31.1.2012 kl. 00:17

Ég hef hugleitt vinstrimennsku eilítið undanfarið. Væri ég krafinn um að skilgreina mig á hægri- eða vinstrivæng stjórnmála, myndi ég tvímælalaust segjast tilheyra þeim síðari. Ég myndi jafnvel ganga svo langt að segja að ég sé vinstrimaður ekki bara í pólitík heldur í grundvallarafstöðu minni gagnvart lífinu sjálfu.

Hvað á ég eiginlega við með "vinstrimennsku"? Svo sannarlega ekki eitthvað samansafn af úreltum efnahagsstefnum eða félagsvísindalegum aðferðum. Ég á heldur ekki við þess konar vinstristefnu sem vill fela ríkinu mikil völd yfir lífi eða lifnaðarháttum borgara. Vinstristefna mín er heldur ekki "kratismi" eða "blairismi" eða neitt af þessum útþynntu, hrygglausu sósíaldemókrata-vinstristefnum sem vita ekkert hvar þær standa lengur. Hún ristir miklu dýpra en það.

Vinstrimennska mín er frá hjartanu. Hún felst í vantrausti á valdi almennt, valdi í öllum sínum birtingarmyndum. Ég held með litla manninum gegn þeim stóra. Mín samúð er með þeim fátæku og fyrirlitnu og misnotuðu, og með venjulegu, óbreyttu fólki að reyna að ná endum saman í sálarlausum heimi heimskapítalisma og póstmódernisma. Hún liggur alls ekki hjá stórfyrirtækjum, eða feitum úthverfaviðskiptaköllum á jeppum, eða Finni Ingólfssyni og samsvörum hans víðsvegar um heiminn, mönnum sem maka slímugan krókinn á kostnað skattborgara. Ég hef andúð á auðæfum, og siðferðislegu og félagslegu úrkynjuninni sem fylgir ríkidómi fárra á kostnað almennings. Ég er á móti sameiningu valds í hendur fárra, í hendur sérstakra stétta eða ákveðinna stjórnmálaflokka. Ég er á móti feðraveldinu, og þessum heimsku, gráðugu, alpha-territorial karlmönnunum sem eru helsti eyðileggingarkrafturinn í samstarfi og vináttu fólks alls staðar í heiminum. Ég er á móti nauðgun náttúrunnar af mannana völdum, ég er á móti rasisma, ég er á móti gervivísindum eins og hagfræði, ég er á móti teknókrasíu, ég er á móti stéttaforréttindum, áróðri, lygum og ofbeldi, ég er á móti niðurlægingu mannsandans í öllum sínum birtingarmyndum, ég er á móti heilaþvættinum í fjölmiðlum og menntakerfum hinna ýmsu ríkja, ég er á móti hræsni og sjálfsumgleði vesturlanda, og á móti kerfisbundinni misnotkun og nauðgun þeirra á hér um bil öllum heiminum gegnum beina eða óbeina nýlendustefnu. Ég er á móti óréttlátu valdboði yfirhöfuð.

Á meðan heimurinn er jafn fáránlega óréttlátur og hann er, þá er varla þörf á neinu til að vera með.


7 comments have been posted
Add Comment | RSS Feed

Arnaldur | 31.1.2012 kl. 00:20
Arnaldur

Bravó!

Guðmundur D. Haraldsson | 31.1.2012 kl. 00:46
Guðmundur D. Haraldsson

Um það bil það sem ég vildi sagt hafa.

Ásgeir Berg | 31.1.2012 kl. 01:01
Unknown User

Ég segi eins og hún Magga blessunin: This is what I believe.

Kolbeinn Stefánsson | 31.1.2012 kl. 07:53
Unknown User

Brill

Héðinn Björnsson | 31.1.2012 kl. 09:05
Unknown User

Mikið væri gott ef við vinstrimenn færum aftur að skilgreina okkur eftir því sem við erum fylgjandi í stað þess að einskorða okkur við það sem við erum á móti.

Steinn | 31.1.2012 kl. 09:17
Steinn

Heyr heyr.

Nanna | 1.2.2012 kl. 20:20
Nanna

True dat.