22.2.2012 kl. 01:05

Ég les nokkuð reglulega bloggið Vegið úr launsátri, en nafnlaus höfundur þess er bráðgreindur og upp til hópa skynsamur feministi sem færir oftar en ekki skýr og málefnaleg rök fyrir máli sínu, þótt ég sé henni oft ósammála.

Um daginn las ég um afstöðu hennar til málfrelsis, en hún er býsna ólík minni eigin. Það er ýmislegt satt og rétt í þessum pistli hennar. Hins vegar lætur höfundur eins og ljótari birtingarmyndir tjáningarfrelsisins séu auðgreinanlegar frá öllu hinu, og að þetta sé eitthvað sem við getum öll verið sammála um.

Ég gæti svosem vísað í Mill og sparað mér orðin, en það nennir enginn að lesa pedestrian stíl Mills, og svo hefur Frelsið fengið býsna slæma heimspekilega útreið á 20. öld, þannig að hér kemur gamla litanían í eigin orðum.

Í stuttu máli þá hef ég lengi verið málfrelsis-öfgamaður (e. free speech radical), í þeim skilningi að ég tel ekki að tjáningarréttur neins skuli vera skertur nema fyrir liggi djúpar og veigamiklar ástæður sem snerta líf og dauða, eða eitthvað sambærilega alvarlegt. Ég er alfarið á móti banni við hatursáróðri eða öðrum "óæskilegum" tegundum tjáningar.

Það er fyrst og fremst tvennt sem ég set út á í pistli hennar:

Í fyrsta lagi virðist hún gefa sér að það sé til einhver skýr, vandlega skilgreind, almenn samþykkt um hvað sé siðferðislega boðlegt, að slíka samþykkt sé rétt að verja með afskiptum af tjáfrelsi fólks, og að afskipti af slíku tagi geti verið heiðarleg, réttlát, skilvirk og óhlutdræg. Allt þrennt er að mínu mati klárlega rangt.

Hún viðurkennir að það sé mikilvægt að leyfa fólki að tjá sig um það "sem flest fólk getur verið sammála að þurfi opna umræðu um". En hver á svosem að ákveða hvað þarf opna umræðu um? Rasistarnir vilja opna umræðu um kynþætti, feministarnir vilja opna umræðu um kvenréttindi, allir vilja opna umræðu um sinn eigin málstað, hversu ógeðfelldur sem hann kann nú annars að vera öðrum. Hvar skal línan dregin? Hverjir ákveða hvað "flestir" séu sammála um að kalli á "opna umræðu"? Ríkisstofnun? Ráðuneyti? Alþingi? Samtök atvinnulífsins? Opinber nefnd óbreyttra borgara? Ég treysti engum þeirra til þess að matreiða hluti ofan í mig.

Í öðru lagi finnst mér allur pistillinn reistur á kvíavillu. Það er ekki hægt að aðgreina hið pólitíska frá hinu siðferðislega, hinu menningarlega, hinu opinbera, hinu almenna, hinu daglega. Allt lífið er pólitík og allt sem við veljum og gerum og segjum hefur pólitískar og siðferðislegar afleiðingar. Þess vegna þurfum við ekki bara afmarkað frelsi til þess að gagnrýna valdhafa, eða atvinnulífið, eða opinberar stofnanir. Við þurfum almennt frelsi til þess að gagnrýna allt og alla, alltaf.

Munum að tjáningarfrelsið er rétturinn til að tjá sig, en ekki réttur til þess að tekið sé mark á manni. Ef þér líkar illa við barnaauglýsingar í sjónvarpinu, ekki láta barnið þitt horfa á þær. Ef þú vilt ekki sjá klám, ekki horfa á klám. Ef þú vilt ekki lesa hatursaróður á netinu, ekki lesa hann. Ég ritskoða minn eigin heim mjög vandlega: hlusta eiginlega aldrei á útvarp, horfi aldrei á sjónvarp nema heima hjá Arnaldi og er nýlega hættur að lesa íslenska netfréttamiðla. Ef maður vill ekki sjá sorann þá getur maður alveg komist hjá því án vandkvæða.

Ritskoðunarvaldið er stórhættulegt og vandmeðfarið. Ég vil ekki að neinn hafi það. Þannig get ég gert upp við mig sjálfur hvað ég sé og sé ekki.

