirtæki að vera bera ábyrgar á gerðum sínum þegar að kosningum kemur.

Ég tel að réttlæting á nýfrjálshyggjunni og hreinum markaðsbúskap fáist ekki með því að höfða til sögunnar. Hreinn markaðsbúskapur í byrjun iðnbyltingar reyndist svo grimmúðlegur að margir vinnandi menn vildu afnema eignaréttinn til að bæta kjör sín -- tæpast sannfærandi rök fyrir réttlæti kerfisins. Sannfærandi réttlæting, ef hún fyrirfinnst yfirhöfuð, hlýtur að vera af heimspekilegu tagi.

2. Sjálfræði, sjálfseign

Heimspekingurinn Robert Nozick var lengi vel einn sterkasti talsmaður nýfrjálshyggjunnar. Hann réttlætir nýfrjálshyggjuna á eftirfarandi hátt:

 1. Við eigum okkur sjálf, þ.e.a.s. við erum sjálfráðar manneskjur
 2. Fyrst við eigum okkur sjálf, þá eigum við einnig hæfileika okkar
 3. Fyrst við eigum hæfileika okkar, þá eigum við einnig allt sem við framleiðum með hæfileikum okkar
 4. Skattlagning á tekjum fólks, eða önnur efnahagsleg afskipti, brjóta á rétti okkar til þess sem við framleiðum með hæfileikum okkar
 5. Af ofantöldum ástæðum eiga efnahagsleg afskipti ríkisins ekki rétt á sér

Flestir mundu samþykkja 1). En er forsenda 2) sönn? Jafnaðarmenn halda því fram að fyrst hæfileikar fólks eru að miklu leyti handahófskenndir (sumir fæðast sterkir, gáfaðir, o.s.frv. á meðan aðrir fæðast t.d. lamaðir eða blindir) þá hafi hinir verr settu siðferðislegt tilkall til hinna hæfileikaríku. Þetta er ein leið til að líta á hlutina -- kenning Johns Rawl í bókinni A Theory Of Justice snýst um að réttlæta fyrirkomulag þar sem þeim verr settu er bætt fyrir takmarkaða hæfileika -- en mér finnst þetta ekki vera sterkustu mótrökin gegn Nozick.

Lítum nánar á forsendu 3). Þessi forsenda er ekki sönn nema við gerum ráð fyrir því að það sem við framleiðum sé einungis afsprengi hæfileika okkar. Er þetta satt? Svo framarlega sem ég fæ séð, þá nýtir nær öll framleiðsla auðlindir jarðarinnar á einn hátt eða annan, annaðhvort beint með því að skapa efnislegar vörur, eða óbeint, því skapandi mannverur eru háðar fæðu til að lifa. Hver á þessar auðlindir? Ef röksemdafærsla Nozicks á að ganga upp, þá verðum við að koma með réttlætingu á núverandi eignarhaldi auðlinda -- sem er mjög erfitt. Lítum aðeins nánar á málið.

Auðlindir jarðarinnar virðast upp til hópa vera bundnar við landareign (og hafið). Eignarétturinn er grundvallaratriði nýfrjálshyggjunnar. Hvernig er hægt að eignast land á réttmætan hátt? Nýfrjálshyggjan segir flutning eigna frá einum eigenda til annars vera réttlátan að því gefnu að flutningurinn sé óþvingaður. Ef viðkomandi land hefur á einhverju stigi verið fengið með broti á eignarrétti (þ.e.a.s. stolið eða tekið með valdi) þá hefur núverandi eigandi ekki rétt til þess samkvæmt grundvallarlögmáli kenningarinnar.

Þarna lendum við í klípu, því næstum allar landareignir í heiminum í dag hafa á einhverju stigi í mannkynssögunni verið fengnar með því að brjóta á eignarétti einhvers. Ef kenning Nozicks á að standast, þá þurfum við róttæka endurskiptingu á landi. Nú þykist ég ekki vita hvað Nozick teldi sanngjarna skiptingu fyrir réttlætanlegan byrjunarpunkt markaðskapítalisma, en þó dettur mér eitt í hug: algerlega jafna skiptingu, þar sem hverjum aðila er úthlutað jafnmikið land. Allur flutningur eigna milli einstaklinga frá og með byrjunarpunktinum er þá réttlátur ef hann er óþvingaður. En ef við samþykkjum þetta, þá er félagshyggjumönnum fært vopn í hönd. Þeir munu segja að endurskipting landsins sé ópraktískt (sem það er svo sannarlega!). Síðan geta þeir réttlætt velferðarkerfið og skattlagninguna í dag á þeim forsendum að þeir sem minna mega sín hafi (fræðilega séð) fórnað sínum eignarhlut í landinu fyrir öryggi velferðarkerfisins í skiptum fyrir að sætta sig við núverandi skiptingu eigna.

