1.2.2012 kl. 00:22

Ég vitna hér í Arnald vin minn. Þessi athugasemd kom í framhaldi af þræði á Facebook um þarsíðustu færslu mína. Mér þótti þetta stórkostlega skynsamlega orðað hjá honum, og fyrst Facebook er lokað vistkerfi þá bara varð ég að nota þennan vettvang minn til þess að koma þessu áfram:

Ég held að vandamál frjálshyggjunnar séu djúpstæðari en svo.

Frjálshyggjan er býsna fljót að komast í þrot á svo mörgum sviðum að eftir stendur innantóm skel sem þjónar einna best því hlutverki að réttlæta völd, auð, mátt og meginn þeirra sem hafa aflað þeirra með stórkostlegu sögulegu óréttlæti.

Frjálshyggjan er tvívíð pappahugmynd. Hún gleymir, viljandi sögunni. Hún er bara til sem útgáfa af óraunverulegri nútíð og sem óskhyggja um framtíð sem flestir sjá sem hræðilega dystópíu.

Frjálshyggjan er innbyrðis mótsagnakennd.

Þegar frjálshyggjumenn komast svo í þrot, þá væna þeir þá sem þeim eru ósammála um óheilindi, eða öfund.

En ég segi þér Ásgeir, að ég hef heldur per se, ekkert á móti feitum, ríkum, gráðugum körlum á jeppum. Hugsjónir mínar í lífinu standa til annars og meira en jeppa og peninga. Það sem ég geri athugasemd við, er misnotkunin, þrælahaldið, og kúgunin, bæði í sögulegu samhengi og nútíð, sem hefur skilað þessum mönnum þangað sem þeir eru komnir. Ég umber þá með því að líta undan, en ekki biðja mig að gangast inn á heimssýn þeirra.

Stór vandi frjálshyggjunnar stafar nefnilega af því að hún gengur út frá því að einhverskonar meritokrasía sé absolut fasti og allir komist áfram á eigin verðleikum. Raunveruleikinn er töluvert annar.