Ég er í fullum herklæðum og reiðubúinn út á vígvöll hugmyndanna. Ég er þar að auki þeirrar skoðunnar að hvorki ég né aðrir í íslensku samfélagi þurfi eða hafi gott af því að vera verndaðir frá tjáskiptum annara.


8 comments have been posted
Add Comment | RSS Feed

Máni | 22.2.2012 kl. 13:30
Unknown User

Ég tek fram að ég held að ég sé að mestu leiti á sömu skoðun og þú varðandi tjáningarfrelsið. Ég er hinsvegar sammála feministanum (og Jónasi) varðandi takmarkanir á auglýsingum, þó að erfitt sé að draga línuna, þá treysti ég lýðræðisferlinu nokkurnveginn fyrir því. Ég held t.d. að við séum á réttri leið með að banna auglýsingar á lyfjum, vímuefnum og auglýsingar á barnatímum.

Mér finnst eftirfarandi skemmtilegt:

"Ég er í fullum herklæðum og reiðubúinn út á vígvöll hugmyndanna."

Þetta viðhorf er að sjálfsögðu til fyrirmyndar hjá einstaklingum en mér finnst vafasamt að setja þá samfélagslegu kröfu á alla. Til samanburðar gengur frjálshyggjan líka ágætlega, svo framarlega sem allir séu bisnismenn, hugsi rökrétt og hafi getu og nennu til að afla sér góðra og óháðra upplýsinga.

Steinn | 22.2.2012 kl. 13:52
Steinn

Ég tel að tjáningarfrelsið sé mjög erfitt viðfangs og að umræðan verði að vera mjög dýnamísk. Ég tel að hatursáróður og rógburður eig að vera áfram ólögleg, þó ekki jafn klikkað og á Bretlandi. Þó verður að endurskoða og meta lög og viðhorf mjög reglulega. En annars eiga allir að fá að segja sína skoðun, sama hvort að sú skoðun sé ógeðfelld eða ekki.

Sveinbjörn | 22.2.2012 kl. 16:47
Sveinbjörn

"vafasamt að setja þá samfélagslegu kröfu á alla."

Ég myndi svosem ekkert að setja þá kröfu á alla. Enginn er tilneyddur til þess að taka þátt í opinberum tjáskiptum, eða kynna sér efni þeirra yfirhöfuð. En fólk verður að vera reiðubúið að stíga fram og verja gildi sín, annars verða þau, eins og Mill orðaði það, "dauður sannleikur."

Eiki | 22.2.2012 kl. 14:27
Eiki

Bara smá komment um börn og auglýsingar. Hér er "won't somebody please think of the children"-hystería skiljanleg.
Það er tiltölulega lítið mál að koma í veg fyrir að börn sjái eða heyri hluti á heimilinu, en maður gerir þeim engan greiða með því að banna að þau geri það sem allir hinir krakkarnir gera, hversu glatað sem það er.
Svarið er reyndar sennilega að ala barnið upp til að geta meikað heiminn sjálft, en ég myndi þurfa að hafa mig allan við til að koma í veg fyrir Latabæjarbann eða Hello Kitty brennu á Austurvelli.

Eiki | 22.2.2012 kl. 14:28
Eiki

See you in hell... o Kitty.

(with a dry cool wit like that, I could be an action hero)

Sveinbjörn | 22.2.2012 kl. 15:59
Sveinbjörn

Þetta væri gott fyrir Shakespearean ofurhetju sem misnotar enskan vocativus.

"See thee in hell, O Kitty!"

Nú, eða ofurhetju með írskan nemesis:

"See you in hell, O'Kitty!"

Eiki | 22.2.2012 kl. 21:40
Eiki

Mewled yon Catte: "From Helle's heart I paw at Thee."

(Hello Kitty hét reyndar Wassail Catte! lengi framan af.)

Sveinbjörn | 22.2.2012 kl. 17:46
Sveinbjörn

Reyndar þá er það ekki eins og nokkur manneskja sé bundin við útvarps- og sjónvarpsmiðla til þess að fá aðgang að barnaefni.

Það er hægt að sækja þetta allt á netinu núna, án auglýsinga.

En annars er þetta alveg góður punktur hjá þér.