18.2.2012 kl. 20:13

Fyrir ekki svo löng síðan sagðist ég vera á móti "þessum heimsku, gráðugu, alpha-territorial karlmönnunum sem eru helsti eyðileggingarkrafturinn í samstarfi og vináttu fólks alls staðar í heiminum."

Ég held að þetta sé alveg hárrétt greining. Hvert sem maður lítur, hvar sem maður finnur spillinguna og óréttlætið og græðgina og valdboðið, þar er alltaf um einsleitan hóp að ræða: miðaldra karlmenn, yfirleitt hvítir, í jakkafötum, búnir að koma sér þægilega fyrir í efri hringjum valdakeðjunnar, þar sem þeir ráða yfir og skipa fyrir öðrum manneskjum sem ekki eru nægilega grimmar, nægilega kappfúsar, nægilega samstilltar eða nægilega menntaðar til þess að kasta þessu bákni af sér.

company of men

Þessar pælingar minntu mig á kvikmyndina In The Company of Men (1997), leikstýrð af Neil LaBute. Það nýjasta á ferilskrá LaButes hefur verið meira og minna óáhorfanlegt (hann ber m.a. ábyrgð á Wickerman endurgerðinni frá 2006) en þessi frumraun hans er stórmerkileg kvikmynd.

Ég og Freyr Björnsson leigðum hana skömmu eftir að hún kom út, þegar við vorum unglingar, og hvorugur okkar var hrifinn. Síðan horfði ég aftur á hana fyrir tveimur árum, og skipti algjörlega um skoðun, hafandi vitsmuni og þroska til þess að skilja viðfangsefni myndarinnar á öðru plani.

Myndin fjallar í stuttu máli um tvo "corporate middle-management" karlmenn sem í krafti kvenfyrirlitningar og þrúgandi pressu vinnu-umhverfis gera með sér eins konar veðmál um að niðurlægja heyrnarlausa stúlku sem starfar hjá fyrirtækinu þeirra. Ég ætla ekki að fara nánar út í söguþráðinn og framvindu mála, en myndin er mjög vel skrifuð, mjög vel leikin og einstaklega lúmsk stúdía á karlaveldinu.

Ég og vinur minn Ala Anvari erum sammála um að þarna sé á ferðinni sannkallað meistarastykki. Sjáið hana.


2 comments have been posted
Add Comment | RSS Feed

Steinn | 18.2.2012 kl. 22:52
Steinn

Þetta var mjög góð og brutal mynd, fílaði hana vel þegar ég sá hana fyrir löngu síðan. Jafnvel að maður horfi á hana aftur í nálægri framtíð.

Sveinbjörn | 19.2.2012 kl. 21:47
Sveinbjörn

Mér finnst frekar fyndið að lesa einhver IMDB review þar sem fólk er að kalla þesa mynd "misogynistic garbage".

Ef það er einhver kvikmynd sem sýnir karlmannin í slæmu ljósi þá er það þessi mynd.