1.7.2012 kl. 11:36
economist

Ég byrjaði fyrst að lesa The Economist sumarið 1998, þegar ég var 16 ára og búsettur í París. Þá þótti mér blaðið þrusugott — það fjallaði um pólitík, hagfræði, viðskipti, vísindi og tækniþróun um allan heim á einstaklega vandaðri ensku. Ritstjórnargæði blaðsins voru fyrsta flokks, textinn vel og vitsmunalega skrifaður, greinarnar oft skarpar og fyndnar á þennan sérstaka, kaldhæðna hátt sem einkennir góða breska blaðamennsku.

Ég lærði heilmikið af því að lesa The Economist á næstu árum: ég las um upptöku evrunnar, um elíturnar sem stjórnuðu evrópska efnahagssvæðinu, um bandaríska stjórnkerfið og "frjáls" markaðskerfi, um Keynes og Hayek, um ríkisútgjöld og GDP og GNP og hagvöxt og viðskiptajöfnuð og fjárlög og demógrafíu, og allt hitt jargonið í kringum efnahagsmál, um tækni og vísindi, um orkubransann og alþjóðaviðskipti. Ég stend e.t.v. líka í einhverri þakkarskuld við blaðið þegar það kemur að stílhæfni minni á ensku, en textinn þeirra er mjög gott dæmi um sóber, fagmannlegan breskan ritstíl.

Ég hélt áfram að lesa The Economist vikulega fram til ársins 2003, þegar leiðari í blaðinu lýsti yfir stuðningi við innrásina í Írak og hrósaði Bush yngri. Það þótti mér einum of mikið og ég hætti alveg að lesa það, jafnvel þótt ég hafi lengi vel verið svo ginnkeyptur að trúa spá þeirra um að Íraksævintýrið myndi enda vel.

Á þessum tíma voru stjórnmálaskoðanir mínar allt aðrar en þær eru í dag. Ég var eins konar hægri-krati, trúði á skilvirkni "frjálsra" markaðskerfa, og á réttlæti "meritókrasíunnar" svo lengi sem markaðurinn fór saman með velferðarkerfi, aðgangi að menntun og félagsþjónustum. Formlegur tækifærisjöfnuður var "the name of the game."

Í dag er ég fullorðnari, lífsreyndari og menntaðri maður. Ég hef eytt mörgum árum í að leggja stund á rannsóknir í sagnfræði, menntað mig í hugmyndasögu vesturlanda, í stríðsrekstri, hagsögu og þróun pólitískra kerfa í Evrópu. Allt þetta hefur gjörsamlega breytt skilningi mínum á heiminum, og heldur betur umturnað pólitískum viðhorfum mínum frá þeim tíma þegar ég var ungur BA-nemi í heimspeki. Þegar ég les The Economist í dag, sem gerist endrum og eins, þá verð ég eiginlega bara reiður og pirraður. Ég verð nefnilega var við hluti sem fóru algjörlega fram hjá mér þegar ég las blaðið á yngri árum.

The Economist hefur alltaf haft óbifandi trú á hinum frjálsa markaði, og á grundvallarheimspeki breskrar frjáslyndisstefnu. Í dag þykir mér slík trú bera vott um meiriháttar skilningsleysi á því hvernig heimurinn virkar í raun og veru — enda blaðið sennilega skrifað mestmegnis af klárum, ofvernduðum, Oxbridge-menntuðum efristéttar-karlmönnum — en út af fyrir sig er ekkert rangt eða illt við það. Vandinn er ekki sá að ristjórnarstefna The Economist sé langt til hægri, heldur er hún hreint út sagt óheiðarleg á lúmskan og fyrirlitlegan hátt. Ég sé birtingarmynd þess í hér um bil hverri einustu grein, en þó sérstaklega í greinum um lönd og málefni sem ég þekki eitthvað til.

Í hvert einasta skipti sem blaðið skrifar um hugveitur eins og American Enterprise Institute eða Cato Institute, er bara talað um "think tanks." Báðar þessar hugveitur eru mjög langt til hægri og mæla með öfgafullri markaðsvæðingu á nýfrjálshyggjunótum. Svo langt eru þessar stofnanir til hægri að ég álít sumt fólkið sem skrifar í þeirra nafni hreint út sagt geðbilað. En ef einhver hugveita er til miðju eða á vinstrivængnum, þá er iðulega talað um "left-leaning think tank" eða "radical leftist think tank." Tröllatrú Economist á markaðslausnir af allri gerð er sett fram sem hinn almenni consensus. Allir sem fylgja ekki eftir í hóp eru "radical leftists". Allir sem ekki trúa "press releases" frá Hvíta húsinu, allir sem ekki eru klappstýrur fyrir bandaríska utanríkisstefnu, eru samstundis afskrifaðir sem "conspiracy theorists."

