24.3.2012 kl. 14:59

Í framhaldi af nýlegum færslum mínum um hrikalega afvegaleidda Guardian grein og um framtíð blaðamennsku:

Ég var í námi úti í Edinborg haustið 2008 þegar allt fór til helvítis á Íslandi. Mér þótti hrun fjármálakapítalismans heima fyrir afskaplega áhugavert og bæði ég og meðleigjandi minn hún Nanna Teitsdóttir fylgdumst vandlega með öllum íslenskum fréttum. Ég varð í raun eins konar frétta-junkie, sitjandi yfir netmiðlunum heilu dagana.

Samhliða íslensku greinunum las ég bresku blöðin, en þau fluttu mikið af fréttum af Íslandi til skamms tíma þarna um haustið. Ekki leið á löngu þar til ég fattaði svolítið: Virðulegu bresku dagblöðin — Guardian, Independent, Times et. al. — vissu ekkert hvað var að gerast á Íslandi og fluttu fréttir uppfullar af ranghugmyndum um ástand mála.

Það var mikið um staðreyndavillur og algengt að ruglast á nöfnum fólks, stöðu þeirra og hlutverki í atburðunum á Íslandi. Heimildir bresku blaðamannana voru misgóðar og mismargar, en yfirleitt mjög einsleitar og afvegaleiðandi. Atburðarásinni var sífellt ruglað, og umfjöllunin var iðulega skotin alls konar rómantískri þvælu um land og þjóð. Ein og ein grein var svo drottningarviðtal við eitthvert "talking head" eins og Eirík Bergmann. Þetta hlýtur að hafa gefið breskum almenningi afskaplega bjagaðan skilning á ástandinu á Íslandi.

Og þá hugsaði ég með mér, "Ef fréttaflutningur hjá þessum virtu blöðum um almennt enskumælandi nágrannaríkið Ísland er svona skelfilega óvandaður, hvernig get ég mögulega treyst fréttum þeirra um fjarlæg, framandi lönd?"


2 comments have been posted
Add Comment | RSS Feed

Gíslels bjáni Barðason Nilla | 25.3.2012 kl. 00:41
Unknown User

Það verður held ég að líta á fréttamiðla eins og eina manneskju. Þú þekkir manneskjuna og veist að manneskjan lýgur eða flytur lygi í svona 30% tilvika og þess vegna geturðu ekki trúað neinu sem hún segir nema að kanna allt sjálfur eftirá og eyða rosalegum tíma í það. Sem þú auðvitað getur ekki og neyðist þá til að hlusta á opinberu útskýringuna/söguna og hugsa með sjálfum þér að líklega kannski örugglega sé þetta bull og mæta svo til vinnu þinnar.(3ja og hálft glas kl. 00.39)

Sveinbjörn | 25.3.2012 kl. 05:04
Sveinbjörn

Amen. Feitt Like frá mér fyrir Drunken Stream of Consciousness.