11.1.2012 kl. 15:24

Ég hló með sjálfum mér þegar ég las eftirfarandi staðhæfingu frá Friðriki J. Arngrímssyni, framkvæmdastjóra LÍU:

"Umræðan um sjávarútveg hefur því miður ekki verið nógu málefnaleg."

Aldrei hélt ég að ég yrði sammála framkvæmdarstjóra LÍÚ um eitt eða neitt, en hér hittir hann naglann á höfuðið. Umræðan um sjávarútveginn hefur nefnilega alls ekki verið nógu "málefnaleg." Það er m.a. vegna þess að hann og kvótagreifavinir hans, og svo stjórnmálamennirnir sem þeir hafa í vasanum, halda úti umfangsmiklum hræðsluaróðri sem dynur yfir landann á hverjum degi, meira að segja á RÚV. Það hlýtur að kosta þá drjúgan skilding að reka Morgunblaðið hans Dabba og þetta hlægilega hlutdræga Sjávarútvegsblað, en þetta er klárlega góð fjárfesting til langs tíma. Það eru eftir allt saman hundruðir milljarða í húfi.

Aðferðafræði Karls Marx, að greina uppbyggingu mannlegra samfélaga á grundvelli hagkerfisins, hefur mikið til dottið úr tísku í sagnfræðinni. En gamla góða latneska cui bono? -- eða jafnvel ameríska follow the money -- veitir manni samt sem áður einstaklega góðan skilning á uppsprettu valds í íslensku samfélagi. Þeir sem stjórna fiskinum stjórna landinu, beint eða óbeint.


23 comments have been posted
Add Comment | RSS Feed

Eiki | 11.1.2012 kl. 15:42
Eiki

Svo ekki sé minnst á að "umræðan" er ómálefnaleg ("því miður").

Og það er eiginlega bara hægt að skilja þetta sem: "því miður eru andstæðingar mínir ómálefnalegir".

Muna þetta næst þegar maður hrindir einhverjum sakleysingja í poll: segja að samskipti ykkar hafi því miður verið óheppileg. Spyrja svo hvar nýja Ísland sé.

Arnaldur | 11.1.2012 kl. 18:09
Arnaldur

Bravó Herra, sir.

Þorvaldur Hrafn | 11.1.2012 kl. 17:18
Þorvaldur Hrafn

Held að morgunblaðið sé rekið með hagnaði, er samt ekki nógu viss. Allavegana er það eldra en Davíð, og mun vera til þegar hann lætur af störfum.

En ég skil samt ekki, ég hef fylgst svoldið með þessari umræðu, hef ekki heyrt neina gagnrýni á sjálft kvótakerfið.

Vissulega eru margir sem fara mikinn yfir því að úthlutunin hafi í upphafi verið óréttlát. Það er eflaust rétt, en það er einfaldlega annað mál. Ef það stendur til að glíma við það eða leiðrétta, þá hlýtur að vera til auðveldari aðferðir en að afnema allt kerfið?

Ég styð kvótakerfið í núverandi mynd, ég þekki engan sem á kvóta og enginn úr minni fjölskyldu eða vinahóp fékk slíkan.

Sveinbjörn | 11.1.2012 kl. 18:22
Sveinbjörn

Við vitum öll hvar þú stendur í þessum málum, Þorvaldur.

Varðandi Morgunblaðið, þá hefur það verið rekið með bullandi tapi lengi, og þá sérstaklega miklu síðan DO tók við sem ritstjóri. Gúglaði og fann m.a. þetta:

http://www.pressan.is/pressupennar/LesaOlafArnarson/ometanlegur-reynslubolti

Þetta er auðvitað rúmlega ársgamalt, en ég sé engar forsendur fyrir því að ætla að eitthvað hafi skyndilega snúið við rekstri blaðsins, sem er nú orðið óforskammaður flokkssnepill harðlínu-sjalla, brennandi margar milljónir af fiskpeningi LÍÚ á hverjum degi.

"Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins, tapaði tæplega 1,4 milljarði á síðasta ári [2009]. Rekstrartapið nam 667 milljónum og fjármagnskostnaður nam um 700 milljónum. Árvakur fékk niðurfelldar skuldir í Íslandsbanka upp á 4,7 milljarða. Í árslok 2009 var eigið fé fyrirtækisins 776 milljónir og því deginum ljósara, að eigið fé Árvakurs er orðið neikvætt nú, nema reksturinn hafi umturnast til hins betra. Það bendir hins vegar ekkert til að reksturinn hafi lagast á þessu ári. Lesendum og áskrifendum fækkar enn – sem og auglýsendum – og haft er fyrir satt að daglega séu ekki prentuð nema ríflega 20 þúsund eintök af þessum fyrrum risa á íslenskum fjölmiðlamarkaði.