Hollande

Evrópsk þjóðríki sem eru sósíalískari en Bretland fá umfjöllun í löngum leiðurum þar sem talað er um hversu bráðnauðsynlegt það sé að koma í gang "market-based reforms" (einkavæðingu ríkisfyrirtækja og almenningsþjónustu), "competitive labour market" (afnám vinnulöggjafar, lágmarkslauna og vinnuverndar) og "opening the country to foreign investment" (leyfa alþjóðlegum stórfyrirtækjum að taka yfir lókal markaði og opinber rými).

Í mörg ár lifði ég í þeirri fölsku trú að lönd á borð við Frakkland og Þýskaland væru í tómu rugli, að ekkert virkaði þar út af því að þeir hefðu 35 tíma vinnuviku, legðust í helgan stein 64 ára, og erfitt væri að segja fólki upp. Í dag veit ég að þessi ríki virka faktískt frekar vel — mun betur heldur en fátæka, skattpínda, niðurnídda, incompetent, einkavædda, eyðilagða Bretland, þar sem óbreyttur almenningur hefur það verulega skítt í samanburði við önnur vestur-evrópuríki og félagslegur hreyfanleiki er sá minnsti í OECD. Nú þegar sósíalistinn Hollande er kominn til valda í Frakklandi skrifar blaðið langa leiðara hvetjandi fólk og fyrirtæki til þess að flýja land út af því að hann ætlar að gera eitthvað sem er óhugsandi og alltaf slæmt, eitthvað sem mun aldrei vera gert í Bretlandi: hann ætlar að skattleggja ríka fólkið.

Nei, heimsmynd The Economist er mestmegnis bull. Best að sleppa því að lesa þennan snepil og ruglið sem í honum stendur.


4 comments have been posted
Add Comment | RSS Feed

Freyr | 2.7.2012 kl. 12:40
Freyr

Án þess að leggja mat á trúverðuleika eða sannleiksgildi ´The Economist´ og það hvort Hollande sé bjáni eða ekki.

Hvað sem öðru líður þá er ´The Economist´ mjög álitsmótandi blað og gefur góða abstraction af hugarheimi mikilvægs spectrums eða þjóðfélagshóp.

Rétt eins og ´New Statesman´ og ´The Guardian´ gefa innsýn inn í annað mikilvægt spectrum.

Ekki bara að lesa ´The Economist´með það í huga? :)

Sveinbjörn | 2.7.2012 kl. 12:53
Sveinbjörn

Jújú, svosem. En það eru mörk á því hvað heiðarlegur maður með samvisku getur þolað.

Hefurðu einhvern tímann prufað að lesa í gegnum eintak af Forbes?

Það er klárlega "mjög álitsmótandi blað og gefur góða abstraction af hugarheimi mikilvægs spectrums eða þjóðfélagshóp", en efni blaðsins er hreint út sagt viðbjóðslegt.

Gunnar Hólmsteinn | 5.7.2012 kl. 21:28
Unknown User

Hvað mælir þú þá með að lesa í staðinn? Er eitthvert blað, rit eða blog sem getur talist algerlega hlutlaus, einhver sem fer djúpt ofan í mikilvæg málefni heimsins, einhver sem útskýrir á skýran og greinagóðan hátt frá öllum hliðum málsins?

Sveinbjörn | 5.7.2012 kl. 21:44
Sveinbjörn

Þegar stórt er spurt er lítið um svör. Það eru ekki margir góðir fjölmiðlar í heiminum í dag.

Auðvitað eru allir fjölmiðlar með sína vankanta og sína sértæku hlutdrægni, en þeir eru hins vegar misslæmir. Margir miðlar, eins og The Economist, setja hugmyndafræðina á undan fagmennsku og sanngirni. Tryggast er að lesa sem breiðasta úrvalið af fréttum frá hinum ýmsu miðlum.

Á ensku treysti ég býsna mikið á fréttaveitu BBC, sem er fín ef maður er meðvitaður um takmarkanir þess, og svo Guardian, sem reyndar fer reglulega í taugarnar á mér út af góðborgaralega bourgeois kratismanum í þeim, og svo öllum staðreyndavillunum...

NZZ og Le Monde eru góð evrópsk dagblöð, þau eru bæði með eitthvað efni á ensku ef maður vill ekki lesa þýsku eða frönsku, og svo er Der Spiegel mjög gott blað.

Algjörlega ótreystandi: CNN, Fox, New York Times, Time, Newsweek, og meira og minna allir bandarískir fjölmiðlar og dagblöð (og að sjálfsögðu allir Murdoch miðlarnir út um allan heim). Hápunktur fjölmiðlaúrkynjunar er Forbes og Wall Street Journal, blöð sem eru svo fjarlæg raunveruleikanum að þau eru eiginlega bara hlægileg.

Ég er annars svagur fyrir Democracy Now og nokkrum bandarískum NPR prógrömmum, þar sem er alvöru fréttaflutningur og dagskrárgerð en ekki bara froða.

Á Íslandi treysti ég RÚV best, en þá er ekki mikið sagt. Íslenska fjölmiðlaumhverfið er hreint út sagt skelfilegt, og mjög fáir að vinna góða, vandaða vinnu.