17.2.2012 kl. 19:16

Það var að renna upp fyrir mér að ég er búinn að vera með vefsíðu í 15 ár.

Vefsíðan mín fór fyrst í loftið um þetta leyti árið 1997, skömmu áður en ég byrjaði að reykja tóbak og drekka áfengi (ég held að nördinn í mér hafi aldrei almennilega jafnað sig á því).

Þessi fyrsta útgáfa vefsíðunnar var smíðuð með Claris HomePage, og troðfull af hreyfi-GIF myndum, m.a. hauskúpunni til hægri, sem er það eina stafræna sem ég á eftir af síðunni. Ég man að ég var sérlega hrifinn af þessari hauskúpu á sínum tíma, verandi afskaplega emó og kjánalegur 15 ára unglingur.

Í þá daga var IRC aðalmálið, þar hékk ég á #iceland og #mafian. Það voru engin vefkerfi til, engin blogg, ekkert vídjó, ekkert Google, ekkert Facebook (blessunarlega!) og engar fréttasíður. Einu íslensku síðurnar voru ismennt.is og hi.is [WayBackMachine hlekkir].

Í raun var voða lítið á vefnum yfirhöfuð annað en Star Trek og tölvunördasíður, og svo klám í afskaplega lágum myndgæðum.

Já, mikið hefur breyst á 15 árum. Margt til hins betra, margt til hins verra, eins og gengur og gerist. En djöfull líður tíminn hratt...


5 comments have been posted
Add Comment | RSS Feed

Grétar Amazeen | 17.2.2012 kl. 20:09
Grétar Amazeen

Þetta er massakúl hauskúpa!

Sveinbjörn | 18.2.2012 kl. 03:42
Sveinbjörn

Ég las aftur þessa athugasemd þína drukkinn kl 03:41, 18. febrúar árið 2012 og hló upphátt. Takk fyrir mig, G. Það eru litlu gleðistundirnar í lífinu sem skipta máli.

Einar | 17.2.2012 kl. 20:18
Einar

Voru engin midi lög? Slappt!

Ég bjó til mína fyrstu heimasíðu árið 1997 í Front Page (facepalm). Hún var að sjálfsögðu stútfull af gif, þar á meðal nokkrum obligatory "Under Construction" borðum. Engar tvær undirsíður voru með sama bakgrunn (facepalm) og engar tvær með sama midi lagið (facepalm). Úff..

Sveinbjörn | 18.2.2012 kl. 04:40
Sveinbjörn

Það hefðu vafalaust verið MIDI lög ef að Claris HomePage hefði boðið upp á slíkan fídus. Blessunarlega var það ekki svo.

Dagur | 17.2.2012 kl. 21:30
Dagur

Vá hvað gamla HÍ síðan er miklu þægilegri en sú nýja. Það tók mig kannski 3-4 sekúndur að finna upplýsingarnar sem ég leitaði að.