Útgefandi blaðsins segir reksturinn í fyrra hafa verið í samræmi við væntingar fjárfesta, sem keyptu Árvakur af Íslandsbanka á fyrri hluta ársins. Sé þetta rétt staðfesta orð útgefandans það, sem ég hef haldið fram í pistlum mínum – að nýir hluthafar í Árvakri, sem flestir koma úr röðum útgerðarmanna, fjárfestu ekki í Morgunblaðinu til að ávaxta sitt pund. Sú fjárfesting er herkostnaður vegna orrustunnar um Ísland, sem háð er um þessar mundir. Helstu forkólfar útgerðarinnar í landinu telja gjafaauði sínum vel varið með því að borga næstum fjórar milljónir á dag til að áróður samtakanna berist inn á nokkur þúsund heimili í landinu."

Arnaldur | 11.1.2012 kl. 21:58
Arnaldur

Ég held að enginn vitiborinn maður tali beinlínis gegn einhverskonar fiskveiðistjórnunarkerfi.

Gagnrýnin á kerfið snýr nákvæmlega að útdeilingu gæðanna, og hvort kerfið sé sanngjarnt þannig. Mér þykir það undarlegt að láta eins og einn veigamesti þáttur kerfisins skipti ekki máli í þessu samhengi.

Enginn hefur talað um að leggja niður fiskveiðistjórn á Íslandsmiðum - talið snýst um uppstokkun á heimildum.

Öllum ætti að vera það ljóst að núverandi kerfi (útdeiling) er ekki réttmætt. Meira að segja Mannréttindanefnd Sameinuðu Þjóðanna kemst að þessari niðurstöðu. - Að kerfið bjóti beinlínis gegn ákvæðum mannréttindasáttmálans um jafnræði.

Það er vissuleg stórmanlegt að þú skulir styðja þessi mannréttindabrot í núverandi, óbreyttri mynd, jafnvel þótt þú, fjölskylda þín og vinir hafi verið hlunnfarin.

Fyrr má nú aldeilis vera fylgispektin...

Doddi | 13.1.2012 kl. 09:26
Doddi

Gera menn samt ekki greinamun á a) útdeilingunni á sínum tíma og b) hversu gott kerfið er? Nú er það svo að meira en 90% allra aflaheimilda hafa skipt um hendur frá því að kerfinu var komið á. Nánast allir þeir sem fengu gefins kvóta (sem er auðvitað mjög umdeilanlegt) hafa selt sig út. Þeir sem keyptu hafa væntanlega gert það í trausti þess að þeir gætu veitt undirliggjandi aflaheimildir um ókomna framtíð (svona til að einfalda málin). Það eru tveir hlutir sem ég hef aldrei heyrt um: i) Hvernig eigi að vinda ofan af þessu kerfi án þess að valda mjög miklu eignatjóni hjá þeim sem keyptu sér aflaheimildir fair and square b) Hvaða kerfi sé betra en það sem er á Íslandi í dag. Ef einhver er með svör við þessu á reiðum höndum á auðvitað að ræða þau, enda er ekkert kerfi hafið yfir allan vafa.

...... Þetta álit frá mannréttindanefndinni er hálfgerð della - um það hefur verið fjallað margoft á ýmsum miðlum. Það verður aldrei hægt að skapa kerfi utan um nýtingu náttúruauðlinda sem beinlínis allir verða ánægðir með. Röksemd mannréttindanefndinni er helst sú að atvinnufrelsi sé skaðað með því að takmarka aðgang að auðlindinni. Allir skynsamir menn sjá að til að veiðar við Ísland geti haldið áfram til langs tíma verður að takmarka veiðar með einhverjum hætti, og slíkt er mjög erfitt í framkvæmd án þess að gera einhverja óánægða. Er Noregur að vinna gegn atvinnufrelsi með því að takmarka aðgang að olíulindum sínum til þeirra sem bjóða hæst?

Arnaldur | 13.1.2012 kl. 16:18
Arnaldur

Fiskveiðistjórnunarkerfið er að megninu til gott. Mjög gott jafnvel, og það nær vel fram markmiði sínu í flestu.

