Um daginn skrifaði ég stuttlega um að ég væri að lesa bók Steven Pinkers, The Better Angels of Our Nature: Why Violence Has Declined, en hún fjallar um ofbeldi og meinta minnkun þess í sögulegu samhengi. Ég var nokkuð gripinn af rökum hans fyrst um sinn og skrifaði langt tölvuskeyti sem ég birti hér.

Um daginn kláraði ég loksins þennan 800 blaðsíðna doðrant og hafði ætlað mér að skrifa langa umfjöllun með greiningu minni á röksemdafærslum Pinkers, en síðan sá ég að margir klárir menn höfðu nú þegar gagnrýnt hana á svipuðum forsendum og ég hafði ætlað mér að gera.

Ölvað samtal við Brand vin minn um þetta í gærkvöldi fékk mig til þess að hugleiða nánar mælikvarða Pinkers á ofbeldi. Pinker miðar allt við hlutfallslegt ofbeldi, þ.e.a.s. fjölda morða og ofbeldisverka miðað við höfðatölu, og sýnir að þeim hefur fækkað drastískt á undanförnum árhundruðum. Strangt til tekið eru rök hans þau að ef maður myndi fæðast af handahófi í dag inn í þennan heim okkar, þá væru líkurnar á því að deyja ofbeldisdauða að öllu öðru jöfnu drastískt minni heldur en nokkru sinni áður.

Gott og vel. Þetta er rétt hjá honum. En hversu gagnlegur mælikvarði er þetta? Eru þetta í raun siðferðislegar framfarir? Ég velti eftirfarandi fyrir mér:

Getur gríðarleg fólksfjölgun virkilega vegið upp á móti gríðarlegri aukningu ofbeldisverka?

Er í alvörunni hægt að segja að aldir þar sem við höfum séð þjóðarmorð á stórfelldum skala, tvö mannskæðustu stríð sögunnar, varanlega hungursneyð fyrir stóran hluta jarðarbúa, og yfirvofandi kjarnorkutortímingu -- séu betri tímar út af því að mannkyninu hefur fjölgað svona mikið?

Er heimur þar sem eru 10 manneskjur, og ein þeirra er myrt, í einhverjum siðferðislegum skilningi til jafns á við heim þar sem milljarður manns er myrtur, skiljandi 9 milljarða eftir lifandi?

Hvers konar nytjakalkúlus er á bak við þetta? Getur mannslíf án ofbeldis yfirhöfuð vegið upp á móti mannslífi með ofbeldi?

Ég bara spyr. Fyrir mitt leyti, þá er ég hreinlega of kantískur til þess kyngja þessu.


4 comments have been posted
Add Comment | RSS Feed

Eiki | 11.5.2012 kl. 14:33
Eiki

Mig grunar að það sé hægt að finna sniðugt mótdæmi með því að skipta ofbeldisverkum út fyrir eitthvað annað. Veit bara ekki hvað. Fækkar ekki rosalega mörgu þegar maður stækkar hópinn svona svakalega? Fólksfjölgunin er svo hröð að stór hluti mannkyns er ekki farinn að labba óstuddur, og á kannski allt sitt ofbeldi inni ennþá.

Svo minnir þetta mig af einhverri ástæðu á Jam-sketchinn um manninn sem drap sig með því að hoppa fjörutíu sinnum niður eina hæð frekar en einu sinni niður fjörutíu. Hvort ætli valdi meiri meiðslum?

Sigurgeir Þór | 11.5.2012 kl. 17:14
Sigurgeir Þór

Maður verður að nota einhverja aðferð til að gera svona samanburð eins og Pinker gerir. Mér dettur engin betri í hug.

Einar | 13.5.2012 kl. 19:24
Einar

"Fyrir mitt leyti, þá er ég hreinlega of [kantísk] til þess kyngja þessu."

That's what she said!

Sveinbjörn | 13.5.2012 kl. 19:30
Sveinbjörn

Lol.