17.8.2012 kl. 00:56

Nú þykir mér tími til kominn að kynna lesendur mína almennilega fyrir söngkonunni Peggy Lee, sem ég hef mikið hlustað á undanfarin tvö ár.

Ég heyrði fyrst nafn hennar fyrir einum 14-15 árum síðan. Ég hafði þá nýlega séð Bitter Moon, kvikmynd eftir Roman Polanski. Í þeirri kvikmynd var sena þar sem kynþokkafulla eiginkona Polanskis, Emanuelle Seigner, á í samræðum við fyrirsjáanlega vandræðalegan Hugh Grant. Í bakgrunninum heyrðist lag sem ég fílaði mjög vel, og ég komst að því í gegnum netið (þá nýlegt fyrirbæri) að þetta var söngkonan Peggy Lee, með lagið Fever. Þetta er lag sem ég hef dálæti af enn í dag.

Þegar ég fór að kafa dýpra í feril þessarar kynþokkafullu, sjarmerandi söngkonu fann ég hvern gimsteininn á fætur öðrum. Mér þykir t.a.m. eftirfarandi flutningur á djass-standardinum Black Coffee vera sá allra besti af þeim fjölmörgu sem ég hef heyrt.

En ef satt á að segja, þá á ég mér sérlega uppáhaldsupptöku með henni Peggy. Það er live flutningur á "Why don't you do right?" frá nítjanhundruðþrjátíuogeitthvað, alveg æðisleg upptaka, full af grúví tíðaranda, með Benny Goodman alveg spikfeitan á klarinettinu.

Þetta lag, sem Peggy Lee og Benny Goodman gerðu frægt, var meðal annars í eftirminnilegri senu í kvikmyndinni Who Killed Roger Rabbit?, sem ég held að meira og minna allir af minni kynslóð hafi séð á sínum tíma.


3 comments have been posted
Add Comment | RSS Feed

Eiki | 30.8.2012 kl. 14:38
Eiki

Allt í gamla daga var betra en allt núna.

Sveinbjörn | 30.8.2012 kl. 14:45
Sveinbjörn

Algjörlega sammála. Þess vegna fór ég í sagnfræði ;)

Eiki | 1.9.2012 kl. 12:56
Eiki

Nákvæmlega. Þess vegna fór ég líka í FORNfræði. Á undan þér. Mér datt það í hug snemma í mars 1981. Þú varst auðvitað ekki fæddur þá.