Við skulum þó ekki gleyma því að það eru ýmis vankantar á því, s.s. brottkast. Svo hefur heyrst að menn séu að landa fisk undir því yfiskini að hann sé ís. (Ég væri reyndar mjög forvitinn að heyra hver þín reynsla er af þessu, hvort eitthvað sé til í þessum sögum.)

Það er þó einkum tvennt sem mönnum svíður. Það er áhrifin á byggðir landsins við samþjöppun kvótans á fáar hendur (sem ég sé svosem ekki alveg hvernig á að bregðast frekar við). Til að mæta þessu eru ýmis ráðstafanir svosem byggðakvóti o.s.frv. og er það vel.

Hitt er upphaflega úthlutunin, sem þú talar um, og ég held að flestum sé umhugað um.

Ég hef svo sem enga patent-lausn á þessu máli, frekar en aðrir, en mér finnst áhugavert að nota hugtökin 'fair and square' í þessu samhengi. Mætti líta á þetta sem kaup á þýfi? Einhverjum kynni að finnast sem svo að upprunalegu 'eigendur' kvótans hefðu tekið hann traustataki þegar þeir áframseldu hann.

Alltént finnst mér það bera vott um lélegt viðskiptavit að kaupa varning sem óvissa leikur um, hvort að sé raunverulegt verðmæti til framtíðar. Menn sem ástunda svoleiðis áhættufjárfestingar verða að taka þeim afleiðingum. Mér þykir óþarfi að ríkið hlaupi undir bagga með þeim í þessu. Menn verða að standa og falla með sínum fjárfestingarhugmyndum, hvort sem þær reynast vel eða illa. Ef þeir væru skynsamir menn, þá hefðu þeir tryggt sig á einhvern hátt.

Mætti þá kannski rekja kröfurnar aftur til upphaflegu seljendanna? Það ætti þá væntanlega að vera hægur leikur að bæta þeim sem keyptu hina gölluðu vöru tjónið, þar sem seljendurnir eru farsælir fjárfestar eða hvað?

Sveinbjörn | 13.1.2012 kl. 16:31
Sveinbjörn

Þeir sem keyptu kvóta af einstaklingum sem fengu hann afhentan undir vafasömum og afskaplega spilltum kringumstæðum hljóta að hafa gert sér grein fyrir því að svo umdeild rástöfun myndi ekki skapa þeim öruggan eignarétt til frambúðar.

Ef þú kaupir þýfi, þá geturðu búist við því að réttmætir eigendur geri tilkall til þess. Caveat emptor.

Doddi | 13.1.2012 kl. 16:52
Doddi

Það eru bara 2-3 ár síðan þessi óvissa um aflaheimildir var búin til.

Ég get alveg ímyndað mér hvernig menn sáu þessa úthlutun fyrir sér á sínum tíma. Þeir sem áttu báta og höfðu verið að veiðum a.m.k. 10 ár á undan fengu úthlutaðan kvóta. Makes sense, þannig lagað. Það hefði örugglega verið betra og ásættanlegra í margra augum að úthluta þessu til 25-30 ára. En kerfið hefur virkað afskaplega vel, þó það sé mörgum þyrnir í augum að einhverjir einstaklingar hafi hagnast vel. En ég sé ekki hvernig er hægt að vinda ofan af þessu án þess skapa ríkinu mörghundruð milljarða skaðabótaskyldu, nema menn vilji kippa eignaréttarákvæðum og fleiru úr sambandi á meðan.

Sveinbjörn | 13.1.2012 kl. 18:24
Sveinbjörn

Þ.e.a.s. þegar Sjálfstæðisflokkurinn, sem er hagsmunaflokkur þessa fólks, missti völdin?

Doddi | 14.1.2012 kl. 08:18
Doddi

Þetta var kosningaloforð hjá Samfylkingunni, já. Vel að merkja var ágæt samstaða um hið nýja kerfi þegar það var samþykkt, enda var atvinnuvegurinn kominn í steik á þeim tíma.

Sindri | 11.1.2012 kl. 21:06
Sindri

"He who controls the spice, controls the universe". Það breytist ekkert.

