29.6.2012 kl. 10:51
boomerang

Ég las nýlega bókina Boomerang: Travels in the New Third World eftir bandaríska fjármálablaðamanninn Michael Lewis. Lewis ferðast til landa sem illa hafa farið í alþjóðlegu fjármálakreppunni og lýsir og túlkar atburðina og ástandið þar eftir eigin höfði. Hann skrifar m.a. um Írland, Grikkland, Þýskaland og svo auðvitað Ísland, en tímaritið Vanity Fair birti um árið grein hans um hvað fór úrskeiðis á Íslandi undir heitinu "Wall Street on the Tundra."

Það er margt áhugavert að finna í þessari bók; t.a.m. öðlaðist ég mun betri skilning á írsku og grísku fjármálakreppunum. Hins vegar eru skrif Lewis í heildina séð mislukkuð og afvegaleiðandi.

Bandaríkjamaðurinn Lewis sýnir hefðbundið skilningsleysi á menningu evrópuríkja, og rekur allt sem miður fór í fjármálakerfum þessara landa til meintra menningarlegra og persónulegra vankanta fólksins sem þar býr. Vandinn virðist að hans mati vera sá að fólkið í þessum ríkjum var ekki nógu mikið eins og ameríkanar: Fjármálakreppan á Íslandi var afsprengi kunningjasamfélagsins og alfa-ofmetnaðs íslenskra karlmanna. Gríska krísan var afleiðing af leti, vanhæfni, óheiðarleika og klækni Grikkja. Írar voru svo æstir að rísa upp úr aldalangri fátækt að afslöppuð menning þeirra leyfði fasteignabólunni að þróast út í tóma vitleysu án þess að neinn segði neitt. Kaflinn um Þýskaland er sérlega slæmur, en Lewis gerir óspart grín að Þjóðverjum fyrir að hafa verið svo barnalegir að halda að bankamenn í Bandaríkjunum og Bretlandi væru faktískt, líkt og þeir, heiðarlegt fólk sem stæði við skuldbindingar sínar og færi með rétt mál. Já, enn fáránlegt! Hann er svo með langan og einstaklega ósmekklegan útúrdúr þar sem hann fjallar um meinta þráhyggju Þjóðverja þegar það kemur að saur (!).

Ég ætla að leyfa mér að stórefast um þessar skýringar Lewis. Fólk er mjög svipað alls staðar í heiminum: gráðugt, skammsýnt, fáfrótt og frekar heimskt. Það breytir þá litlu hvort það er á Íslandi, Grikklandi, Írlandi ... nú eða í Bandaríkjunum.

Ég legg hér fram aðra skýringu þvert á við Lewis. Fjármálaklúður þessara landa voru kerfislæg og orsökin innflutt: heilu kynslóðirnar af ungu, kláru, metnaðarfullu evrópsku fólki var þjálfað í viðskiptaskólum Bretlands og Bandaríkjanna, þar sem það meðtók umhugsunarlaust sjálfselska einstaklingshyggju engilsaxneskar frjálshyggju. Síðan kom það heim og klúðraði málunum stórkostlega, í smáum hagkerfum sem illa þoldu klúður — ekki var hægt að beila alla út eins og vestanhafs.

Lewis ætti e.t.v. að líta til eigin þjóðar til þess að finna skýringu á því sem hefur farið úrskeiðis í fjármálaheiminum undanfarna áratugi, frekar en að gera lítið úr fólki sem var svo ginnkeypt að halda að nýfrjálshyggjukapítalismi væri kerfi sem virkaði. Þeim var nú eftir allt saman kennt það í MBA-námi við Harvard Business School.


1 comments have been posted
Add Comment | RSS Feed

Eiki | 29.6.2012 kl. 21:45
Eiki

"Caelum non animum mutant qui trans mare currunt", sagði Hóras. Lauslega snúið: "Þeir sem ferðast yfir hafið, skipta um himin en ekki skoðun." Mórallinn: lesa meiri Hóras, minni Lewis.