Réttlæting á núverandi eignarhaldi er erfiður og sennilega óleysanlegur vandi. Praktískir menn munu vilja líta fram hjá því, en ef við viljum sannfærandi stjórnspekikenningu þá verðum við að hafa það til hliðsjónar við kenningasmíðin. Ein af forsendum Nozicks byggir á eignarétti til auðlinda, en fær því ekki svarað hvernig núverandi skipting auðlindanna er réttlát.

3. Frelsi sem æðsta gildið

Önnur röksemdafærsla sem maður rekst oft á í samræðum við öfgafullt nýfrjálshyggjufólk hljómar á eftirfarandi hátt:

 1. Frelsi er æðsta gildið og er gott í sjálfu sér
 2. Efnahagsleg afskipti ríkisins minnkar frelsi
 3. Þess vegna ætti ríkið ekki að skipta sér af efnahagnum

Ég var nú þegar búinn að fjalla um þessa röksemdafærslu í svari mínu til Friðbjörns Orra. Ég mun ætla samt aftur sýna fram á hversu fráleit hún er.

Forsendu 1) má afsanna með einu orði: "Nei". Nýfrjálshyggjumenn tala einmitt um að ríkið beri ekki að þröngva einhverju gildismati upp á fólk (t.d. um varðveislu fornmuna, sbr. Þjóðminjasafnið), en hér er verið að gera nákvæmlega það. Ég er til dæmis ekki sammála því að frelsi sé æðsta gildið. Ég tel yfirhöfuð ekki að það sé til neitt "æðsta gildi", né nokkur hlutur sem sé "góður í sjálfum sér". Jafnvel þótt ég væri á öndverðri skoðun, þá er frelsið hlægilegur kandídat.

Að setja frelsið sem æðsta gildið stangast á við grundvallarinnsæi okkar. Það má auðveldlega hugsa sér að rökþenkjandi, skynsamir menn fórni frelsi fyrir eitthvað annað, t.d. öryggi, eða til þess að lifa af. Hvernig útskýrum við annars þrælahald, eða þá staðreynd að fjölmörg lönd búa við velferðarkerfi? Ef fólk metur í raun og veru frelsi ofar öllu öðru, þá er því leynt mjög vel. Nei, þetta er huglægt gildismat.

Og er frelsið "gott í sjálfu sér"? Eins og ég hef áður sagt, þá eru til margvíslegar tegundir frelsis, bæði jákvæðar og neikvæðar. Ég get fallist á að neikvætt frelsi (þ.e.a.s. "frelsi undan einhverju") sé svo að segja ávallt gott, en vissar tegundir jákvæðs frelsis (þ.e.a.s. "frelsi til einhvers") eru bersýnilega slæmar, sbr. frelsið til að myrða manneskju. Það er því hæpið að segja frelsið vera "gott í sjálfu sér".

Jafnvel að því gefnu að forsenda 1) sé sönn, þá er forsenda 2) ennþá grunsamleg. Hvernig vitum við að ríkisafskipti minnki frelsi? Auðvitað má segja að hún minnki frelsi í efnahagsmálum, en hvað með frelsi almennt? Það minnkar frelsi fólks að banna ofbeldi, en í heildina séð þá eykur þetta bann almennt frelsi. Frelsisskerðingar ber okkur að skilja út frá "frelsisþversögninni". Ákveðnar tegundir frelsis minnka heildarfrelsi -- við takmörkum því þessar tegundir frelsis til að hafa jákvæð áhrif á almennt frelsi fólks. Það er engin ástæða til að ætla að efnahagsleg afskipti ríkisins minnki almennt heildarfrelsi -- þvert á mót, þá tel ég velferðarkerfi tryggja þeim verr settu ákveðið lágmarksfrelsi t.a.m. í samningum við atvinnurekendur: þeir geta hafnað ósanngjörnum vinnusamningum án þess að svelta fyrir vikið.

Engar af ofantöldum röksemdafærslum eru að mínu mati sannfærandi, og ef nýfrjálshyggjumenn koma ekki með betri réttlætingu á viðhorfum sínum þá verðum við að hafna stjórnspeki þeirra.