Þorvaldur Hrafn | 11.1.2012 kl. 22:59
Þorvaldur Hrafn

Við skulum taka því sem Ólafur með fyrirvara, svipuðum þeim sem sem lagt er til að hafður sé á málflutninig í Morgunblaðinu. Sérstaklega þar sem heimildin hans er grein úr sama blaði og hann er þarna að skrifa í. Það er í sjálfu sér ekki stórvægilegt atriði að það sé taprekstur, útgáfa blaða er áhætturekstur, það eru ekki ný sannindi. Sérstaklega ekki þar sem samkeppnisaðilarnir eru annað hvort í eign bankanna, slitameðferð eða ríkisreknir. Ég þekki ekki reksturinn, né hef ég sérstakan áhuga á honum.

Það væri skref í rétta átt ef umræðan færðist úr því að deila á kerfið, í það að deila á útdeilinguna, þetta er sitt hvað.

Hvort sem það er stórmannlegt eða ekki, ég er stór maður um það deila fæstir, fylgispekt við hvað?

Arnaldur | 12.1.2012 kl. 01:09
Arnaldur

Eins og ég segi. Ég held að fæstir deili á kerfið í heild sinni. Megnið af umræðunni beinist að þeim hluta kerfisins sem lýtur að útdeilingunni. (Þetta er ekki sitt hvað, eitt tilheyrir öðru.)

Ég geri ráð fyrir að blindur stuðningur þinn við kerfi sem þú stendur utan við og virðist almennt hafa lítinn áhuga á, sé tilkominn af fylgispekt við önnur og stærri öfl eða hugmyndir? Ellegar þætti mér undarlegt að taka jafn afgerandi afstöðu og þú gerir.

Doddi | 13.1.2012 kl. 09:30
Doddi

Stuðningur við kvótakerfið þarf ekkert að mótast af fylgispekt eða blindu. Ég ítreka að úthlutunin á níunda áratugnum var ekki eins og best verður á kosið, en réttlætir það að kollvarpa kerfinu. Það er engin lygi að íslenskur sjávarútvegur er sá arðbærasti í heimi og hefur aldrei skapað meiri verðmæti fyrir íslenska þjóðarbúið en á síðustu 20-25 árum. Það er einfaldlega staðreynd.

Arnaldur | 13.1.2012 kl. 16:24
Arnaldur

Það að eitthvað skapi verðmæti þýðir ekki að það sé sanngjarnt eða réttlátt eða gott.

Það er einfaldlega staðreynd.

Bankarán eru ákaflega arðbær þegar vel tekst til. Slíkt er þó vart til eftirbreytni.

Þrælahald skapar oft mikil verðmæti, en ekki fer fyrir sanngirni eða réttlæti þar.

Nú er ég ekki að líkja kvótakerfinu við þrælahald eða bankarán (eða jú, kannski smá við bankarán). Ég er bara að benda á að verðmætasköpun er enginn endanlegur mælikvarði á hvað er eftirsóknarvert. Sérstaklega ef einhver vafi leikur á um sanngirni kerfisins sem skapar auðinn.

Doddi | 13.1.2012 kl. 17:02
Doddi

Ok, ef að við erum hreinlega ósammála um að æskilegast sé að skapa sem mest verðmæti úr auðlindum Íslands þá held ég að þessi umræða komist ekki langt. Íslenskur sjávarútvegur tapaði peningum um áratugaskeið og þurfti í sífellu gengisfellingar og neyðarlán (sem veitt voru af bönkum með pólitískri íhlutun). Ég efast reyndar um að þú viljir fara þangað aftur, en ef menn vilja halda áfram að reka einhvers konar velferðarkerfi, opinbera skóla og annað slíkt er verðmætasköpun einfaldlega nauðsynleg.

Án þess að væna þig um það, eru mjög margir á Íslandi sem eru á eftirfarandi skoðunum "samtímis": Kvótakerfið er slæmt því aflaheimildir safnast á fárra hendur. Landbúnaðarkerfið er slæmt vegna að kjöt erlendis er ódýrara (sem er vegna mikillar samþjöppunar í landbúnaði). Álver fá rafmagn alltof ódýrt, við gætum verið að græða miklu meira á þessu.

Sveinbjörn | 13.1.2012 kl. 17:31
Sveinbjörn

Hlutirnir eru nú ekki alveg svona einfaldir.

