Allir þekkja hægri-vinstri aðgreininguna, sem er ráðandi í stjórnmálum á vesturlöndum, og víðast hvar annars staðar í heiminum. Menn eru að öllu jöfnu sagðir "hægrimenn" eða "vinstrimenn" í skoðunum sínum, eða jafnvel "miðjumenn", og það er talað um "vinstristefnu" og "hægristefnu" í stjórnmálaskýringum. Flestir kynnast þessum hugtökum snemma, og þau móta hina almennu sýn á stjórnmál og stjórnmálaheimspeki.

FrenchGeneralAssembly

Upptök aðgreiningarinnar má rekja til franska þjóðþingsins á tímum byltingarinnar 1789, en þar skiptust fulltrúarnir í hægri- og vinstrifylkingar á grundvelli afstöðu sinnar til alvalds konungs. Hægrimenn voru því fylgjandi en vinstrimenn á móti.

Rúmlega tvö hundruð árum síðar sitjum við enn uppi með þessa barnalegu, einföldu, "mono-dimensional" og afskaplega afvegaleiðandi mælistiku á pólitíska afstöðu manna. Rasistar, þjóðernissinnar, klassískir íhaldsmenn og frjálshyggjumenn eru t.a.m. sagðir til hægri, en kratar, kommúnistar og anarkistar eru sagðir til vinstri. Það hlýtur að vera öllum skynsömum mönnum ljóst að hægri- og vinstristimplarnir eru með öllu ónothæfir á meðan þeir ná yfir svo fjölbreytt og innbyrðis ólíkt samansafn pólitískra kenninga og viðhorfa.

Frjálshyggjumaðurinn David Nolan var ósáttur með þessa hefðbundnu skiptingu og fann í kjölfarið upp Nolan skalann svokallaða [sem er m.a. notaður á Political Compass]. Þar eru tveir ásar, annars vegar frjálslyndi í efnahagsmálum, og hins vegar frjálslyndi í félagsmálum. Þá væri t.d. frjálshyggjumaðurinn hátt á báðum ásum, íhaldsmaðurinn einungis hátt í efnahagslegu frjálslyndi, o.s.fv.

Nolan Chart

Þótt hann sé gildishlaðinn, þá kann það að vera að Nolan skalinn sé betri mælistika á almenna pólitíska afstöðu fólks heldur en hefðbundni hægri-vinstri-ásinn. Hins vegar er hann engan veginn nógu afgerandi. Hvar er t.d. mælirinn á afstöðu gagnvart náttúrunni? Sumir eru grænir en aðrir ekki, þvert á hefðbundnar hægri-vinstri-línur. Hvar er mælirinn á velferð dýra, sem er ólíkasta fólki mikið hjartans mál? Hvar er afstaðan gagnvart hlýnun jarðar? Hvar eru skoðanir á hugverkalögum, dauðarefsingu, trúarbrögðum, þjóðríkinu og frjálsum fólksflutningum? Öll þessi málefni ná þvert yfir pólitíska litrófið.

Að smíða almennilegan mælikvarða á pólitík er ómögulegt eðli málsins samkvæmt. Enginn einn mælikvarði, með takmarkaðan fjölda ása, getur gefið áreiðanlega mynd af pólitískri afstöðu allra. Það er vegna þess að grunnásarnir í slíkum mælikvarða yrðu alltaf að vera jafn margir og einstök grundvallargildi þeirra aðila sem staðsetja ætti á skalanum.

Allir siðferðislega þenkjandi menn eru pólitískir menn. Það er vegna þess að það er með öllu ómögulegt að slíta siðferði frá pólitík eða pólitík frá siðferði. Þetta samtvinnast á mjög flókinn hátt. Öll stjórnmálaheimspeki hvílir á einhverri undirliggjandi siðfræði, sem byggir síðan á einhverju telos -- ósannanlegum grundvallargildum eða markmiðum sem skilgreina siðferðislegt rúm.

Það eru grundvallargildin sem ákveða og afmarka pólitík manna. Þau geta hins vegar verið óendanlega mörg og óendanlega ólík.

