Þrátt fyrir svakalegan æsing í fjölmiðlum munu Bandaríkjamenn ekki ráðast inn í Íran í náinni framtíð. Það væri eins konar efnahagslegt sjálfsmorð sem myndi grafa undan mætti þeirra og áhrifum til langs tíma. Í þetta sinn held ég — vona ég — að ráðandi elíturnar vestanhafs viti betur.

Íran er fjórum sinnum stærra en Írak að yfirborði, og næstum þrefalt fjölmennara, með 80 milljón íbúa. Íranir hata ameríkana, og ólíkt Írökum búa þeir ekki við "strong man" einræði, heldur við klerkastjórn með einhverri takmarkaðri valddreifingu og lýðræðislegum elementum. Klerkastjórnin er vissulega óvinsæl, en mig grunar að strangtrúaður almenningur myndi snarlega fylkast í kringum hana ef það kæmi til bandarískrar innrásar.

Kostnaðurinn yrði svimandi fyrir bandaríkjamenn, bæði í mannslífum og peningum. Aukin skuldsetning bandaríska ríkisins til hermála í miðri heimskreppu myndi keyra dollarann hættulega mikið niður. Eftir stórfellda klúðrið í Írak er það líka vafamál hvort stjórnmálaelítan geti á annað borð sannfært jafnvel óvenjufáfróðan og ginnkeyptan bandarískan almenning um að fallast á svona ævintýri.

Íran er fjórði stærsti olíuframleiðandi heims, á eftir Rússlandi, Sádí-Arabíu og Nígeríu. Ef það væri skyndilega klippt á íranska olíu myndi heimsmarkaðsverð þjóta upp úr öllu valdi. Svo yrðu Kínverjar órólegir, en þeir eru stærsti viðskiptavinur þeirra.

Íranir hafa auk þess hótað að loka Hormuz-sund fyrir skipaumferð. Það er afskaplega ólíklegt að þeir gætu það hernaðarlega, í ljósi þessi að fimmti floti bandaríska sjóhersins er með heræfingar í Persaflóa og Ómanflóa árið um kring. En þeim þarf ekki einu sinni að takast að trufla umferð um Hormuz-sund til þess að hafa afgerandi áhrif á hagkerfi heimsins. Á hverjum degi fara þar í gegn u.þ.b. 17 milljón tunnur af olíu, eða 35% af öllum olíuflutningum heimsins. Möguleikinn á truflunum í skipaflutningum einn og sér myndi senda heimsmarkaðsverðið á olíu upp um tugi prósenta vegna aukins tryggingakostnaðar og óvissu.

Nei, Bandaríkjamenn fara ekki inn í Íran. Í versta falli munu þeir nota loftárásir og sprengjur, samhliða hertum viðskiptaþvingunum. En alvöru innrás með landher? Það er einfaldlega ekki að fara að gerast. Það væri hrein og tær geðveiki.


straitofhormuz