Auðvitað þurfa verðmæti að skapast, en það er ýmsum varnöglum slegið. T.d. þá er ákveðin tegund af verðmætasköpun þess eðlis að hún skemmir fyrir öðru sem hækkar lífsgæði okkar eða er okkur mikilvægt af pólitískum og siðferðislegum ástæðum. Þú þekkir væntanlega öll frægu "negative externalities" dæmin úr hagfræðinni -- mengun, hávaði, o.fl. -- þar sem transaction milli tveggja aðila felur í sér óbeinan kostnað fyrir þriðja aðila.

Kvótakerfið skapar alls konar negative externalities, ekki síst í áhrifum sínum á pólitík á Íslandi. Ákveðnar "hagræðingar" geta haft mjög slæm áhrif á samfélagið, samþjöppun auðs í fáar hendur, sem eitrar pólitíkina, eins og við sjáum t.a.m. með Sjálfstæðisflokkinn, sem er í dag fyrst og fremst hagsmunaflokkur þeirra örfáu manna sem eiga lungað af verðmætum landsins.

Sem almennum borgara er mér alveg skítsama um verðmætasköpun sem skilar sér ekki í betri ríkisþjónustu, betri atvinnutækifærum og almennt aukinni velferð allra venjulegra íslendinga.

Ég held að fáir vilji sjá sjávarútveginn ríkisrekinn, það er algjör strámaður. Hins vegar held ég að mjög margir myndu vilja sjá þrennt gerast:

1) Einhvers konar leiðréttingu á því gróteska óréttlæti sem átti sér stað við upprunalegu úthlutun kvótans.

Þetta var stórfelldur þjófnaður á helstu auðlind landsins, sem var GEFIN, ekki seld eða leigð eða sett á uppboð, eins og eðlilegt hefði talist í siðmenntuðu landi. Ef við getum ekki sammælst um óréttlætið sem átti sér stað við orgínal úthlutun, þá sé ég engar forsendur fyrir frekari samræðu. "Two wrongs do not make a right." Ef orgínal kvótaúthlutun var óréttlát, þá er núverandi ástand óréttlátt. Punktur og basta. Auðvitað er sjálfsagt að fara í málamiðlanir, af praktískum ástæðum, en kvótaliðið þarf borga fyrir það sem þeir fengu, á einn eða annan hátt. Ég er í sjálfu sér ekki mótfallinn eignaupptöku og þjóðnýtingu í þeim tilgangi, ef til þess kæmi, þótt mörgum kunni að þykja það radikal.

2) Gríðarlega aukningu á skerf ríkisins af hagnaði sjávarútvegsins.

Þessi auðlind er sameiginlegur arfur íslensku þjóðarinnar, og ÖLL þjóðin ætti að njóta góðs af henni á beinan og palpable hátt, ekki fyrst og fremst þessar 40 fjölskyldur sem eru orðnar kvótamilljarðamæringar.

3) Koma í veg fyrir sameiningu kvótans í hendur fárra

Sameining kvótans hefur þau áhrif að tiltölulega lítill hópur fólks á Íslandi -- lítill hópur sem almenningur kaus ekki, þekkir ekki, valdi ekki og treystir ekki -- fer með GRÍÐARLEG völd í samfélaginu. Þessi hópur hefur fyrir löngu keypt upp pólitísku hægrielítuna sem þú sýnir svo mikla hollustu við, og heldur nú úti heilu fjölmiðlunum til þess eins að tryggja áframhaldandi auð sinn og vald með áróðri, hártogunum og mútum.

Ég held að skynsamleg endurskoðun kerfisins myndi hafa það að leiðarljósi að leiðrétta þetta þrennt, á einn eða annan hátt. Það má svosem deila um hvaða leið er vænlegust, en það er annað mál.

Eitt er hins vegar alveg ljóst, þótt menn líti oft fram hjá því í hýperbólísku umræðunni um þetta, að þótt öll sjávarútvegsfyrirtæki landsins færu samstundis á hausinn og misstu kvótann sinn, þá myndu veiðar við íslandsmið ekki leggjast af. Nýir menn myndu hreinlega taka við. Við, fólkið í landinu, getum hróflað við þessu eins og við viljum. Það er ekki eins og sjávarréttindi Íslands breytist, eða eftirspurnin eftir fiski, eða atvinnutækin sjálf, sem verða áfram í landinu, og nóg af fagmönnum tilbúnir að vinna í þessum iðnaði.

Að allt muni fara til andskotans ef það er hróflað við þessu er einmitt mýtan sem LÍÚ hefur tekist að sannfæra landann um með hræðsluáróðri.

