Lýðræði hefur marga kosti umfram aðra stjórnarhætti: valdaskipti fara almennt fram á friðsamlegan hátt, og stjórnkerfið sjálft skapar hvata sem fá valdhafa til þess að bæta hag almennings, að minnsta kosti í hjáverkum, í stað þess að verðlauna ávallt og einungis lítilli valdaklíku, eins og þekkist í nær öllum einræðisríkjum.

Meira og minna öll ríki eru að einhverju leyti kleptókratísk -- þ.e.a.s. rekin af eins konar þjófum, sem útdeila auðæfunum sem valdinu fylgir til klíkunnar sem kom þeim í valdastól. Lýðræðisríki eru hins vegar almennt ekki jafn kleptókratísk og einræðisríki. Þetta er m.a. vegna þess að klíkurnar sem koma mönnum til valda í lýðveldi eru yfirleitt svo fjölmennar að kerfisbundið arðrán til þess verðlauna fylgismönnum verður töluvert erfiðara og óhagkvæmara.

Flest ríkustu og valdamestu lönd heimsins eru vestræn lýðræðisríki. Hins vegar búa flestir jarðarbúar ekki við lýðræði. Ríku lýðræðisríkin á vesturlöndum tala mikið um að úbreiða stjórnarfari sínu til annara þjóðríkja, en árangurinn síðastliðna áratugi virðist stopull, jafnvel grunsamlega stopull.

Ég held að ef vesturveldin hefðu raunverulega hagsmuni af að breiða lýðræði út um heiminn allan þá væri það löngu orðið fait accompli. Sögulega séð hafa þau svo sannarlega haft efnahags- og hernaðarvald á liðinni öld til þess að ota öðrum þjóðríkjum heimsins í þá áttina. En það er með öllu óljóst hvort vesturveldin græði neitt beint -- eða til skamms tíma -- á aukinni útbreiðslu lýðræðis. Samskipti við kleptókratískar einræðisstjórnir eru mun einfaldari heldur en samskipti við önnur lýðræðisríki. Það eina sem þarf til þess að fá autokrata til þess að gera það sem þú vilt er nógu andskoti mikill peningur handa honum og valdaklíku hans, ásamt loforðum um að hjálpa honum að halda völdum. Af augljósum ástæðum er mun erfiðara að múta lýðræðisríkjum á þennan hátt.

Í dag byggist mikið af auði og velmegun vestrænu lýðræðisríkjanna á náttúruauðlindum fátækra einræðisríkja. Undir lýðræðislegu stjórnarfari er alls ekki víst að vestræn ítök myndu varðveitast í þessum fátæku ríkjum. Íran 1979 og Tyrkland 2003 eru mjög greinargóð dæmi um hvernig óþveginn almenningur fátækra lýðræðisríkja getur neitað að beygja sig undir vestrænt vald, jafnvel þegar miklir peningar eru í boði. Lýðræði og auðlindir eru hættuleg og ófyrirsjáanleg blanda fyrir vesturríkin og stórfyrirtæki þeirra.

Varla undra að það gengur illa að lýðræðisvæða heiminn.