22.2.2012 kl. 20:39

Maður les mikið þessa dagana um Occupy-hreyfinguna í Bandaríkjunum, og skiptinguna margrómuðu milli ríkustu 1% og hinna 99%.

Alltaf þegar ég sé vísað í þessa skiptingu verður mér hugsað til annarar skiptingar sem mér finnst meira ákallandi siðferðisvandamál heimskapítalismans.

Við 99 prósentin á vesturlöndum, við höfum það þokkalega gott. Okkur var mútað með eftirstríðsárasáttmálanum svokallaða, svo við myndum sætta okkur við misskiptingu og óréttlæti kapítalismans. Í dag fáum við flest einhvers konar þjónustu frá ríkinu, hvort sem það er menntun, sjúkratrygging eða bætur þegar það harðnar í ári. Með kommúnistaógnina á brott er það auðvitað bara tímaspursmál þar til þetta verður allt tekið af okkur. En við höfum það allavega andskoti gott í dag.

En hin skiptingin sem ég hafði í huga, það er 10%-90% skiptingin á heimsvísu. Af 7 milljörðum jarðarbúa eru rétt rúmlega 700 milljónir búsettir í "fyrsta heiminum", þ.e.a.s. í auðugu OECD ríkjunum. Restin býr við töluvert verri kost, og reynir ólm að komast til ríka heimsins þrátt fyrir tálma og landamæraeftirlit.

Hátt í helmingur mannkyns býr í fátækum einræðisríkjum. Þessi ríki eru orðin að uppsprettu fátæklinga sem framleiða neysluvörur ofan í okkur á vesturlöndum. Ódýrt vinnuafl réttindalausra þræla er heimskapítalismanum ómissandi. Allar ódýru neysluvörurnar okkar eru meira og minna afurð stórfelldrar kúgunar og misnotkunar á hundruðum milljóna manns.

Óréttlæti auðskiptingar innan stakra vesturlanda fölnar í samanburði við það gríðarlega óréttlæti sem einkennt hefur og einkennir enn samskipti okkar við afganginn af heiminum.


7 comments have been posted
Add Comment | RSS Feed

Eiki | 22.2.2012 kl. 21:26
Eiki

Þess vegna er svona mikilvægt að Occupy-ið virki í Bandaríkjunum. Smábreyting þar getur örugglega haft heilmikil áhrif. Smá röfl í Apple-notendum vestanhafs gæti nýlega hafa dregið úr sjálfsmorðum FoxConn-starfsmanna. Ekki mikil breyting kannski, nema kannski í ljósi þess að kostnaðurinn fyrir okkur hérna megin var núll. Babysteps.
Ef það er hægt að hnika hugarfari hins almenna bandaríska borgara, þó ekki sé nema millimetra, þá held ég að það geti velt frekar massívu hlassi hjá mörgum í 90 prósentunum.

Þorvaldur Hrafn | 22.2.2012 kl. 21:47
Þorvaldur Hrafn

Ef Indverjar og Kínverjar ættu meiri pening, væri skemmtilegra í mmporgunum mínum, og líf mitt sem afleiðing betra.

Steinn | 22.2.2012 kl. 22:16
Steinn

mmporgunum?

Þorvaldur Hrafn | 22.2.2012 kl. 22:42
Þorvaldur Hrafn

Massive multiplayer online roleplaying games (unum).

Sveinbjörn | 23.2.2012 kl. 01:14
Sveinbjörn

Vá hvað þú sannaðir þig sem faux-nerd þarna!

Þorvaldur Hrafn | 22.2.2012 kl. 22:42
Þorvaldur Hrafn

Massive multiplayer online roleplaying games (unum).

Nanna | 24.2.2012 kl. 20:13
Nanna

Ég hugsa oft um þetta þegar ég verð vitni að H&M æði Íslendinga. Allir æstir í að kaupa heilt fjall af ódýrum fjöldaframleiddum fötum (sem þeir nota bene þurfa ekki) án minnstu hugsunar um nákvæmlega af hverju þeim er gert kleift að kaupa þetta svona "ódýrt".