Doddi | 14.1.2012 kl. 08:23
Doddi

Það er hægt að leysa b) og c) með mjög einfaldri löggjöf. Varðandi b) væri t.d. hægt að setja á royalty tax eins og tíðkast víða í olíugeiranum. Í dag má einn lögaðili ekki eiga meira en ~20% allra útgefinna þorskígildistonna. Einfalt að breyta því.

Varðandi a), þá er það erfiðara þar sem nánast allir sem fengu úthlutaðar aflaheimildir á sínum tíma hafa selt sig út. Vel má vera að menn geti fengið út að núverandi ástand sé óréttlátt vegna þess að upprunaleg úthlutun var rétt. Spurningin er bara hvort það sé þjóðarbúinu til heilla að ýta á reset-takkann og setja öll sjávarútvegsfyrirtæki á hausinn og vonast síðan til þess að einhvers staðar sé til aur til að selja aflaheimildirnar upp á nýtt. Ég er eiginlega sannfærður um að svo sé ekki, þess vegna líst mér heldur illa á fyrningarleiðir og innkallanir. Alveg það síðasta sem Ísland þarf á að halda núna.

Doddi | 14.1.2012 kl. 08:24
Doddi

Vel má vera að menn geti fengið út að núverandi ástand sé óréttlátt vegna þess að upprunaleg úthlutun var _ranglát_, átti að standa þarna.

Þorvaldur Hrafn | 17.1.2012 kl. 11:00
Þorvaldur Hrafn

Það eru merkilega margir sem myndu vilja sjá sjávarútveginn ríkisrekinn, og þá sérstaklega úr hópi þeirra sem slá fjálglega um sig með sameign þjóðarinnar og öðru þvíumlíku. Allt að einu sé ég ekki strámanninn, enda var það ekki skoðun sem var neinum gerð upp hér, né einhver sem hélt því fram hér, raunar tala ég sérstaklega um kommúnisma til aðgreiningar frá skoðunum þeirra sem voru búnir að leggja orð í belg. Hinsvegar er ríkisrekstur sjávarútvegsfyrirtækja, beint og óbeint, verulega stór hluti af rekstri þeirra áður en kvótakerfið var tekið upp. Að nota strámanninn í þessu samhengi er alger strámaður.

1) Ég hef ekki kynnt mér sérstaklega úthlutunina, en rökræðunnar vegna getum við gefið okkur það að svo hafi verið. Ég er í því samhengi ekki ósammála því að einhvers konar leiðrétting gæti átt rétt á sér, hinsvegar er framkvæmdin á því eitthvað sem þarf að fara varlega í. Til að setja hlutina í samhengi þá var landið og pólitískt umhverfi á þessum árum eins og það var. Lán voru veitt úr bönkum, t.d. útvegsbankanum, alfarið á forsendum þess hverra manna viðkomandi var og hversu vel tengdur inn í sjálfstæðis- og framsóknarflokkinn lántaki var. Að selja kvótann hefði þýtt svipaða niðurstöðu, þ.e.a.s. þeir sem valdsmenn vildu fengju kvótann hefðu fengið hann.

Eigi að leiðrétta, finnst mér það vera eitthvað sem þyrfti að skoða atviksbundið í hverju tilviki fyrir sig. Það er ekki óeðlilegt eitt og sér, að mínu mati, að þeir sem stunduðu útgerð fengu úthlutað.

Sjávarútvegurinn, eins og mér heyrist allir hér vera sammála um, er mjög mikilvægur fyrir landsmenn. Þótt það sé rétt að hann muni ekki leggjast af við breytingu á kerfinu, gæti það alveg farið úr því að vera arðbært og atvinnugrein sem skilar verulegum fjárhæðum í ríkissjóð, í það að vera ríkisstyrkt og niðurgreiddur baggi á okkur öll. Raunar eins og þú segir sjálfur „Auðvitað er sjálfsagt að fara í málamiðlanir, af praktískum ástæðum, en kvótaliðið þarf borga fyrir það sem þeir fengu, á einn eða annan hátt.“ Hvernig við ætlum að ná því sem þú kallar lið „1)“ er vandmeðfarið, og það þarf að stiga varlega til jarðar. Ef það á að meta þetta út frá praktískum sjónarmiðum og sanngirnis, þá er ekki mikið eftir að vera ósammála um.