Ætli við séum ekki varanlega föst með einfeldningstal um hægri og vinstri?


7 comments have been posted
Add Comment | RSS Feed

Steinn | 12.12.2011 kl. 22:28
Steinn

Ég var mjög ánægður þegar datt fyrst inn á political compass (í gegnum þig að mig minnir). Þetta gefur manni aðeins betri tæki til að útskýra afstöðu sína. Annars er svo fáránlegt þegar fólk skorðar sig svona svakalega eftir einhverjum forskriftum hægri-vinstri bullsins.

Sindri Gretars | 12.12.2011 kl. 23:15
Sindri Gretars

Ég hef sjálfur reynt að koma með sömu points, nema ekki á jafn fágaðan hátt og þú hefur gert.

Í einni samræðu þegar ég sagðist vera á þeirri skoðun að hægri/vinstri væri tilgangslaust rugl var mér sagt að það væri því ég hafði ekki nennt að kynna mér það.

"It's all bullshit folks, and it's bad for ya." - George Carlin

Brynjar | 13.12.2011 kl. 00:42
Brynjar

þessi grein minnti mig á áróðursgullmola frá 1946 http://www.youtube.com/watch?v=1Ayxot9vQ_k

Þorvaldur Hrafn | 13.12.2011 kl. 10:15
Þorvaldur Hrafn

David Nolan kvarðinn virðist ætla að mæta þessum gildum sem þú víkur síðan að í næstu efnisgrein. Hvort sem hann gerir það skilmerkilega eða ekki, held ég að það sé hugmyndin. Rasismi myndi væntanlega falla þar undir frekar en á hinn klassíska hægri/vinstri ás, enda er það frekar viðloðandi einræðisherra, sem þurfa ímyndaðan óvin til að mæta getuleysi sínu á öðrum sviðum. Má þar nefna vinstri menn og hægri menn eftir hentugleika, Pol Pot, Stalín eða Fídel.

Síðan hlýtur maður að spyrja sig, hvað er "frjálslyndi í efnahagsmálum"? Ég er ekki sérspekingur (er það orð?) í þessum málum þannig ég skammast mín ekki fyrir að viðurkenna að ég þekki ílla það hugtak. Er það það sem á ensku er kallað „lazzais fair“, sem er eitthvað sem bæði hægri og vinstri menn hafa notað sem (að mínu mati) íllan þjón. Íhaldsmenn og statistar t.d. vilja þungt og niðurnjörvað regluverk, meðan margur kratinn vill halda að sér höndum í regllusetningu.

Mitt persónulega mat er að hægri vinstri kvarðinn, hefði verið nothæfur, ef hann hann væri ekki notaður sem annarleg hula sem fjöl-blóðsugur (poly-tics) sveipa sig á hátíðarstundum. Margur notar vinstri maðurinn notar t.d. „tekjuskatt“ í þeim tilgangi að „jafna“ út tekjubil milli manna, en hann er allt að því gagnslaus í tekjuöflunar tilgangi fyrir ríkissjóð. Þannig er annarlegum sjónarmiðum unnið brautargengi meðan „smælinginn hann týnir upp loforðin tryggur og tekur á sig skítverkin en fær aldrei svör “.

Þorvaldur Hrafn | 13.12.2011 kl. 10:16
Þorvaldur Hrafn

Í lok tilvitnunarinnar kom "hornklofi" með auknum texta frá mér, spjallsíðan át textan. Þar stóð "annað en hægri vinstri spiel".

Freyr | 14.12.2011 kl. 11:54
Freyr

"Það eru grundvallargildin sem ákveða og afmarka pólitík manna. Þau geta hins vegar verið óendanlega mörg og óendanlega ólík."

..thu endadir thannan pistil of snemma; varst rett kominn ad kjarna malsins.

Sveinbjörn | 14.12.2011 kl. 23:08
Sveinbjörn

Ósammála. Markmiðið var að benda á takmarkanir pólitískra skala, og þvæluna í vinstri-hægri tali, ekki að skrifa langan pistil um kenningar mínar í siðfræði. Mikilvægt að vita hvenær maður á að hætta.