Hef ekkert um lið 2. að segja, held það sé eitthvað sem vel flestir geti skrifað undir, þó ég viti svosem ekkert hvað það eru margir sem eigi kvóta og hvernig því er skipt og svo framvegis. Gætum sagt slegið með breyttum breytanda.

Það er ekki fyrr en í því sem þú kallar lið þrjú sem fer að skilja eitthvað að í skoðunum. Látum strámanninn um hægrielítu sem ég er að sýna hollustu við liggja milli hluta, og því samhengi aðra strámenn sem hafa verið smíðaðir mér til höfuðs. Ég er alfarið ósammála því að samþjöppun kvóta, eða auðs ef út í það er farið, sé af hinu sjálfkrafa illt. Það á bæði við um í samhengi kvóta, og um auðsöfnun almennt.

Þorvaldur Hrafn | 12.1.2012 kl. 10:28
Þorvaldur Hrafn

Ég aðhyllist ekki fastmótaða yfirgripsmikla hugmyndafræði, hinsvegar lít ég til ákveðinna grunnstoða sem ég tel heilbrigt samfélag eigi að byggja á, eignarétturinn er það einna mikilvægastur. Það er eitthvað síðan ég nennti að fylgjast með pólitískri umræðu almennt, nema þá að lesa skoðanir og karpa við, menn sem ég ber virðingu fyrir. Í slíkri umræðu hefur hugtakinu þjóðareign auðlindarinnar verið það sem oftast er bent á, en óréttlætið meira gagnrýni á ráðamenn þess tíma. Þessi skoðun var síðan staðfest þegar ég „nýtti“ morguninn í að skoða umræðuna um kvótann með google leit.

Varðandi kvótakerfið og umræðuna um það, google niðurstöður sé leitarstrengurinn kvótakerfið er wikipedia lausn, pdf skrá eftir háskólamann og síðan þessi grein eftir Ólínu Þorvarðar http://www.mbl.is/frettir/innlent/2011/01/15/afnemi_kvotakerfid_strax_i_ar/, sem segir m.a. „Við getum ekki staðið hjá við uppbyggingu atvinnuveganna. og ofurselt þá tilviljanakenndum markaðslögmálum.“ Gagnrýnin lýtur hér að því að markaðslögmálin ráði ferðinni en ekki bjúrókratar eða önnur handbendi Ólínar. Hún heldur áfram og segir síðan „Í fyrsta lagi að hið skýra ákvæði fiskveiðistjórnunarlaga um að auðlindin sé sameign þjóðarinnar og að nýting hennar myndi aldrei eignarrétt,“. Fjórða niðurstaðan er síðan Atli Harðarson, sem talar um þetta sem skerðingu á atvinnufrelsinu og þjóðnýtingu. Hann opnar á svipuðum stað og annarstaðar, og segir að deilan snúist fyrst og fremst um „réttlæti“ (sem er þægilegt orð að baða sig í á hátíðardögum). Fimmta niðurstaðan var frá Líu, sjötta er stuttur pistill sem fjallar um þetta eingöngu í samhengi við þjóðareign.
Greinar andstæðinga kerfisins áttu það allar sammerkt að fjalla fyrst og fremst um kerfið sjálft, og flestar nær allar um að setja ætti heimildirnar í þjóðareign.Vissulega er minnst á útdeilinguna, en það er annað hvort aukreitis, eða til að slá pólitískar keilur.

Það er allavega ánægjulegt að við getum verið sammála um að kerfið sé skynsamlegt hvað varðar nýtinguna, og kommúnískar hugmyndir um að setja þetta í ríkisrekstur í einni eða annarri mynd séu eitthvað sem tekist hefur að virða að vettugi úr umræðunni. Ég spyr hinsvegar, væri ekki eðlilegra að komast að því hverjir hafi hagnast með ólögmætum hætti, eða óeðlilega, á útdeilingunni, í því skyni að greina þá frá þeim sem hafa keypt sig inn í kerfið (og þá með skuldsetningu).

Ef rekstur morgunblaðsins skilar u.þ.b. 300 miljóna tapi á ári, þá finnst mér það ekki tiltöku mál. Morgunblaðið er eldra en við hér, og jafnvel án peninga frá útgerðinni, mun það lifa okkur alla. Það væri fróðlegt að sjá rekstrartölur frá RÚV til samanburðar, og hvernig sá rekstur stæði, ef ekki væri hirtur af mér lunginn af hýrunni um hver mánaðarmót til að fjármagna sukkið og áróðurinn þar.